31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

42. mál, orkulög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég tel það ekki í mínum verkahring að blanda mér inn í það hversu kokvíðir menn eru í núv. stjórnarsamvinnu eða hversu glaðir þeir ganga til sængur á hverju kvöldi. En ég vildi vegna ummæla hæstv. ráðh. um hækkun á hitunarkostnaði fá að koma því að að áætlaður hitunarkostnaður 400 rúmmetra íbúðar var í maí s.l. talinn vera um 24 707 kr. á ári. Samsvarandi kostnaður var kominn upp í 28 898 kr. á ári í ágústmánuði. Hitunarkostnaðurinn hefur því hækkað um rúm 17%, nánar tiltekið um 17.4% frá maímánuði til ágústmánaðar, en á þessum sama tíma fékk almennt launafólk aðeins 8% hækkun launa. Það er því augljóst mál og getur ekki farið fram hjá neinum að verulega hefur hallað á þá sem þurfa að hita hús sín með olíu og raforku, í þessu tilviki erum við kannske fyrst og fremst að ræða um hitunarkostnaðinn með raforku, frá því sem var í tíð seinustu stjórnar. Ég vildi að þetta kæmi mjög skýrt fram vegna ummæla hæstv. ráðh. hér áðan.

Um það, hvort þörf er á því að hafa hemil á hækkunum opinberra fyrirtækja eða ekki, vil ég segja það að mín reynsla er sú, að opinber fyrirtæki hafa alltaf næg rök fyrir því að verulega þurfi að hækka taxta þeirra og þjónustugjöld. Ég held að það sé líka reynsla flestra ríkisstjórna að opinberar stofnanir sækja fram með hækkunarbeiðnir af talsvert mikilli óbilgirni oft á tíðum og skeyta þá lítt um hvað er eðlilegt og nauðsynlegt miðað við ástand þjóðmála og efnahagsmála. Það er því þörf á því fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að halda aftur af opinberum fyrirtækjum, að hafa þau í ströngu taumhaldi. Og mér þykir satt best að segja ótrúlegt að núv. hæstv. fjmrh. sé ekki innilega sammála mér um þetta atriði, að það sé þörf á aðhaldi gagnvart opinberum stofnunum og að ekki eigi að láta þær vaða fram með hækkanir rétt eins og þær sjálfar kjósa. Þess vegna er það eðlilegt og sjálfsagt að ríkisstj. á hverjum tíma geti stöðvað hækkanir sem eru óbilgjarnar eða óeðlilegar. Vissulega má velta því fyrir sér, eins og hæstv. ráðh. var að gera hér áðan, hvort fyrirtæki sveitarfélaga eiga að hafa þarna eitthvað rýmri möguleika og að sveitarstjórnirnar sjálfar eigi þá að hafa taumhald á þeim. En þetta á auðvitað alveg sérstaklega við um ríkisfyrirtækin, sem verður að hafa taumhald á, og Landsvirkjun er sannarlega eitt stærsta ríkisfyrirtækið sem við höfum hér á landi. Þar getur enginn annar haft taumhald á en ríkisstj.