06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

227. mál, stjórn Hafnamálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur frv. til nýrra hafnalaga. Það frv. gerir ráð fyrir talsverðum breytingum frá núgildandi lögum um stjórn hafnamála. Án þess að ég ætli að gera þau efnislega að umræðuefni vil ég aðeins rifja upp nokkrar þessara breytinga vegna þess að þar er að finna forsenduna fyrir minni spurningu.

Í þessum nýju lögum, sem Alþingi hefur nú til meðferðar, er í fyrsta lagi gert ráð fyrir breytingum á stjórn Hafnastofnunar þannig að ráðh. skipi henni stjórn og jafnframt að æðstu menn stofnunarinnar séu ráðnir til skamms tíma.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir breytingu á starfsháttum þannig að stefnt yrði að því að í hlut sveitarfélaga komi meiri hluti framkvæmda en Hafnamálastofnun sinni fyrst og fremst rannsókna- og áætlanagerð.

Í þriðja lagi er um að ræða breytingar á kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs og sveitarfélaga, bæði til hækkunar og lækkunar. Í fjórða lagi er atriði, sem er mjög umdeilanlegt, eins og t. d. að falla frá þeirri stefnu að fjögurra ára áætlun verði annað hvert ár lögð fyrir Alþingi í formi þáltill. og afgreidd þar formlega eins og að var stefnt og vísað til fordæmis vegagerðar.

Fleiri breytingar má nefna en ég ætla ekki að gera það, enda ekki tilefni hér til efnislegrar umr. um þessi lög.

Þessu til viðbótar er síðan þess að geta að frá því hefur verið skýrt að sérstök úttekt eða rannsókn hafi verið gerð á starfsháttum Hafnamálastofnunarinnar. Sú rannsókn var gerð á vegum starfsmanna tveggja opinberra stofnana, þ. e. Hagsýslustofnunar fjmrn. og Ríkisendurskoðunar. Skv. blaðafregnum var þessi skýrsla lögð fram á borð ráðh. í maí s. l. og hún er tilefni minnar spurningar. Ég spyr m. ö. o. hvort ráðh. telji ekki sjálfsagt, með hliðsjón af því að hafnalög eru nú í meðförum Alþingis, að jafnframt verði birt þessi skýrsla, sem er fyrsta, að því er ég best veit, úttekt tveggja opinberra stofnana á Hafnamálastofnun.

Um þessa skýrslu verður ekki margt sagt fyrirfram því hún hefur ekki verið birt. En eftir því sem ég best veit er í henni fyrst og fremst fólgin ákveðin greining á vandamálum sem við er að fást við skipulag og starfsemi Hafnamálastofnunar. Í annan stað er þar skýrt frá ýmsum stjórnunarlegum vandamálum. Auk þess skilst manni af blaðafregnum að fram hafi komið ákærur um meiri háttar misbresti í störfum.

Fyrsti þátturinn er sá að í þessari skýrslu eru, eftir því sem frá hefur verið skýrt, gerðar tillögur um breytingar á því frv. til hafnalaga sem hér liggur fyrir. Mér skilst að þær brtt. lúti fyrst og fremst að því að draga úr framkvæmdaþætti stofnunarinnar sjálfrar, stefnt skuli að því að auka útboð og breytingar skuli gerðar á rekstri t. d. áhaldahúss. Jafnvel hefur því heyrst fleygt að gerðar hafi verið till. um samræmingu, ef ekki sameiningu, á framkvæmdaþætti og jafnvel tækjarekstri þriggja helstu stofnana ríkisins í samgöngumálum eins og Vegamálastofnunar, Hafnamálastofnunar og Flugmálastjórnar. Ég tek fram að þetta segi ég án ábyrgðar, þetta er eitt af því sem umr. hafa orðið um án þess að þessi skýrsla væri birt.

Því næst gerðist það að þann 26. jan. s. l. birti Dagblaðið og Vísir frétt um þessa úttekt sem vægast sagt er með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að spyrja hæstv. ráðh. hvort rétt sé í höfuðatriðum. Í annan stað hlýt ég að telja í framhaldi af því að sjálfsagt sé að birta á Alþingi þessa umræddu skýrslu, bæði vegna þeirra atriða sem þegar hafa komið fram í blaðafregnum og eins vegna þeirrar nauðsynjar Alþingis, sem er að endurskoða hafnalög, að fá skýrslu eða úttekt af þessu tagi á sitt borð um leið og endurskoðun á hafnalögum fer fram.

Í þessari frétt Dagblaðsins fimmtudaginn 26. jan. segir m. a., með leyfi forseta:

„Tildrög þeirrar athugunar sem ríkisendurskoðun og Hagsýslustofnun stóðu fyrir munu ekki síst miklar og sífelldar kvartanir og áfellisdómar frá fjölmörgum aðilum, jafnvel Alþjóðabankanum, og stanslausar kvartanir fyrirtækis þess sem endurskoðar reikninga Hafnamálastofnunar.“

Ég vil taka fram að endurskoðunarstofnun sú, sem hér er nefnd, mun vera Endurskoðunarskrifstofa Manchers. Að því er Alþjóðabankann varðar mun sérstaklega vera átt við athugasemdir um hlut Hafnamálastofnunar við meiri háttar hafnaframkvæmdir, sem fjármagnaðar hafa verið með erlendum lánum fyrir milligöngu Alþjóðabankans, eins og t. d. í Straumsvík, Þorlákshöfn og kannske víðar.

Í þessari frétt segir enn fremur að skv. heimildum blaðsins hafi komið fram við athugun tvímenninganna, sem ég vitnaði til í upphafi, margbrotnir og stórfelldir misbrestir í stjórn Hafnamálastofnunar. Jafnframt er lögð áhersla á að í þessari úttekt sé gert ráð fyrir breytingum á starfsháttum stofnunarinnar og verksviði, t. d. á þann veg að hún verði fremur en áður skipulagsog eftirlitsstofnun, fremur en framkvæmdastofnun eins og nú er.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir forsendum fsp. en spurning mín er fyrst og fremst þessi: Ætlar ráðh. að birta þessa skýrslu með hliðsjón af þeirri endurskoðun sem nú fer fram á Alþingi á hafnalögum?