06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

434. mál, jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Svo var að skilja á svari hæstv. iðnrh. að ekki væru uppi neinar sérstakar áætlanir nú um frekari jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi. Hins vegar sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi forseta, í niðurlagi sinnar ræðu:

„Ég hef áhuga á og mun beita mér fyrir frekari jarðhitarannsóknum á þessu svæði“.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. nánar um það hvernig nákvæmlega beri að skilja þessi orð hans. Hyggst hann beita sér fyrir því að þessar rannsóknir eigi sér stað á yfirstandandi ári þó svo að engar áætlanir séu uppi um það annars staðar? Mun hann beita sér fyrir því að sérstakar fjárveitingar verði til þessara verkefna á næsta ári, eða hvernig ber að skilja þessi orð hans? Það er ákaflega auðvelt og ódýrt og einfalt að koma hér í ræðustól og gefa yfirlýsingar af þessu tagi, en mér finnst ráðh. bera skylda til að styðja þær frekari skýringum og segja þingheimi nákvæmlega hvað í þessum orðum hans felst.