06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. fyrir þetta framtak að koma fram með þessa till. Sérstaklega vegna þess að þeir eru úr stjórnarflokk þannig að ég vil ekki vera eins svartsýn og síðasti flm. að ekki sé hægt að hreyfa þessu. En þar sem ég á sæti í hv. atvmn. ætla ég ekki að hafa langt mál um þetta en tek eindregið undir það að þörf sé á úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfinu.

Það þarf ekki að segja neinum það að með því að fjármunir séu fluttir svona á milli og bólgni svo í milliliðunum hljóta milliliðirnir að bólgna líka. Ef milliliðurinn lifir á landbúnaði t. d. hlýtur hann að þurfa hráefni til að vinna úr og selja. Of oft þurfum við að greiða niður landbúnaðarframleiðslu en samt blómstrar milliliðurinn. Þetta gengur ekki þannig. Við verðum að taka höndum saman og reyna að kryfja til mergjar hvaðan við fáum fjármuni í okkar þjóðfélagi til að halda þjóðfélaginu gangandi. Það hljóta að vera landbúnaður og sjávarútvegur fyrst og fremst sem standa undir þjóðfélaginu. Þess vegna verðum við að styrkja stoðir þessara atvinnugreina með meiri skilvísi fjármagns til þeirra atvinnugreina.