07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3446 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins árétta það sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan í sambandi við þessi samskipti. Þar greinir okkur ekki á. Ég leitaði til hans eins og nefndin talaði um og ég tjáði nefndinni hans svör sem hér komu skýrt fram hjá honum áðan. Hann vildi ekki leggja þessi gögn fyrir nefndina sem slíka á meðan aðeins væri um nokkurs konar tilraunaútskriftir að ræða í sambandi við kvótamálin, það væru svo margar villur í því. Hins vegar væri velkomið að nefndin fengi þetta strax og búið væri að fá fram leiðréttingar, en kærufrestur væri útrunninn 5. mars. Þessu skilaði ég til nefndarinnar og ég veit að nefndarfólk er mér sammála um það að hafa skilið þetta þannig. Ég segi það eins og er, og ég segi sem betur fer hafði ég ekki skýrsluna undir höndum þegar ég las þetta í Morgunblaðinu á föstudaginn var. Ég kann ekki við svona vinnubrögð og ég tek undir það með hæstv. ráðh. að fjölmiðlar mega ekki ganga allt of langt í svona málum þar sem þarna er um mjög viðkvæm mál að ræða.

Þegar hafa borist, að því er mér er sagt, á þriðja hundrað athugasemdir við þessar útskriftir svo að víða er óánægjan og ekki er farið að leiðrétta og menn verða fyrir ýmsum óþægindum sem e. t. v. hefði verið hægt að komast hjá hefði þetta verið geymt og farið með það eins og til stóð. Þess vegna tek ég undir orð hæstv. ráðh. að ég harma það að mitt ágæta blað, Morgunblaðið, skyldi gera slíka hluti. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan þetta er komið. Það vil ég bara að komi hér fram.

Hins vegar mun nefndin biðja hæstv. ráðh. og einhverja af hans starfsmönnum að hitta nefndina sem fyrst til að ræða frekar um þessi mál, en það kemur síðar fram.

Um þær breytingar sem felast í frv. sem hér liggur fyrir gildir hið sama og um allar slíkar breytingar, að um þær verða skiptar skoðanir. Hv. 4. þm. Vesturl. og 6. landsk. þm. gerðu mikið úr því að gengið sé þarna á hlut sjómanna. Þetta fæ ég ekki skilið vegna þess að hlutur sjómanna hefur ekki verið reiknaður út úr Aflatryggingasjóðsframtaginu nema þegar um tryggingu er að ræða, þeir hafa ekki fengið hlut úr hinu. Hins vegar er það rétt að Aflatryggingasjóður er fjármagnaður að stærstum hluta af útflutningsgjaldi sem sjómenn og útgerðarmenn taka auðvitað sinn þátt í að greiða. Það fer inn í sameiginlegan sjóð. En það er ekki raunin að verið sé að gera upptækar þarna tekjur sjómanna, það fæ ég ekki skilið, þó að þessi breyting sé gerð, nema þegar um tryggingatímabil er að ræða. Því miður hafa komið upp slík dæmi, eins og 4. þm. Vesturl. gat um. Það er sagt að sumir hafi gert út á Aflatryggingasjóð. Við notum ekki sterkari orð hér en þetta í þessum efnum, við höfum ekki sannanir. Þetta orð hefur legið á og er nokkuð á móti því að koma slíkri þróun af hafi hún verið?

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu vegna þess að þetta mál kemur í þá nefnd sem ég á sæti í, en þó vil ég benda á að það gætti nokkurs misskilnings hjá hv. 8. landsk. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur. Það eru fleiri en ein deild í Aflatryggingasjóði. Þegar í frv. er rætt um að taka 4% er gert ráð fyrir að það sé tekið út hinni almennu deild. Það skaðar ekki hlut sjómanna. Síðasta greinin á bls.2 fjallar hins vegar um áhafnadeild. Það er sú deild sem hefur sérstaklega verið látin taka fyrir bæði fæðispeninga og annað til sjómanna og frv. gerir einmitt ráð fyrir því. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að lesa þetta yfir svo að við glöggvum okkur á því: „Þá gerir frv. ráð fyrir að áhafnadeild Aflatryggingasjóðs fái til ráðstöfunar á árinu 1984 ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs, 18.6 millj. kr. auk síns venjulega tekjustofns af útflutningsgjaldi, sem ætla má að gefi um 160 millj. kr. á þessu ári. Þetta er gert til þess að deildin geti aukið greiðslur fæðispeninga til sjómanna, og einnig til þess að hún geti greitt úr fjárhagsörðugleikum sjómanna, sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa er hætt vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984. Sjútvrn. mun setja um þetta nánari reglur í samráði við hagsmunasamtök og stjórn Aflatryggingasjóðs.“ Ég bendi á þetta vegna þess að það er þessi deild sem getur gefið möguleika til þess að aðstoða sjómenn sem verða fyrir sérstökum áföllum vegna samdráttar í afla.

Hvað það yrði í miklum mæli skal ég ekki segja um hér, það yrði sennilega í alltof litlum mæli. En þarna opnast þá möguleiki til hjálpar. Sem sagt, um þetta má allt deila. En við munum ræða þetta mjög ítarlega í n. eins og öll önnur mál og ég tel að við getum fundið á þessu flöt sem við getum nokkurn veginn við unað.

En að lokum þetta: Mér finnst það engin rök hjá hv. 4. þm. Vesturl. að segja þeim að fresta þessu núna, það sé svo mikill fiskur á leiðinni. Við vonum öll að það sé mikill og vaxandi fiskur á leiðinni. En þarna er búið að gera, hvort sem okkur líkar betur eða verr þær ráðstafanir í sambandi við fiskverðsákvörðun sem verður ekki breytt. Það er því leitað mjög eftir því að þessu sé framfylgt af þeim aðilum sem um þetta semja. Þar á ég auðvitað við útgerðarmenn, sem þarna er samið um fiskverðið við, að 4% verði greidd. Ég sé ekki neina ástæðu til að fresta málinu vegna þess að við eigum von á meiri fiski. Ég ítreka það að vonandi verður mikill fiskur hér í vetur og við getum þá hugsanlega aukið okkar veiðar eitthvað þegar á árið líður. En eins og er er því miður of snemmt að spá því.