06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

435. mál, aðgerðir til orkusparnaðar

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við fsp. mínum. Í máli hans kom fram að fyrirhugað er að veita betri fyrirgreiðslu en nú er til þeirra húseigenda sem hafa ráðist í eða eru að ráðast í framkvæmdir sem eru orkusparandi. Ég tel að skýringin á því sem kom fram hjá hæstv. ráðh. varðandi litla eftirspurn eftir lánum frá húsnæðislánakerfinu til orkusparandi aðgerða sé sú, að fólk hefur beðið eftir ákveðnari aðgerðum. Ég vænti þess að innan tíðar muni verða lagt fram á Alþingi frv. til l. þar sem verði tekið á þessu máli öllu, bæði hvað varðar orkusparandi aðgerðir og lánamál vegna þeirra og svo ekki síður kerfisbundnar niðurgreiðslur á raforkuverði og öðrum orkugjöfum sem nýttir eru til húshitunar.

Að lokum vil ég endurtaka þakkir til hæstv. iðnrh. fyrir svar hans.