06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

227. mál, stjórn Hafnamálastofnunar ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fsp. er að engin formleg skýrsla hefur verið send samgrh. um stjórn og starfshætti Hafnamálastofnunar. Hins vegar var að því unnið á vegum Ríkisendurskoðunar og Hagsýslustofnunar að úttekt færi fram á starfsemi Hafnamálastofnunar. Þar komu fram ýmsar ábendingar í blaði sem forstöðumenn þessara stofnana afhentu mér á s. l. vori. Á þessu blaði eru nokkrar ábendingar og nokkur gagnrýni á starfsemi stofnunarinnar. En hvaða stofnun er það í landinu sem ekki fær einhverja gagnrýni?

Frv. til nýrra hafnamála, sem liggur fyrir Alþingi í Ed., var samið löngu áður en þessar ábendingar komu fram. Á því frv. voru gerðar örfáar breytingar af mér sem núv. samgrh. áður en ég lagði það fram sem ég skýrði fyrir deildinni þegar ég fylgdi því úr hlaði. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að birta þessar ábendingar og gagnrýni úr óundirskrifaðri skýrslu, hvorki fyrir Alþingi né öðrum. Þessi mál eru til umfjöllunar í stjórnkerfinu við þessa aðila og við stofnunina.

Blaðamennskan, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, er mjög viðsjárverð og í mörgum atriðum alröng. Oft er flugufótur fyrir frétt en flugufóturinn verður að úlfalda. Ég vil alls ekki taka undir svona blaðamennsku eins og þar kom fram gagnvart einstökum mönnum í opinberu starfi því mér er kunnugt um að í öllum meginatriðum var hér um ranga frétt að ræða. Hins vegar er þessi stofnun ekki frekar en allar aðrar það fullkomin að hún þarfnist ekki frekari athugana við. Vissir annmarkar eru innan þessarar stofnunar sem verið er að vinna að. Þeir verða ekki leystir með blaðaskrifum. Það er ekki rétt leið til að koma á því sem er betra. Það verður leyst með góðri samvinnu ábyrgra embættismanna, eins og hv. fyrirspyrjandi vísaði til, og stofnunarinnar sjálfrar en nánari úttekt mun verða þar gerð.

Í sambandi við áhaldahúsið, sem hv. fyrirspyrjandi minntist á, hefur verkefni þess stórminnkað og þar hefur orðið mikill samdráttur á mörgum undanförnum árum og nauðsynlegt að sá samdráttur verði meiri. Hins vegar er erfitt viðureignar að samræma starfsemi áhaldahúsa hinna ýmsu stofnana ríkisins en þau verkefni eru til athugunar í rn. En á þessu stigi get ég ekki gefið frekari upplýsingar af því þar liggur ekkert endanlegt fyrir.