31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

42. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég tel það að vísu ekki mitt hlutverk að kenna framsóknarmönnum að kyngja, en þó virtist mér nú sem hæstv. forsrh. kæmi þessu niður án meðlætis, þegar ég lagði fyrir hæstv. ríkisstj. till. mína um að þessi brbl. yrðu numin úr gildi. Menn vilja ekki heldur ræða um Landsvirkjun og afkomu hennar í þessu sambandi. Látum það þá svo vera. En ég minnist þess, að hv. 9. þm. Reykv. hvatti menn á sínum tíma til að lesa kvölds og morgna þáv. ríkisstjórnarsáttmála, Ólafskver, og ég held að einstaka maður hafi farið að þeim ráðleggingum. En nú er spurningin hvort hann vildi ekki bregða á það ráð og segja mér þá til, þessi lögspaki maður, hvað merkir ákvæði í núverandi stjórnarsáttmála um það að sveitarfélög skuli sjálf ákveða verð á þjónustu sinni? Það er með beinni vísan til þessa ákvæðis sem það er lagt til að þessi brbl. verði numin úr gildi. Það vill nefnilega þannig til að velflest þeirra hafa með höndum sölu á orku. Sérstaklega á þetta við um hitaveitur. Ég sé því ekki að þetta ákvæði stjórnarsáttmálans nái fram að ganga nema með því móti að nema slíkt alræðisvald úr gildi.

En ég nefni þetta alveg sérstaklega vegna þess að ég hygg að þegar rætt var um þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum, þó að ég væri þar hvergi nærri, hafi sérstaklega verið höfð á orði þessi atriði sem ég nú nefni.