06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér finnst eins og hafi gætt svolítils misskilnings vegna máls míns hér áðan en það er reyndar ágætt. Þetta varð þá tilefni umr. sem mér finnst endilega þurfa að vera um þessa till. En það var nú hreint ekki svo að ég væri alfarið á móti henni, hvað þá alfarið á móti iðnaði eða alfarið á móti till. annarra þm., ég held að ekki sé réttmætt að bera mér það á brýn. En ég var sem sagt að benda á það, sem flm. gera reyndar sjálfir, að rétt sé að vara við of mikilli bjartsýni og ég var að reyna að nefna helstu atriðin sem mér fyndist þurfa að athuga. Þetta mál er ekki neitt spánnýtt, það er orðið 21 ár síðan menn fóru héðan af Ístandi í kynnisferð til Shannon á Írlandi til þess að kynna sér rekstur iðnaðarfríhafnar í Shannon. Það er ýmislegt gott sem hefur komið út úr því starfi á Írlandi. Ég ætla hins vegar, með leyfi forseta, að vitna í drög að iðnþróunaráætlun fyrir Suðurnes sem Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, gaf út. Þetta er frá 1980. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Hugmyndin um fríiðnaðarsvæði í þessum tilgangi er þó ekki gallalaus og ekki víst að sams konar útfærsla henti Íslendingum eins og t. d. Írum. Erlend fyrirtæki er koma til Shannon virðast ekki þurfa að leggja mikið af mörkum annað en tækniþekkingu og markaðsaðstöðu. Írska þróunarfélagið útvegar húsnæðið til leigu og styrkir eða lánar verulegan hluta vegna vélbúnaðar auk þess sem það kostar þjálfun starfsfólks. Nemur fjárfesting þróunarfélagsins milljónum punda á Shannon svæðinu. Þróunarfélagið hefur hins vegar enga stjórn á erlendu fyrirtækjunum og þau geta hætt starfsemi ef þeim þóknast án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fasteignum eða öðru sem stundum bindur fyrirtækin fastari böndum við byggðirnar. Alþjóðlegar hagsveiflur hafa reyndar bitnað á starfseminni við Shannon og hafa ýmis fyrirtæki lagt niður starfsemi á fríiðnaðarsvæðinu og valdið þannig afturkipp í atvinnuþróun. Írar axla því áhættuna af atvinnurekstrinum að verulegu leyti.“

Það er reyndar ýmislegt fleira í þessari skýrslu sem mætti vitna í og ég bendi þm. á hana til aflestrar, sem þarf nú e. t. v. ekki að gera, ég geri ráð fyrir að þeir, a. m. k. flm. þessarar till., þekki þetta jafnvel og ég. Það er ýmislegt í henni sem vekur mann til umhugsunar. Tilgangur minn með þessu var aðeins að benda á að það væri margt sem þyrfti að athuga við þetta mái. En mér þykir mjög gott að það skyldi verða þessi umr. um það og ég vil ekki að skjalfest verði í Þingtíðindum að Kvennalistinn sé á móti iðnaði þó að ég hafi lagt hér orð í belg. Það er nú síður en svo.

Ég vildi aðeins endurtaka það sem mér finnst kannske mikilvægast, að þarna mætti ekki efna til samkeppni við annan iðnað sem fyrir er í landinu. En ég er mjög sammála flm. um að leita þurfi leiða til að koma í veg fyrir atvinnuleysi eða skapa atvinnutækifæri einmitt á þessu landsvæði. En vegna þess sem hv. þm. Bragi Michaelsson sagði áðan er vissulega líka hætta á atvinnuleysi annars staðar á landinu. T. d. hafa menn miklar áhyggjur af atvinnuþróun á Akureyri, án þess að ég sé að gera lítið úr vandanum hér, síður en svo.