07.03.1984
Neðri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3460 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

155. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Nú er árið 1984 og það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvað ætla megi að langt líði á milli breytinga á kosningalögum. Þetta eru mikil átakamál og þó að þau valdi e. t. v ekki miklum átökum með þjóðinni valda þau sýnu meiri átökum með stjórnmálahreyfingunum í landinu. Það er ekki fjarri lagi að ætla að menn treysti sér í þetta 4–5 sinnum á öld, a. m. k. er aldarfjórðungur síðan síðast var tekið á þessu máli.

En hvaða ár verður eftir 25 ár? Þá erum við komin vel inn á 21 öldina. Þá er spurningin: Hvaða hugmyndir munu þá ríkja um lýðræðislega framvindu og aðferðir og samband fólks og stjórnvalda? Alls staðar hefur þeirri skoðun farið vaxandi fylgi að fólkið sem ákvörðun hefur áhrif á eigi að taka þátt í að taka þá ákvörðun. Þess sjást víða merki og ég kem að því hérna síðar. Við hérna heima erum gjarnan minnt á það í auglýsingum ýmissa samtaka verslunarmanna um námskeið um nýja hætti í stjórnun fyrirtækja. Þar er lögð á það grundvallaráhersla, og gjarnan talað um japanska undrið, að starfsfólk og stjórnendur í hverju fagi sem er eigi að vinna saman og hafa náið samstarf um ákvarðanatöku og framkvæmd. Þetta gengur undir ýmsum nöfnum, gæðahringir og fleira og fleira.

Það sem um er að ræða er sem sagt að það eru að verða breytingar á framkvæmd stjórnunar og framkvæmd lýðræðis í stórum einingum og smáum og fulltrúalýðræðið eins og við þekkjum það er á sumum stöðum á vissu undanhaldi. Það er kannske ekki einkennilegt. Það á uppruna sinn á þeim tíma þegar það tók 3–4 vikur að komast til þings á Íslandi. Í öðrum 1öndum gat það tekið miklu lengri tíma og menn gátu lent í ýmsu á leiðinni. Ekki var því beinlínis ætlast til þess að menn stæðu í sífelldu sambandi við kjósendur sína. Þeir fóru til þings og sátu þar og tóku þær ákvarðanir sem talið var að þyrfti að taka.

Það sem er að taka í síauknum mæli við af þessari framkvæmd er það sem hefur verið kallað þátttökulýðræði þar sem fólkið sem ákvörðunin hefur áhrif á tekur þátt í að taka ákvörðunina. Við sjáum greinilegust merki um þessa stefnubreytingu í ýmsu sem varðar ákvarðanatöku á heimastóð. Við sjáum þetta í mörgum löndum í breytingum á stjórnarháttum sveitarfélaga, þar sem fólk kýs annaðhvort yfir sig eða ofan af sér ýmsa þjónustu. Þeir lentu í því í smáborg við San Francisco fyrir nokkrum árum að kjósa af sér slökkviliðið. Þeir kusu það svo yfir sig aftur eftir að kviknað hafði í og þeir komust að raun um að betra væri að hafa það.

Sama gildir um samtök sveitarfélaga, fylki eða ömt þar sem íbúar og stjórnvöld þeirra hafa tekið sig saman um að ráða sínum eigin málum. Við sjáum þetta líka í minni einingum innan sveitarfélaga þar sem hverfasamtök, íbúasamtök og jafnvel samtök um sérmálefni, samtök kennara, samtök foreldra og aðstandenda nemenda við skóla, taka sífellt meiri þátt í mótun þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Þetta eru dæmi um þátttökulýðræði á heimaslóð.

Við sjáum þetta líka í stærri einingum t. d. í Bandaríkjunum. Við sjáum starfsemi fylkjanna. Það hefur verið gerð úttekt og borin saman starfsemi á fylkisþingum og starfsemi á ríkisþinginu í Washington. Það er hald margra manna að sífellt meira af ákvörðunum sem skipta máli bæði í litlu og stóru fyrir bandaríska þegna sé tekið á fylkisþingum. Það fækkar tiltölulega mikilsverðum ákvörðunum sem eru teknar á ríkisþinginu í Washington og fylkin eru í auknum mæli að taka sjálf að sér ákvarðanatöku í málum sem þau varða mest.

Það er tímaspursmál hvenær þessarar valddreifingar eða þessara breyttu vinnubragða fer að gæta meir á löggjafarþingum ríkjanna sjálfra. Sumir segja að þess sé þegar farið að gæta. Það eru allar forsendur fyrir því að taka upp nokkuð breytta hætti. Frá því að grundvallarreglur fulltrúalýðræðisins voru mótaðar hefur menntun kjósenda aukist. Það hafa batnað samgöngur. Það hefur batnað samband bæði fólksins innbyrðis og upplýsingastreymi milli stjórnvalda og kjósenda og samskipti fólks á allan hátt hafa aukist til mikilla muna. Þessu veldur ný tækni, sem gerir fólki kleift að menntast og fræðast á miklu markvissari og fjölbreytilegri hátt en áður, og þessu ráða líka ný viðhorf sem eins og ég sagði áðan gætir á ýmsum stigum stjórnkerfisins í stórum einingum og smáum. Og nú spyrjum við okkur: Ef við erum í þann veginn að samþykkja mikilvæg lög um samskipti þegna og stjórnvalda í þessu landi, hversu lengi munu þessi lög gilda? Ég hef sagt, og ég tel að það sé ekki rangt, að þessum kosningalögum verði ekki breytt á næstu einum eða tveimur áratugum. Þá erum við að setja lög til langframa um morgundag sem við vitum í raun og veru ekkert um hvernig lítur út.

Ef við reynum að meta hvað við getum áætlað að gerist á Íslandi í þessum málum á næstunni getum við spurt okkur í fyrsta lagi: Hvað einkennir lýðræðislega framkvæmd á Íslandi í dag? Stjórnkerfið ber mjög glögg merki stjórnmálaflokkanna. Angar þeirra eru um allt stjórnkerfið, í sveitarstjórnum, í ríkiskerfinu, í peningastofnunum, bönkum og framkvæmdastofnunum. Angar stjórnmálaflokkanna ná inn á svið lista og menningarmála. Það eru átök í samtökum rithöfunda. Það eru átök í ríkisfjölmiðlum sem menn rekja stundum til stjórnmála. Síðast urðu átök í útvarpsráði um leiðréttingar Jóns Múla sem menn telja að séu af flokkpólitískum uppruna. Það eru átök í íþróttahreyfingum og íþróttafélög notuð í kosningum og pólitísku skyni. Það eru átök í menningarstarfsemi. Ég held að það hafi aldrei verið meiri titringur og virkari starfsemi í Leikfélagi Kópavogs, sem ég var félagi í á sínum tíma, heldur en þegar uppi voru væringar fyrir einar stjórnarkosningarnar í félaginu og það var spurning um hvort sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn fengju meiri hluta í stjórn Leikfélags Kópavogs.

Angar þessara kolkrabba eru sem sagt út um allt. Spurningin er þá: Er eitthvað að breytast, eru einhverjir straumar, erum við að fara á einhvern hátt í svipaða átt og ég var að lýsa að væri að gerast víða í löndunum í kringum okkur? Það hefur ýmislegt breyst. Í fyrsta lagi hafa prófkjörin haft áhrif á pólitíkina. Nú eru þm., a. m. k. margir hverjir, með eigin aflstöðvar. Þm. sem hefur 10 þús. manna fylgi á bak við sig hefur visst sjálfstæði sem gerir honum t. d. fært að bjóða flokksforustunni byrginn. Þetta sést t. d. í Bandaríkjunum þar sem flokkarnir eru raunar orðnir formlegar hakkavélar til að merkja og spýta út úr sér frambjóðendum sem eru sundurleitir. Þannig má telja að prófkjörin hafi haft viss áhrif á íslenska pólitík og spurning um hvort svo á ekki eftir að verða áfram og eigi jafnvel eftir að aukast.

Hér hefur fólk sömuleiðis, íslenskir kjósendur, hafnað leiðsögn eða forustu hinna klassísku stjórnmálaflokka á vissan hátt, t. d. í síðustu kosningum. Þá snéri 6. eða 7. hver kjósandi baki við gömlu flokkunum sem við köllum.

Það er hugsanlega fleiri dæmi um að stórveldi flokkanna séu að gliðna á saumum. Um það má jafnvel finna ýmis merki. Við getum t. d. tekið Búnaðarbankamálið. Við höfum nýlegt dæmi af hæstv. fjmrh., sem stóð af sér flokksvél og valdamikinn fjölmiðil um síðustu helgi í krafti sinnar eigin aflstöðvar, sem er fylgi fólks.

Alþýðusamband Íslands hafnaði leiðsögn Alþb. í samningamálunum um daginn. Svona mætti ýmislegt telja upp, ef menn væru að reyna að gera sér grein fyrir hvaða tilhneigingar væru í áhrifum stjórnmálaflokkanna á þjóðlífinu.

En það er fleira en flokkarnir sem einkennir lýðræðislega framkvæmd á Íslandi. Það er ákveðið kerfi sem þeir vinna í. Það er miðstýringarkerfi sem lýsir sér í mikilli miðstýringu á allan hátt. Við höfum miðstýringu efnahagsmála. Við höfum virka miðstýringu í sjávarútvegsmálum. Við höfum hana í verðlagsmálum, t. d. verðlagsmálum landbúnaðarins. Við höfum hana í skólamálum. Við höfum hana í vegamálum. Og maður sér ýmis merki þess að þeir sem fyrir þessari miðstýringu verða vilja gjarnan losna undan henni. Þannig gera sveitarstjórnarmenn sífellt meiri kröfur um forræði í eigin málum, atvinnurekendur mótmæla miðstýrðum rekstrargrundvallarræflum, fjöldi verkafólks t. d. er þessa dagana að mótmæta miðstýrðum samningum og útvegsmenn mótmæla miðstýrðum kvótakerfum. Þannig held ég að ákveðin merki séu um það innanlands að það séu að verða breytingar á þeim hugmyndum sem almenningur gerir sér um samskipti stjórnvalda og þess sjálfs.

Þá er spurningin: Hvernig eiga menn að bregðast við þessu? Við sjáum þetta gerast í kringum okkur. Við teljum okkur sjá merki um að þetta sé að gerast hér. Þá er spurningin: Hvað eigum við að gera? Hvers vegna að vera að taka upp slíka umræðu í sambandi við kosningalög? Ég held að það sé nauðsynlegt vegna þess að kosningalög eru kannske af einstökum þáttum þessa máts það sem mest hefur áhrif.

Við höfum gert stjórnmálaflokkana hérna svolítið að umræðuefni. Disraeli sagði að flokkur væri skipulögð skoðun og hafði sitthvað til síns máls. Þær breytingar sem hafa orðið á upplýsingum fólksins og möguleikum fólks til samskipta sín á milli, eins og ég sagði áðan, valda því að skoðanamyndun mun taka og er farin að taka mjög miklum breytingum og það eru farin að vaxa þúsund blóm í görðum þar sem áður uxu einungis fáir kaktusar. (Gripið fram í: Og von um blómvendi.) Og von um blómvendi.

Þessar breytingar eru að verða og það verður að taka tillit til þeirra. Ég held að fólk láti sér ekki lynda leiktjöld sem flokkar setja upp fyrir kosningar. Við þekkjum þetta öll og við þurfum ekki að vera að rekja um það nein ákveðin dæmi. Lagasetning verður að taka mið af þessum hreyfingum og þreifingum og það er ekki nóg að lýsa yfir almennum vilja til þess. Menn verða að sýna að þeir ætli að taka á málunum. Ég hef gert þetta að umræðuefni vegna þess að við verðum að líta á þann veruleika sem við lifum í og væntingar fólksins í kringum okkur og við verðum að sýna sveigjanleika til þess að taka þeim breytingum sem verða á næstunni.

Í þessu frv., sem nú hefur komið úr píramídum flokkakerfisins, er ekki neitt svigrúm til að taka við þessum breytingum. Ég held að breytingarnar í frv. horfi ekki til þeirrar framtíðar og taki ekki mið af þeim breytingum sem eru að verða á hugmyndum fólks um framkvæmd lýðræðis.

Það er í ljósi þess kannske eðlilegt að fyrir frv. var mælt í skjóli náttmyrkurs rétt fyrir jólin. Það er ágætt framhald á því að því var smyglað í rassvasanum í gegnum síðustu kosningar. Þá var, eins og hv. þm. Kristófer Már Kristinsson kom að, þing rofið um hávetur vegna stjórnarskrárbreytinga, vegna þess að það átti að gera breytingar á þessum grundvallaratriðum, en síðan hófst kosningabarátta og síðan fóru fram kosningar og það minntist ekki nokkur maður á þessi mál. Kosningarnar snérust alls ekki um þetta. (Gripið fram í: Það er nú ekki rétt.) En þeir ræddu það aðeins hæstv. þm. Karvel Pálmason og félagar fyrir vestan. (Gripið fram í: Hv. bara, það er ekki meira.) Allur er varinn góður.

Þá sjáum við hvers virði mönnum voru þau mannréttindi sem kosningarnar áttu að snúast um. Réttlætingin fyrir kosningum um miðjan vetur og ferðum um fanndrifin fjöll og firnindi í snjó og óveðri var að ójöfnuður atkvæðisréttar átti að jafnast úr 4 á móti 1 í 2.5 á móti 1. Það er bara alls ekki nóg. Málið snýst ekki um það, að gefnum þeim forsendum sem ég ræddi hérna í byrjun um þær almennu væntingar og þær almennu hræringar sem eru á öllum sviðum samskipta fólks og stjórnvalda. Þá fara menn ekki í kosningar upp á það hvort mesta misvægi atkvæðisréttar breytist úr 1 á móti 4 í 1 á móti 2.5. Málið snýst um allt annað. Það verður að líta á stjórnkerfið, það verður að lífa á starfsemi Alþingis og kosningar til þess, það verður að líta á starfsemi ríkisstj. og kosningar til hennar, það verður að líta á starfsemi sveitarstjórnanna og kosningar til þeirra og það verður að líta á hlutverkaskiptingu ríkis og sveitarstjórna, það verður að líta síðan á áframhaldandi valddreifingu og samskipti í þeim smærri einingum, sem eru til meðal sveitarstjórnanna, og í þessu samhengi á að taka þessi mál og það á ekki að samþykkja plástra af því tagi sem hér er til umr. fyrr en menn hafa einhverjar hugmyndir f málinu í heild. Í þessu frv. er engin breyting. Í raun og veru er engin eðlislæg breyting í aðsigi með þessu. Það misrétti sem ríkir eða skekkjurnar í stjórnkerfinu lagast ekki með þessu. Þess vegna hlýt ég að lýsa andstöðu við þetta frv. vegna þess að samþykkt þess mundi drepa þessa umr. í aldarfjórðungs dróma.

Ræðum nánar um þetta mái. Eins og hv. þm. Kristófer Kristinsson kom að hérna í byrjun hafa fallið ýmis gullkorn í umr. um kosningalögin, hvort sem þær urðu á þinginu í vor, þegar verið var að smala þm. inn í réttina, eða hafa orðið núna, þegar menn hafa verið að mæla fyrir þessu máli. Í öll skiptin hafa forustumenn flokkanna talað blygðunarlaust um að þessi og þessi regla eða þetta og þetta atriði fullnægi ekki flokkunum og flokkurinn gæti ekki samþykkt þessa og þessa till., ekki vegna þess að það væri ágreiningur um lýðræði eða ágreiningur um misvægi heldur væri þetta spurning um að flokkurinn gæti ekki fallist á málið vegna breytingar á þingmannafjölda. Eftir að hafa hlýtt á svona umr. er hreinlega spurning hvort þm. eigi að ráða þessu og leiðrétta þetta mál sjálfir. Harðorðir menn mundu eflaust segja sem svo, að þeir ættu ekki að dæma þarna í eigin sök. Þess vegna er spurning hvort ekki ætti að flytja frv. um þjóðfund í sumar, nokkurs konar stjórnlagaþing, sem yrði kosið til með hnífjöfnum atkvæðisrétti allra landsmanna og þannig yrði fenginn lýðræðislegur vettvangur til þess að skapa umræðu sem aldrei hefur fengið að fara fram meðal þjóðarinnar um þetta mál. Þannig væri kannske hægt að fá álit þjóðarinnar og út frá því gætu menn um málið fjallað. Þjóðinni var nefnilega neitað um þessa umr. í fyrravetur af því að þá var þessu skotið inn á milli bagga og því var leynt í farangri frambjóðendanna sem þá fóru um landið.

Þegar flm. hafa mælt fyrir frv. núna hafa ýmis gullkorn fallið. Einn flm. sagði efnislega eitthvað á þá leið að það tryggði eðlilegt misvægi atkvæða eftir búsetu. Um þetta mætti lengi fjalla. Hvað er eðlilegt misvægi? Ef menn fara að meta eðlilegt misvægi atkv. þarf að meta verðgildi atkv. Og hvernig metum við verðgildi atkv.? Það er ekkert til til þess að miða verðgildi atkv. við. Þetta er einn helgasti réttur okkar og við höfum ekkert gengi á honum.

Einhver flm. sagði að ákveðnar reglur í frv. hömluðu gegn því að flokksbrotin yrðu of mörg. Fyrir utan viðhorfið sem kemur fram í því að tala um flokksbrot, þá getur maður spurt sig: Af hverju eiga stórir flokkar, sem eru fyrir, að setja reglur sem hamla gegn fjölgun flokka? Er það ekki svipað og setja reglur sem hamla gegn fjölgun skoðana og þá að setja reglur sem koma í veg fyrir skoðanamyndun? Er einhver tiltekin tala eðlilegur fjöldi skoðana í landinu? Eigum við að segja að það sé eðlilegt að hafa fjóra farvegi fyrir skoðanir eða það sé eðlilegt að hafa 6 eða 8 eða 10? Þetta er held ég erfitt að meta. Menn geta spurt sig því fjöldi framboða og fjöldi flokka fer eftir því hvernig skoðanir liggja í samfélaginu. Ef framboðum, ef listum fjölgar, þá er það merki um að leiðir eru að skiljast. Annaðhvort eru að koma fram ný sjónarmið eða sjónarmið sem ekki hafa talið að þeim væri sinnt í því kerfi sem fyrir er fá sérstöðu. Það á ekki að setja lög sem banna slíkt.

Ef við setjum lög sem takmarka, eins og viðkomandi formaður sagði, og hamla gegn því að flokksbrotin verði of mörg erum við að verðfella atkvæðisrétt þess fólks sem kýs þessa flokka, jafnvel þó þeir séu litlir. Sjónarmið þess fólks hljóta að vera jafngild öðrum sjónarmiðum, sem menn hafa sem kjósa stóru flokkana, og það á að hafa nákvæmlega sama möguleika á að koma fulltrúum sinna sjónarmiða á þing og hinir.

Ég sagði áðan að ef listum, flokksbrotum og framboðum fjölgar í landinu, þá er það vísbending um að skoðunum er að fjölga og skoðanir eru að breytast. Það á ekki að setja lög sem banna það.

Svo er það allur vandræðagangurinn út af fjölgun. Fyrir kosningar hét það fjölgun framboða. Í stjórnarmyndunarviðræðum var það vandræðagangur vegna þess að það voru orðnir svo margir þingflokkar sem þurftu að taka þátt í stjórnarmyndun. Í þingstarfseminni er vandræðagangur vegna þess að það eru svo margir þingflokkar sem ríkisfjölmiðlarnir þurfa að skýra frá að þeir gefast yfirleitt upp gagnvart því. Þetta er eins og vandræðagangur og vandlætingartal sem yrði í settlegri, uppkominni fjögurra manna fjölskyldu ef þar skyndilega fjölgaði nú. Þá yrði jafnvægið ruglað og menn lentu í vandræðum. Ég tel þetta vandlætingar og vandræðatal út af fjölgun flokksbrota lítilsvirðingu við skoðanir fólksins í landinu.

Ein aths. frá flm. var sérlega góð. Þar var rætt um kosti frv. Þá sagði einn flm. — ég man því miður ekki hver hann var — þegar var rætt um kosti frv.: Í fyrsta lagi tryggir frv. jöfnuð milli flokka. Þetta segir okkur í raun og veru allt sem þarf.

Ég er á móti þessu frv. í fyrsta lagi vegna þess að þjóðin hefur ekki fengið tækifæri til þess að ræða þetta mál, í öðru lagi vegna þess að vandamál lýðræðis á Ístandi lagast ekki með aldarfjórðungsframlengingu á misrétti atkvæða í þriðja lagi lagast vandamál stjórnkerfisins á Íslandi ekki með þessu máli og þar með sú efnahagslega kreppa sem hér ríkir og í fjórða lagi er valfrelsi kjósenda til þess að hafa áhrif á lista og raða á lista ekki rýmkað. Það sem hlýtur að vera verkefni Alþingis á þessu sviði er að ná algjöru jafnræði atkvæða án tillits til búsetu, þ. e. einn maður - eitt og jafnt atkv. Það þarf reglur um heimastjórn landsvæða, um heimastjórn samtaka, sveitarstjórna, fylkja eða amta og reglur sem tryggi raunverulegt þátttökulýðræði fólksins í landinu sem við eigum að vera að fást við í þessum efnum, en ekki að setja svolítinn plástur sem breyti misréttinu á 1 móti 4 í misréttið á 1 móti 2.5.