08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3491 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er einarður maður og vill að orð standi. Það ber að fagna því að hann skuli standa við þær yfirlýsingar sínar að flytja Alþingi skýrslu um ástand ríkisfjármála á þriggja mánaða fresti. Menn gefa þá gamnað sér við að reikna út hversu margar fjárlagaumr. verði orðnar í árslok.

Ég hef líka trú á því að hann segi satt að svo miklu leyti sem hægt er að segja satt í málum af þessu tagi. Það er hins vegar skoðun mín að þessi umr. sé ónýt vegna þess að hér eru á engan hátt kynntar þær ráðstafanir eða aðgerðir sem eiga að snúa því dæmi, sem hér var lýst, við. Það er vont.

Því hefur verið lýst hér hversu skotheld fjárlögin voru þegar þau voru samþykkt fyrir jól. Það er ekkert vafamál að fjárlög eru langmikilvægasta stjórntæki ríkisins. Ríkisstj. sem er með fjárlög af þessu tagi er örugglega ekki að stjórna landinu. Hún hlýtur að vera að gera eitthvað annað.

Það kom að vísu í ljós í haust í umr. á Alþingi og var ítrekað, ef ég man rétt í umr. þann 13. des., að ríkisstj. hefði ekki lesið heima. Þar sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

„Sum af okkar kosningaloforðum voru byggð á þeim upplýsingum sem við héldum að væru réttar. Við höfðum ekki réttar upplýsingar þegar við hófum stjórnarmyndunarviðræður. Við fengum þær ekki fyrr en við sjálfir létum gera úttekt á ríkissjóði. Þetta eru mín orð.“

Nú kemur hins vegar í ljós að þeir hafa ekki farið að vinna heimadæmin eftir þennan árekstur. Allt í einu vakna þessir menn upp við það að rukkarar vilja fá víst 300 millj. upp í hin og þessi lán sem þeir höfðu bara ekki hugmynd um. Þeir gerast svo klókir að gera ráð fyrir að það kunni að vera einhvers staðar 200 millj. í viðbót sem er ekki búið að rukka. Það er lofsvert. Hins vegar er alvarlegt mál ef stjórnvöld í landinu sinna ekki þeirri grundvallarskyldu að lesa heima.

Umr. um fjármál og fjárlög hafa oft orðið tilefni til langra ræðuhalda. Ég ætla ekki að feta þá slóð. Það eru hins vegar nokkur atriði sem ég vildi gjarnan fá skýringar á og væri ánægjulegt ef hæstv. fjmrh. gæti haft inni í lestri sínum þegar að því kemur að hann geri grein fyrir aðgerðum ríkisstj.

Það var lögð rík áhersla á að launaramminn væri 4%. Nú virðist hins vegar að það sé út um allt verið að semja um 10–15% launahækkun. Þó verður ekki séð af þeim gögnum sem þm. fengu í vikunni að verðlagshækkanir eigi að vera meiri en 1% þrátt fyrir þessa skekkju. Getur verið að 4% ramminn hafi verið kolvitlaus?

Innlendur sparnaður hefur í þessu plaggi, sem við fengum, verið skorinn niður um 50%, úr eitthvað um 800 millj. niður í 400–500 millj. Þetta er alvarlegt mál fyrir ríkissjóð. En þetta segir út af fyrir sig miklu meira um fjárhag heimilanna í landinu því að þar átti sá sparnaður að vera sem ríkið ætlaði að nota til ýmissa gagnlegra hluta.

Það er líka alveg ljóst að þó að menn fjölgi alls kyns sparnaðartilboðum eykur það ekki sparifé. Ég held að ríkisstj. sé að upplifa það nú. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um að aukafjárveitingar eru af hinu vonda og ég vil gjarnan leggja honum lið í baráttunni við pilsfaldakapítalismann. Hins vegar væri gott að fá skýringar á því, hvaða forsendur það eru sem hafa brugðist. Hvað hefur breyst svona mikið frá því fyrir jól og hvað er líklegt til þess að breytast í náinni framtíð? Það er fagnaðarefni hversu vel ríkisstj. hefur tekist að kveða niður verðbólgudrauginn. Það er hins vegar áhyggjuefni að þessi verðbólgudraugur virðist hafa verið fólkið í landinu, a. m. k. skv. skilningi hæstv. ríkisstj. Ráðh. hafa greinilega vonda miðla í þjónustu sinni.

Það er áhyggjuefni þegar stjórnvöld þeysa fram á fjölmiðlavöllinn, leggja áherslu á gat í fjárlögum, allt sé í voða og eitthvað verði að gera. Er vorið 1983 að renna upp aftur? Eru þeir að brýna breddurnar til nýrrar atlögu við fólkið í landinu? Það kemur væntanlega í ljós þegar hæstv. fjmrh. gerir grein fyrir lausnum sínum á vandanum.

Það er athyglisvert að í skýrslu Þjóðhagsstofnunar segir, með leyfi forseta:

„Innheimta óbeinna skatta varð hins vegar lakari, sem gerir meira en vega upp í viðbótina í beinum sköttum. Helstu skýringar á lakari innheimtu óbeinna skatta eru þær, að rekstrarhagnaður ÁTVR varð mun minni en reiknað var með. Enn fremur virðist söluskattsskyld velta hafa dregist talsvert meira saman en svarar almennum verðbreytingum og innheimta söluskatts varð því minni en búist var við.“

Hafa söluskattssvik þá stórlega aukist? Það væri fróðlegt að fá skoðun hæstv. fjmrh. á því.