06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

430. mál, kvörtunarnefnd

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fyrsta spurning: Nefnd sú sem hér um ræðir hefur verið skipuð. Rn. ritaði Hæstarétti og óskaði eftir að rétturinn tilnefndi í nefndina, sbr. lagaákvæði sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði í. Með bréfi 5. júlí á s. l. ári tilnefndi Hæstiréttur nefndarmenn sem hér segir: Aðalmenn: Ólafur St. Sigurðsson héraðsdómari, María Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur og Baldur Johnsen fyrrv. prófessor. Til vara voru tilnefndir Ragnar Hall borgarfógeti, Svava Björnsdóttir sjúkraliði og Þóroddur Jónasson læknir. Með bréfum 8. sept. voru þessir menn síðan skipaðir í nefndina og Ólafur St. Sigurðsson skipaður formaður og Ragnar Hall varaformaður.

Önnur spurning: Hefur ráðh. sett nefndinni starfsreglur? Í niðurlagi þeirrar lagagr., sem um þetta fjallar, segir svo: „Ráðherra setur nefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar.“ Rn. hefur óskað eftir tillögum nefndarinnar um starfsreglur. Skv. upplýsingum formanns nefndarinnar vinnur nefndin nú að gerð slíkra reglna en það mun taka nokkurn tíma þar eð nefndin hefur gert ráð fyrir að aflað sé ítarlegra gagna frá öðrum þjóðum um störf hliðstæðrar nefndar. Ráðh. mun setja starfsreglur svo fljótt sem auðið er að fengnum þessum tillögum.

Þriðja spurning: Hve mörg mál hafa nefndinni borist til þessa? Skv. upplýsingum formanns nefndarinnar hinn 29. febr. s. l. höfðu nefndinni engin mál borist til afgreiðslu fram að þeim tíma.

Fjórða spurning: Hve mörg mál hefur nefndin afgreitt? Með tilvísun til fyrra svars hefur nefndin engin mál afgreitt.

Til viðbótar þessum upplýsingum er rétt að upplýsa Alþingi um það að lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir að kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Rn. reyndi við gerð síðustu fjárlaga að fá sérstakan fjárlagalið vegna starfa þessarar nefndar, en fjárveiting til þessa verkefnis var ekki samþykkt og hefur því nefndin engan sjálfstæðan fjárhag. Kostnaður sem til fellur á þessu ári vegna starfa nefndarinnar verður því að greiðast eins og er af rekstrarfé heilbr.- og trmrn. en að sjálfsögðu er það óviðunandi þegar til lengdar lætur.