07.03.1984
Neðri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3454 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

122. mál, framsal sakamanna

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 152 er frv. til l. um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Frv. er flutt í tengslum við væntanlega aðild Íslands að samningi Evrópuráðsins um framsal sakamanna og tveimur viðbótarsamningum við hann og samningi Evrópuráðsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum skv. viðbótarsamningi við hann. Framangreindir samningar hafa verið undirritaðir af Íslands hálfu og verða fullgiltir verði frv. þetta að lögum. Að höfðu samráði við utanrrn. eru framangreindir samningar prentaðir sem fskj. með frv. þessu. Auk þess er á bls. 9–12 í grg. tekið saman yfirlit um efnislegt innihald samninganna.

Aðalefni frv. er um framsal sakamanna. Hér á landi gilda engin atmenn lög um þetta efni en í 9. gr. almennra hegningarlaga eru nokkur efnisatriði um framsal sakamanna. Eru íslensku lögin nr. 7 frá árinu 1962. Á þeim voru gerðar breytingar með lögum nr. 44/1975. Eftir gildistöku laga um framsal sakamanna til hinna Norðurlandanna hefur skapast verulegt ósamræmi um framsal. Framsal er það viðamikil ráðstöfun að til þess ætti ekki að koma nema skv. skýrri lagaheimild.

Frv. þetta byggir á norrænni löggjöf um framsal, en náið samstarf var á milli hinna Norðurlandanna er þau endurskoðuðu eða settu almenn lög um framsal.

Frv. það sem hér er til umr. skiptist í fimm meginkafla. Í I. kafla er fjallað um skilyrði fyrir framsali, í II. kafla um meðferð framsalsmála, í III. kafla um aðrar ákvarðanir í tengslum við framsal, í IV. kafla um aðra aðstoð vegna reksturs sakamála og í V. kafla um sameiginleg lokaákvæði.

Eins og áður sagði fjallar I. kafli frv. um skilyrði framsals. Þau eru skv. frv. að viðkomandi maður sé í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir hinn refsiverða verknað. Þó er framsal aðeins heimilt fyrir verknað eða sambærilegan verknað sem getur varðað fangelsi í meira en eitt ár skv. íslenskum lögum. Á þetta bæði við þegar um er að ræða framsal til meðferðar máls og vegna fullnustu dóms.

Ef um er að ræða framsal vegna meðferðar máls þarf auk framangreinds skilyrðis að vera búið að taka ákvörðun í erlenda ríkinu um að sá sem óskað er framsals á skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir viðkomandi verknað.

Ef um er að ræða framsal til fullnustu á refsingu þarf refsingin að vera a. m. k. fjögurra mánaða refsivist eða, ef vista á viðkomandi á stofnun samkv. dómi, verður dvöl hans þar að geta varað í a. m. k. fjóra mánuði.

Í 2. og 4.–10. gr. frv. eru ákvæði um í hvaða tilfetlum framsal er óheimilt, að undantekinni 7. gr., þar sem heimilt er að synja um framsal ef ákvæði greinarinnar eiga við.

Í II. kafla frv. er fjallað um meðferð á beiðnum um framsal. Ákvæði frv. eru að flestu leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1962, um framsal sakamanna til hinna Norðurlandanna. Helsta frávikið frá þeim lögum er að í þessu frv. er ekki gert að skilyrði að rannsókn vegna framsalsmáls sé dómsrannsókn. Er það í samræmi við þróun rannsóknar í refsimátum hér á landi.

Í IV. kafla er ákvæði um atriði sem nauðsynlegt er að lögfesta svo hægt sé að fullgilda Evrópusamning um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Efnisatriði í þessum kafla eru tvö. Í fyrsta lagi er ákvæði um að til að afla sönnunargagns til notkunar í refsimáli í öðru ríki sé heimilt að beita ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum á samsvarandi hátt og í sambærilegum málum sem rekin eru hér á landi.

Í öðru lagi er heimilað að maður sem fangelsaður er hér á landi eða sviptur frelsi skv. dómi vegna refsiverðs verknaðar skuli sendur til annars ríkis í yfirheyrslu sem vitni eða til sannprófunar. Í þessum kafla eru svo ákvæði um skilyrði til að hægt sé að verða við beiðni um framangreind atriði og um mátsmeðferð.

Í lokakafla frv. er heimildarákvæði um að gera samning um framsal eða aðra gagnkvæma aðstoð í sakamálum með ákveðnum skilyrðum sem þó mega ekki ganga gegn ákvæðum frv. Rétt er að nefna að frv. sem slíkt, verði það að lögum, felur ekki í sér skyldu til framsals þó uppfyllt séu ákvæði þess, en framsalssamningar geta falið í sér skilyrði til framsals.

Í frv. er tekin sú afstaða til samninganna að þeir halda gildi sínu þótt frv. verði að lögum og ákvæði þeirra séu ekki í samræmi við ákvæði frv. Verði frv. að lögum er eðlilegt að í kjölfarið fylgi endurskoðun á samningum sem gerðir hafa áður verið við önnur ríki eða þeim verði sagt upp. Gildi lagasetningarinnar mundi takmarkast um of ef eldri samningar stæðu óbreyttir. Verði frv. þetta að lögum gilda samt áfram lög um framsal sakamanna til hinna Norðurlandanna.

Áður en endanlega var gengið frá frv. þessu var það sent nokkrum aðilum til umsagnar. Bárust ýmsar gagnlegar ábendingar frá ríkissaksóknara og fleirum. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur látið það álit í té að verði frv. að lögum muni það ekki hafa aukningu útgjalda í för með sér.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.