06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Bragi Michaelsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð út af ummælum hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um að það þyrfti að athuga málið í fleiri landshlutum. Ég vil benda hv. þm. á að á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum er langstærsti vinnumarkaður þjóðarinnar og hér er þess fyrst að vænta að færi að gæta verulegs atvinnuleysis ef við lentum í vandræðum. Þess vegna tel ég allar nýjar hugmyndir, hvort sem eru um fríiðnaðarsvæði eða aðrar hugmyndir um að auka atvinnumöguleika, nauðsynlegar. Fríiðnaðarsvæði er ein hugmynd sem er sjálfsagt að skoða.

Ég tek undir að það þýðir ekki í fyrstunni að vera of bjartsýnn í þessu máli. Það er hins vegar trú mín að margt sé hægt að gera á fríiðnaðarsvæði, m. a. stunda ýmiss konar rafeindaiðnað. Við höfum verið að mennta fólk á því sviði. Við höfum verið að framleiða hér ýmiss konar tæki og tækjabúnað í skip sem flutt hafa verið á erlendan markað. Slíkt mætti líka framleiða á fríiðnaðarsvæði. En að sjálfsögðu eigum við að hafa í huga að hægt sé um leið að framleiða ódýrara fyrir íslenskan markað.

Ég gat ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessu þegar bent var á að það væru fleiri staðir á landinu sem kæmu til greina. Ég tel það sjálfsagt og eðlilegt að þessi stóri vinnumarkaður, sem við höfum hér á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, verði 1íka að vera með í myndinni þegar málið er skoðað.