31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

42. mál, orkulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 9. þm. Reykv. sagði að hann ætlaði ekki að tala um Landsvirkjun í þessu sambandi. En mitt orðalag var ekki nákvæmt. Ég vil undirstrika það að í raun og veru var það sem ég var að ræða um Landsvirkjun sérstaklega byggt á því að hv. 9. þm. Reykv. vildi ekki eða ætlaði sér ekki að ræða það mál. En ég taldi hins vegar rétt að ræða það.

Hv. þm. talaði um að aðilar gætu ekki bundið löggjafarvaldið og samningar yrðu-ja mér skildist að þeir gætu orðið að víkja. Ég skal nú ekkert fara út í það. En ég hygg að við leggjum báðir mikið upp úr samningum, sem gerðir eru, og að samninga verði að virða og halda. En það vill svo til að það var ekki aðili sem stóð fjarri Alþingi sem var aðili að þessum samningum, þ.e. ríkið sjálft. Og ríkið sjálft er aðaleigandi Landsvirkjunar og það kann að vera að í því felist nokkur ástæða til þess að láta aðrar reglur gilda um Landsvirkjun en almennt um orkufyrirtæki, vegna þess að ríkið hefur alltaf aðstöðu sem stærsti eignaraðilinn til að ráða þessum málum á vegum Landsvirkjunar, þó að Landsvirkjun að þessu leyti heyri ekki undir almenn ákvæði sem veita ríkisstj. almenna heimild til þess að hafa íhlutun um ákvarðanir orkufyrirtækja almennt um gjaldskrár og það án tillits til þess hvort ríkið er nokkur eignaraðili eða ekki.