06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3435 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það var út af því sem hv. þm. Jón Hannibalsson sagði áðan sem ég vildi segja nokkur orð.

Það sem skiptir máli þegar verið er að ræða um þetta er einmitt að spurningunni um hverjum þetta kerfi sé í hag sé svarað, miðað við breyttar kringumstæður frá því að afurðalánakerfið var sett á laggirnar á sínum tíma. Á þetta sérstaklega við í sambandi við afurðalánakerfi landbúnaðarins.

Ég held að ekki þurfi að fara mörgum orðum um að þetta kerfi hefur þróast með það einkennilegum hætti, vil ég segja, að það er raunverulega aðeins einn aðili sem fjallar um það. Það er sá hluti í atvinnustarfsemi landsmanna sem heyrir undir svonefnda samvinnuhreyfingu. Það hagar svo til að svo til allt landbúnaðarkerfið — ég segi ekki 100% — er komið undir þetta kerfi. Hv. þm. Jón Hannibalsson vitnaði til Austur-Evrópu, en þar eru þeir nokkuð kunnugir sem vegna atvinnu sinnar hafa þurft að ferðast austur fyrir til að setja fisk. Í hinum austrænu ríkjum eru aðeins tvær tegundir atvinnurekstrar. Það er annars vegar ríkisrekstur og hins vegar samvinnurekstur. Þannig var það rétt hjá hv. þm. þegar hann sagði eitthvað á þá leið að kerfið sem við byggjum við hjá íslensku samvinnuhreyfingunni væri því miður að munstrinu til að verða alveg nákvæmlega eins og maður þekkir það í samvinnuhreyfingum kommúnistaríkjanna fyrir austan. Það er ákveðinn og sterkur valdapíramídi sem hefur vald yfir allri framkvæmd og skipulagi þessarar hreyfingar og getur ákveðið með hvaða hætti hreyfingar, bæði fjármagns, vöru og þjónustu, eiga sér stað.

Sú þróun hefur orðið á Íslandi að það lýðræði sem samvinnuhreyfingin var byggð upp á á sínum tíma, þ. e. þær grunneiningar sem áttu að ráða og stjórna þessari hreyfingu, hefur því miður ekki þann styrk eða þá rödd innan hreyfingarinnar sem segði okkur, sem virðum þetta fyrir okkur, að þarna sé um lýðræðislega hreyfingu að ræða sem byggð var upp með þeim hætti í byrjun þessarar aldar. Það er mál út af fyrir sig og mjög atvarlegt vegna þess að þegar litið er á að eitt rekstrarform hefur náð þeim grundvallartökum á heilli atvinnugrein, þar sem bændur eru annars vegar og neytendur á þéttbýlissvæðunum hins vegar, að við fáum ekki rönd við reist, fáum lítt að gera okkur grein fyrir því hvernig verðlag og kostnaður þróast og tilfærsla fjármuna og annað á sér stað í þessu kerfi, þá hlýtur að verða að staldra við og varpa fram einmitt því atriði, sem kemur fram í þessari þáltill., að við leggjum áherslu á úttekt á þessu stigi.

Þar með vil ég líka svara því, sem hv. þm. Jón Hannibalsson kom inn á, að við erum ekki á þessu stigi að gera tillögu um grundvallarbreytingu. Sú tillaga hlýtur að fylgja í kjölfar úttektarinnar því ég er sannfærður um að sú úttekt sem verður gerð mun leiða í ljós og staðfesta margt af því sem kemur fram í skýrslu Þorvalds Búasonar um þetta efni.

Þá vil ég víkja að því þar sem hann sagði: Það er ekki víst að Sjálfstfl. standi að þeim breytingum sem þarf að gera á þessu kerfi. Ég vil fullyrða hér og ég vil einnig sannfæra hv. þm. um að Sjálfstfl. mun auðvitað standa að þeim nauðsynlegu breytingum sem gera þarf. Sá flokkur hefur alltaf verið flokkur framtíðarinnar. Þess vegna er hann nú stærsti flokkur þjóðarinnar. Hann hefur alltaf þorað að taka afstöðu til og framkvæma þær breytingar sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég veit flestallir ef ekki allir hv. þm. Sjálfstfl., að breyta verði framkvæmd þessara mála, sérstaklega í sambandi við afurðalánakerfi landbúnaðarins. Það er ekki neytendum í hag sem skyldi og það er alls ekki bændum í hag. Það er rétt sem kom fram áðan hjá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur, hv. 8. landsk. þm., að vegna þess hvað landbúnaðurinn hefur lokast inni í þröngu kerfi eins rekstrarforms, sem er samvinnureksturinn, hefur átt sér stað óeðlileg þensla eftir að framleiðandinn, bóndinn, skilar sinni vöru og þar til hún berst til neytandans. Það hefur átt sér stað óeðlilega mikil þensla í milliliðunum með þeim afleiðingum að þar er um óeðlilegan kostnað að ræða, eins og fram kemur í skýrslu Þorvalds Búasonar. Þetta mun úttekt að sjálfsögðu leiða í ljós hvort sé rétt eða rangt. Ég er sannfærður um að það sé rétt, því miður. Þess vegna er ég sannfærður um að þessi þáltill. muni fá þinglega meðferð, og ég er sannfærður um að Sjálfstfl. mun ásamt öðrum flokkum hér á þingi standa að því að gera nauðsynlegar breytingar. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir eða standa í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum. Þetta kerfi er orðið úrelt. Það er búið að dæma sig úr leik. Ekki er hægt að líða það lengur og það stenst ekki.

Hv. þm. kom einnig inn á, sem rétt er að geta nokkuð um, hvernig mál fá afgreiðslu á hv. þingi. Það er auðvitað rétt að þegar þessi úttekt hefur verið gerð munu menn leggja fram nauðsynlegar tillögur til breytinga á þeim lögum sem veita þessu kerfi ákveðna vernd og öðru því tengdu. Það getur vel verið að það nái ekki fram að ganga á fyrsta þingi, en það er ekkert einsdæmi hér á hv. þingi að stórmál, sem horfa til mikilla breytinga og langt fram í tímann, þurfi margra ára meðferð. Ég minni t. d. á að það eru sjö ár síðan hér var lagt fram frv. til l. um að veita meira frelsi í sambandi við sjónvarp og hljóðvarp. Nú reynir á það á næstu dögum, þegar hæstv. menntmrh. leggur fram brtt. sínar við einkaleyfi Ríkisútvarpsins um að veita fleirum frelsi til að fjalla um þessi mál, hvort hv. þm., og þá úr öllum flokkum, hljóti ekki að styðja framgang þess. Ég held að það sé líkt á komið um þetta mál, að það muni fá lengri tíma umfjöllun, en allir flokkar muni sameinast um að gera nauðsynlegar breytingar. — Ég trúi því einnig að Framsfl. muni átta sig á því að hann eigi ekki að halda verndarhendi yfir því úrelta kerfi sem hér um ræðir.

Hv. þm. Skúli Alexandersson drap á viðreisnarárin og sagði að Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu haldið verndarhendi yfir þessu kerfi þá. Ég vil vekja athygli hv. þm. á, sem ég tók fram, að afurðalánakerfin eru öll byggð upp á reikningslegum forsendum þjóðfélags þar sem engin verðbólga ríkir. Þá er hægt að tryggja nokkurn veginn að ekki sé hægt að misnota afurðalánakerfið með tæknilegum útreikningi í sambandi við vaxtagróða miðað við hvenær greiðslur fara fram. Í verðbólgulausu þjóðfélagi er því lítil hætta á slíkri misnotkun. Hins vegar er alltaf fyrir hendi sú mikla hætta, sem mér finnst ekki séð við í eftirlitskerfi afurðalána, að eftir að greiðsla hefur verið innt af hendi af hálfu kaupanda fari sú greiðsla ekki fram með þeim hætti að framleiðandinn, viðtakandinn, bóndinn, útvegsmaðurinn eða fiskvinnslan, fái greiðslurnar strax. Þar er mikill galli, tel ég vera, í framkvæmd þessa kerfis. Það er atriði sem á við um öll afurðalánakerfi, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi eða iðnaði.

En svo að ég víki nánar að viðreisnarárunum. Á þeim árum var svo til engin verðbólga á Íslandi. Ef ég man rétt er álitið að árleg verðbólga hafi verið þetta 10–12% á ári á tímabilinu 1960–1971. Það er eftir 1971 sem þessir stóru ágallar fara að koma fram í sambandi við afurðalánakerfin. Með mikilli og vaxandi verðbólgu kemur upp hin mikla freisting í sambandi við greiðslur og vaxtatekjur sem hér hefur verið greint frá fyrr. Hinir miklu ágallar þessa kerfis, sem hv. þing hefði átt að vera búið að taka til athugunar, koma fyrst og fremst fram eftir 1971.

Ég er sammála hv. þm. Skúla Alexanderssyni um að ég held að ekki séu miklir ágallar á afurðalánakerfi sjávarútvegsins. Hins vegar er sjálfsagt að það sé tekið út og skoðað einnig og sérstaklega þá með tilliti til hins svonefnda greiðsluflæðis sem er mjög þýðingarmikið atriði. Þegar ég er að tala um greiðsluflæði á ég við að þegar afurð hefur verið seld erlendis og greiðsla verið innt af hendi skili sölufélögin greiðslunum strax. Ég sé að hv. þm. skilur hvað ég er að fara. Við skulum ekki ræða það frekar á þessu stigi þannig að þetta atriði verði mjög vel skoðað.

Það var ekki neitt fyrirtæki nefnt hér, hv. þm. Jón Hannibalsson. Við skulum nú ekki fá SÍS og framsókn á heilann. Það er ekki hollt. En ég þakka þær undirtektir sem þessi þáttill. hefur fengið og ég fullyrði að í Sjálfstfl. er mikill og ríkur skilningur á því að þessir hlutir séu færðir í rétt form og þeir sem eiga að njóta þessa kerfis, annars vegar framleiðendur, þá á ég við bændur, útvegsmenn og aðra og neytendur hins vegar, njóti þess hagræðis sem kerfið áskilur þeim, en hugsanlegir milliliðir, sem kynnu að misnota þetta og gera þetta dýrara og dýrara, verði settir á þann stað sem þeir eiga að vera á og þeir inni sitt þjónustuhlutverk af hendi með sem ódýrustum og hagkvæmustum hætti.