06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3398 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

207. mál, sjúklingaskrár

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fsp. eru raunar mörg.

Í fyrsta lagi eru mér minnisstæðar umræður sem urðu meðal læknanema við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum um þessi mál. Þá komu fram ýmsar ásæknar og erfiðar spurningar, t. d. hvert jafnvægi væri milli eðlilegrar upplýsingamiðlunar milli starfsfólks í þágu sjúklings og eðlilegrar upplýsingaleyndar vegna verndunar einkaupplýsinga hans. Í þessum umræðum komu einnig fram efasemdir læknanemanna um að dagbækur og skrár hlytu nægilega vörslu og að upplýsingar úr þeim hlytu nógu gætilega meðferð. Það var jafnvel talað um að slíkar upplýsingar bærust gjarnan út fyrir sjúkrahús á vit almannarómsins. Í öðru lagi hafa mér borist fsp. frá almenningi sem hafa verið svipaðs eðlis, þ. e. fólki þykir meðferð einkaupplýsinga á þessum vettvangi stundum losaraleg. Og í þriðja lagi spyr ég vegna þess að upplýsingatækninni fleygir fram og þessar upplýsingar verða innan skamms og eru kannske nú þegar víða tölvusettar. Það er eðlilegt að þá sé spurt um almenna gæslu þessara upplýsinga, ekki síst þegar vitað er að gæsla þeirra verður sífellt erfiðari þegar tölvunetin tengjast milli stofnana og gerast flóknari.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hérna kemur mjög margt við sögu. Hérna kemur t. d. í fyrsta lagi við sögu að það er mismunandi mat sjúklings og starfsmanns á því hvað sé leyndarmál, við sögu koma þarfir starfsfólks til að hafa greiðan aðgang að sjúkraskrám til að geta stundað sjúkling og við sögu koma þarfir heilbrigðiskerfisins svo að afla megi almennra nákvæmra upplýsinga um heilsufar þjóðar. Það má nefna að í sumum tilfellum er skilyrðislaus upplýsingaskylda sjúklinga eðlileg, t. d. ef um ákveðnar tegundir sjúkdóma er að ræða, eins og kynsjúkdóma. Í þriðja lagi má nefna viðkvæmni sjúklings fyrir sjálfum sér og einkahögum sínum — viðkvæmni sem jafnvel getur verið mjög mikil vegna streitu og álags sem fylgir sjúkdómi eða sjúkdómsferli.

Ég tel eðlilegt að róleg umræða og upplýsingar geti farið fram í þessu máli og því hef ég borið fram eftirtaldar spurningar til hæstv. heilbrmrh.:

„1. Hvaða reglur gilda um varðveislu upplýsinga um sjúklinga á opinberum heilbrigðisstofnunum?

2. Hverjir hafa aðgang að þeim upplýsingum í daglegu starfi stofnananna?

3. Hvernig er háttað eftirliti með því að reglur séu haldnar?

4. Eru uppi áform um tölvuskráningu á upplýsingum um sjúklinga?

5. Ef svo er, hvaða reglur munu gilda um meðferð upplýsinganna?“