06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

227. mál, stjórn Hafnamálastofnunar ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vona að hv. fyrirspyrjandi hafi skilið það alveg fullkomlega að ég hef enga skýrslu í höndunum. Sá sem ekki hefur skýrslu í höndunum eða hefur fengið hana getur alls ekki birt hana öðrum. Ég sagði frá því að forstöðumenn þessara tveggja stofnana hefðu rætt við mig í vor um málefni Hafnamálastofnunarinnar og afhentu mér nokkrar athuganir, óformlega skýrslu óundirskrifaða, tiltekin atriði sem þeir bentu á að athuguð væru.

Í sambandi við lögfestingu hafnamálafrv. held ég að allar upplýsingar í því sambandi liggi fyrir. Kannske hv. fyrirspyrjandi sé með þessa skýrslu í fórum sínum. Hún hefur þá átt greiðari leið til hans en til samgrh.

Hitt er annað mál að við þessa stofnun má margt athuga. Eitt af því, sem hefur verið mjög gagnrýnt, er að ekki hefur verið boðið nóg út af verkum. Samþykktar hafa verið á hv. Alþingi hvað eftir annað tillögur um aukin útboð í framkvæmdum hins opinbera. Ég er þeirrar skoðunar og hef ýtt undir allar þessar stofnanir að auka þessi útboð og þau hafa verið aukin á undanförnum árum og alveg sérstaklega núna og því verður eðlilega haldið áfram.

Ég minntist á þetta vandamál með áhaldahúsið vegna verkefnaleysis. Skornar hafa verið niður framkvæmdir til hafnagerðar á mörgum undanförnum árum, ekki af einni eða tveimur ríkisstj. heldur síðustu fjórum, fimm ríkisstj. sem setið hafa, þannig að magnframkvæmdir hafa dregist nokkuð saman. Ég er alveg reiðubúinn að ræða málefni Hafnamálastofnunar við þær n. sem um frv. fjalla og eða starfsmenn rn. En hins vegar hygg ég að ef persónulegar deilur eru uppi, sé ekkert fengið með því að hafa það í blaðaskrifum. Þarna verður gerð úttekt, hlutlaus úttekt á málefnum þessarar stofnunar eins og fleiri stofnana sem ýmist er búið að gera úttekt á eða er verið að vinna að.