07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er hörð atlaga að kjörum sjómanna í landinu og óþolandi hversu langt er gengið í þeim efnum. Það er staðreynd að sjómenn hafa orðið fyrir meiri kjaraskerðingu en nokkrir aðrir í landinu. Skv. upplýsingum frá Sjómannasambandi Íslands, sem hefur gert úttekt á þeim málum, mun kjaraskerðingin frá 1982 hafa numið allt að 337%. Engir þegnar landsins hafa búið við slíka skerðingu.

Þetta frv. gerir það að verkum, ef það verður samþykkt sem maður vonar að verði ekki, að Aflatryggingasjóður verður í raun lagður niður sem slíkur og honum beint til þess að fjármagna skuldir útgerðarinnar. Ráðh. sagði áðan að þetta ætti að koma báðum til góða þar sem þar með væri útgerðinni gert kleift að standa betur við sínar skuldbindingar gagnvart sjómönnum. Ef við höldum þeirri röksemdarfærslu áfram — og það verður haldið áfram í þeim farvegi — endar náttúrlega með því að sjómenn verða gersamlega kauplausir því að auðvitað er hægt að ganga svona endalaust áfram.

Ekki aðeins Sjómannasamband Íslands hefur mótmælt þessari fyrirætlun heldur einnig Alþýðusambandið og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Þeir hafa bent á að með þessu frv. er gengið þvert á grundvallartilgang Aflatryggingasjóðs, mest fært til þeirra sem mest afla og atvinnu víða stefnt í hættu, svo og kauptryggingu sjómanna. Ég hygg að þetta komi hvað verst niður þar sem bátar eru litlir og þar sem menn hafa þurft að sækja sjóinn eins og mögulegt hefur verið eftir tíðarfari. Það gerist reyndar alls staðar en hvað erfiðast er það fyrir litlu bátana. En þeir halda minna úti ef þeir eiga ekki von á því, ef illa gengur, að fá bætur til að greiða sínum sjómönnum.

Mótmæli hafa ekki aðeins verið frá þessum samtökum heldur einnig frá skipshöfnum víða um land sem sent hafa inn sín mótmæli og fært rök fyrir sínu máli. En vegna þess að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur sérstaklega rökstutt sín mótmæli tel ég rétt að þau komi fram hér og ég geri þau að mínum, en þau eru þannig:

„Frv. það sem hér um ræðir gengur í raun þvert á allar hugmyndir manna um upphaflegan tilgang og starfsemi Aflatryggingasjóðs síðustu áratugi allt frá upphafi hlutatryggingar. Þegar fyrirhugað er að ráðstafa öllu fé almennu deildar sjóðsins til útgerðar alfarið gengur sú ráðstöfun fjármagnsins á móti þeim grundvallarhugmyndum að sjóðnum beri að ráðstafa í samræmi við skiptahlutföll áhafnar og útgerðar. Þegar gengið var frá þeirri ráðstöfun útflutningsgjalds að hluti þess rynni til almennu deildar Aflatryggingasjóðs var slíkt afráðið í heildarsamkomulagi sem m. a. samtök sjómanna áttu aðild að. Var það samkomulagið um sjóði sjávarútvegs frá árinu 1976. Nái það frv., sem nú er til umr., fram að ganga sýnir það glögglega enn eina fjármagnstilfærsluna frá sjómönnum til útgerðar ofan á allt annað sem sjómenn hafa orðið að þola. Þrátt fyrir að fyrirhugað sé að ráðstafa til áhafnadeildar sjóðsins fjármunum, sem ætlað er að auka greiðslur upp í fæðiskostnað sjómanna, þá munu þær upphæðir ekki gera meira en svo að elta uppi það sem fæðisgreiðslurnar hafa dregist aftur úr raunhækkun á matvöru. Fæðisgreiðslur úr áhafnadeild sjóðsins hafa ekki fylgt þeim verðhækkunum sem orðið hafa á matvælum, þrátt fyrir kröfur fulltrúa sjómanna í sjóðsstjórn þar um. Sjómenn hafa því orðið að greiða sjálfir stóran hluta af eigin fæðiskostnaði, mun stærri en upphaflegur tilgangur áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs gerði ráð fyrir. Þannig nær fé það, sem ráðstafa á til áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs, ekki að greiða úr fjárhagsörðugleikum sjómanna, sem upp kynnu að koma, vegna þess að útgerð skipa er hætt vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða frá árinu 1984.“

Ég vara við því að fara þessa leið. Þótt útgerðin sé illa stödd nú um þessar mundir eru takmörk fyrir því hvað langt er hægt að ganga í vasa sjómanna. Þetta frv. er byggt á því að hér verði aflabrestur 1984, á þessu ári. Að vísu er stefnt að því að veiða mikið minna og byggt þar á spám fiskifræðinga. Hins vegar hefur komið fram þessa daga, sem liðnir eru af þessu ári, að afli hefur aukist hvarvetna um landið og það hlýtur að leiða til þess að þær reglur, sem nú hafa verið settar, verði endurskoðaðar. Ræða þarf hvernig það skuli gert en ég býst við að menn séu sammála um að gera þurfi úrbætur. En röksemdin fyrir frv. stenst varla að mínu mati.

Mikið er rætt um kvóta um allt land og hefur verið gert hér á Alþingi. Í sjávarútvegsnefndum var einnig mikið um þessi mál rætt og haft var gott og mikið samráð við þessar nefndir þegar þessi lög voru í undirbúningi, lögin um kvótaskiptinguna. Ég man ekki nafnið á þeim en ég hygg að það sé atmennt kallað kvótafrv. Ég tel að það samráð, sem þar var haft, hafi orðið til þess að greiða úr mörgu og laga margt sem á borðinu var. Hins vegar verð ég að mótmæla því harðlega hvernig nú hefur verið staðið að þessu samráði. Því var lofað af sjútvrh. að sjávarútvegsnefndir mundu verða hafðar með í ráðum um framkvæmd þessara mála. Við óskuðum eftir því í sjútvn. þessarar deildar að fá að líta yfir þá skiptingu á kvótanum, sem framkvæmd hafði verið og send til hlutaðeigandi útgerðar. Formaður nefndarinnar óskaði eftir því sérstaklega en fékk ekki. Síðan sjáum við þessar upplýsingar á síðum Morgunblaðsins.

Ég hlýt að mótmæla þessum vinnubrögðum og óska skýringa á þeim og vona að úr þessu verði bætt. Ég skil ekki að sjávarútvegsnefndir Alþingis séu það ótrúverðugar að ekki megi hafa það samráð við þær sem lofað hefur verið og þykir mér það óviðkunnanlegt og alls kostar óeðlilegt að við þurfum að lesa upplýsingar, sem okkur koma við, í dagblöðum og vera neitað um að sjá þær þegar óskað er eftir. Ég hef orð á þessu af gefnu tilefni og vænti þess að úr þessu verði bætt.

En hvað varðar það frv., sem hér liggur fyrir, verður fjallað um það í sjávarútvegsnefndum og þá verður það skoðað rækilega. Ég vara við því að það verði samþykkt og tel þetta vonda leið, miklu verri leið en nokkrar aðrar leiðir til að bæta hag útgerðar, því að ekki er hægt að forsvara það að skerða tekjur sjómanna enn einu sinni sem er gert með þessu frv.