08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að stjórnarandstæðingar setji hér á langar ræður í tilefni þeirrar skýrslu sem hæstv. fjmrh. hefur flutt, vegna þess að í mínum huga er sú skýrsla í raun og veru ekkert annað en viðurkenning á því sem stjórnarandstaðan hélt fram í haust við afgreiðslu fjárlaga. Hæstv. fjmrh. á þakkir skildar fyrir það, þó seint sé, að viðurkenna og lýsa yfir opinberlega á Alþingi að hér var um að ræða sannleika sem haldið var fram af hálfu stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlaga í des. s. l. Það þarf enginn mér að segja, jafnvel þó svo hæstv. fjmrh. lýsi því yfir sjálfur, að hann hafi verið svo glámskyggn — jafnmikill peningamaður og hæstv. fjmrh. er og glöggur — að honum hafi ekki verið ljós þessi vandi við undirbúning fjárlagagerðarinnar og við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984. En ég ítreka: Hæstv. fjmrh. á þakkir skildar fyrir að viðurkenna þetta og gera þingi og þjóð grein fyrir því hvernig staðan er og þar með viðurkenna fyrir hönd ríkisstj. allrar að stjórnarandstaðan hafði á réttu að standa við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984.

Mér dettur ekki í hug að halda, t. d. í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem hagsýslustjóri gefur í blöðum í morgun, þar sem hann lýsir því yfir að þessi vandi hafi verið ljós frá því í haust, að þeim mönnum sem réðu ferðinni við undirbúning og afgreiðslu fjárlaga hafi ekki jafnframt verið ljós sá vandi sem þarna var um að ræða og að undirbúningur fjárlaganna og afgreiðsla þeirra voru ekki raunhæf. Það voru ekki raunhæfar forsendur sem settar voru að því er varðaði afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1984. Þetta held ég að öllum sé ljóst. Það má vel vera að það hafi ekki verið nákvæmlega þær tölur sem menn nú eru um að tala, en efnislega átti mönnum að vera þetta ljóst í meginatriðum strax á s. l. hausti.

Hitt er svo líka rétt, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt og ýmsir fleiri, að þetta er ekki bara vandamál núv. hæstv. ríkisstj. eða hennar synd. Hér er líka um erfðasynd fyrrv. hæstv. ríkisstj. að ræða. En Sjálfstfl. bar ábyrgð á henni líka og getur þess vegna ekki skotið sér undan þeirri gagnrýni sem eðlilega kemur fram vegna þess hvernig sú hæstv. ríkisstj. skildi við ríkisfjármálin þegar hún fór frá. Hvernig sem á þetta mál er litið eru það þrír stjórnmálaflokkar í landinu sem bera á því höfuðábyrgð, bæði frá tíð fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj., hvernig ríkisfjármálum er nú komið og hvernig þau standa. Undan þessu geta þessir flokkar ekki skotið sér þó að þeir kasti boltanum milli sín og e. t. v. sé mismunandi hversu mikil sökin er hjá hverjum. Sameiginlega bera þeir þessa sök og eiga hana.

Ég held því að ekki sé ástæða til að setja á langa ræðu vegna skýrslunnar. Þetta var ljóst. Hins vegar er miklu meiri ástæða til þess að spyrjast fyrir um það, og það er auðvitað það sem skiptir máli: Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. gera til lausnar þeim geigvænlega vanda sem þarna blasir við? Hverjar eru tillögurnar? Hver eru úrræðin til þess að komast út úr vandanum? Það er það sem höfuðmáli skiptir úr því sem komið er, fyrst menn ekki trúðu þessu, vildu ekki trúa því, kannske vísvitandi margir hverjir, við afgreiðslu fjárlaga og ýttu þannig vandanum á undan sér fram yfir þá afgreiðslu.

Um það liggur ekkert fyrir enn, ekki mér vitanlega, með hvaða hætti hæstv. fjmrh. hyggst bregðast við og leysa málið.

Ég sé ekki — a. m. k. ekki í fljótu bragði — hvernig það getur gerst í ljósi þeirra yfirlýsinga t. d. sem hæstv. fjmrh. hefur gefið. Hann segir: Skattar verða ekki hækkaðir. Lántökur verða ekki auknar. — Og nú er ljóst að hæstv. ríkisstj. virðist hafa gefist upp á því að spara í ríkiskerfinu. Þá er eðlilegt að spurt sé: Hver eru þá ráðin til að leysa úr þessum vanda? Hverjar eru tillögur hæstv. ríkisstj. um að komast út úr þessu? Það er mergur þessa máls. Um það hlýtur umræðan í framhaldi af þessari skýrslu fyrst og fremst að snúast. Hver verða úrræðin? Það er engu líkara, eins og sagt var áðan af hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, en ríkisstj. hafi gefist upp á að framkvæma þá stefnu sem hún fyrst og fremst hampaði hvað mest í stjórnarmyndunarviðræðunum og í stjórnarsáttmálanum sjálfum.

Síðast í gær hygg ég að það hafi verið sem hæstv. félmrh. lýsti því yfir að á engan hátt yrði hvikað frá fjármögnun í húsnæðismálakerfinu. Þar er talið að vanti a. m. k. líklega 804–900 millj. kr. Og hæstv. félmrh. segir: Þeirra peninga verður aflað. — En það vantaði viðbótina: Með hvaða hætti? Nú er svo komið bæði varðandi verkamannabústaðakerfið og Byggingarsjóð ríkisins að það vantar svo hundruðum milljóna skiptir upp á að hægt sé að leysa úr brýnustu skyldum sem þessir aðilar bera gagnvart húsbyggjendum og ætti að vera löngu búið að greiða út háar upphæðir af þeim peningum sem ekki eru fyrir hendi. Ég hef ekki heyrt eða séð neinar tillögur frá hæstv. félmrh. eða hugmyndir um hvaðan þessir peningar eiga að koma. Einhvers staðar var eftir hæstv. ráðh. haft að hér væri fyrst og fremst treyst á Atvinnuleysistryggingasjóð, sem er ljóst að er nánast þurrausinn sjóður, ekki síst í ljósi ört vaxandi atvinnuleysis og bótagreiðslna úr þeim sjóði á yfirstandandi ári ef fram heldur sem horfir. Hvað með skyldusparnaðinn sem aðstoðarmaður hæstv. félmrh. taldi réttast að leggja niður? Ekki verður á hann treyst í framhaldinu. Allir vita hvernig búið er að þurrausa eða nánast kreista út allt það fé sem hægt er að fá úr lífeyrissjóðunum. En þrátt fyrir allar þessar staðreyndir keppast sumir hæstv. ráðh. við að gefa yfirlýsingar um að peninga verði aflað, þó að hvergi sjáist örla á hugmyndum eða tillögum þessara sömu hæstv. ráðh. um með hvaða hætti það skuli gert.

Hver trúir því t. d. að hæstv. ráðh. og stjórnarþm. allir hafi ekki vitað það fyrir afgreiðslu eða við afgreiðslu fjárlaga að það vantaði tugi milljóna til að brúa bilið í grunnskólakerfinu? Þar er nú talið að vanti 40–50 millj. hið minnsta til að sjá fyrir þeim þætti sem ríkið á þar um að sjá. Og hver trúir því að hæstv. ráðh. og hv. stjórnarþm. hafi ekki gert sér ljóst að það þurfti að standa við þær skuldbindingar sem Ísland er búið að taka á sig gagnvart Grænhöfðaeyjum? Nú koma menn og segja: Það er einn þátturinn af því sem við vissum ekki um, 29 millj. kr. Og hver trúir því að hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluti hafi ekki gert sér ljóst að það þurfti að standa við afborganir vegna Straumsvíkurhafnar af hálfu Íslendinga? Hafi mönnum sem taka að sér ráðherradóm, ekki verið ljóst hverjar skyldur voru þarna gagnvart ríkinu sjálfu tel ég að hæpið sé að slíkir menn eigi á því siðferðislegan rétt að sitja á ráðherrastól.

Hver trúir því að hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta hafi ekki verið það ljóst varðandi skuldbindingar ríkisins gagnvart loðnudeild, sem á sínum tíma var tekið lán til þegar loðnuveiðar voru stöðvaðar, að það væri ekki skuldbindingar af hálfu ríkisins sem þar væri verið að halda fram? Það eru 129 millj., segja menn núna, sem við vissum ekkert um að ætti að borga. — Svona mætti lengi telja. Þetta eru plögg sem koma frá hæstv. ríkisstj. sjálfri, og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þau séu rétt þó að þau stemmi í sumum tilvikum ekki alveg við skýrslu svipaðs efnis frá Þjóðhagsstofnun, en að því er best verður séð og eftir bestu manna yfirlýsingum að dæma á á þessari stundinni að taka þetta plagg frá hæstv. ríkisstj. sem það sem gildir.

Ég held, herra forseti, að hæstv. ríkisstj. hafi gert mikil mistök og þar með meiri hluti Alþingis í því að horfast ekki í augu við staðreyndir við afgreiðslu fjárlaga í desembermánuði og gera sér þá grein fyrir þeim vanda sem þurfti að leysa og nú hefur aukist og þarf enn að leysa. Það er engum til gagns, allra síst ætti það að vera háttur þeirra sem til þess gefa á sér kost að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar, að stinga hausnum í sandinn á vissum tímum og neita að viðurkenna staðreyndir.

Ég held að nauðsynlegt sé í þessari umr. að kalla eftir tillögum þeim sem hæstv. fjmrh. ætla fram að leggja til lausnar þessu máli og ekki síður að fá um það vitneskju með hvaða hætti sú umfjöllun á að eiga sér stað þegar og ef slíkar tillögur koma fram. Er meiningin að hér verði 4. umr. og þar með atkvgr. fjárlaga eða á þetta að gerast með einhverjum öðrum hætti? Verða þær tillögur, sem væntanlega koma fram frá hæstv. ríkisstj. lagðar hér fyrir Alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar eða hyggst hæstv. ríkisstj. fara að með öðrum hætti?

Ég trúi ekki öðru en að allir hv. þm., hvar í flokki sem þeir eru, séu til þess reiðubúnir að horfast í augu við þessar staðreyndir og leggja sitt af mörkum til að leysa vandann. Til þess eru menn hingað kjörnir. Það er eitt af frumskilyrðunum og frumverkefnunum að þm. er ætlað að taka á sig ábyrgð af því að leysa þau vandamál sem upp koma í þjóðfélaginu. Ég á ekki von á öðru en allir hv. þm. séu til þess reiðubúnir. En til þess að svo megi verða verður að fá fram hugmyndir og till. hæstv. ríkisstj. Komi þær ekki, og það hið allra fyrsta, er það auðvitað skylda stjórnarandstöðu að leggja sín spil á borðið, og til þess er Alþfl. reiðubúinn að segja sitt um það mál, ef til þess kemur, og kannske þrátt fyrir það, hvort sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að leggja fram till. hér í þinginu til lausnar málinu eða ekki.

Ég sé ekki, herra forseti, að ástæða sé til þess að ræða þessa skýrslu frekar. Hún er viðurkenning á þeim staðreyndum sem stjórnarandstaðan hélt fram við afgreiðslu fjárlaga. En þakkir skal fjmrh. hafa fyrir að hafa hér fyrir hönd hæstv. ríkisstj. allrar og þingmeirihluta viðurkennt í dag með yfirlýsingu þessari það sem stjórnarandstaðan hélt fram við afgreiðslu fjárlaga. Það var rétt.