08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það er óneitanlega svolítið sérkennilegt að upplifa það hér nú, þegar tíu vikur eða þar um bil eru liðnar af fjárlagaárinu og þegar Alþingi hefur starfað á þessu ári hér um bil sjö vikur á að giska, að fjárlögin skuli koma til umr. Eins og hér hefur komið fram hjá mörgum hv. þm. segir sú staðreynd auðvitað fyrst og fremst það, að nú skuli fjárlögin hér á ný til umr. með þeim hætti sem við höfum heyrt í dag, að það sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar sögðu hér við afgreiðslu fjárlaga var hárrétt. Allt sem hér hefur gerst í dag og hefur verið að gerast undanfarna daga er raunar staðfesting á því. Það er staðfesting á því að allar yfirlýsingar sem bæði formaður fjvn., hv. þm. Lárus Jónsson, og hæstv. fjmrh. gáfu við afgreiðslu fjárlaga um að nú væri verið að afgreiða raunhæfustu og marktækustu fjárlög sem þing hefði samþykkt um margra ára skeið, ef ekki frá upphafi vega að maður skyldi halda, — allar þessar yfirlýsingar voru út í hött, allar þessar yfirlýsingar voru rangar, allar þessar yfirlýsingar voru marklausar, jafnmarkalausar og þau fjárlög sem samþykkt voru.

Hitt er svo rétt að auðvitað ber að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að vekja nú athygli á þessu. Ég tek undir þær þakkir eins og ýmsir fleiri. En ég get ekki að því gert að líka finnst mér það svolítið undarlegur leikur sem hér er öðrum þræði verið að leika. Hæstv. fjmrh. er eins og alþjóð veit gamalkunnur og gamalreyndur knattspyrnumaður. Nú sér hann að hann er kominn í hættu með boltann, hann er kominn á hættusvæði. Og hvað gerir hann? Hann sendir knöttinn til ríkisstj. til að firra sig ábyrgð og losna úr hættu og þröngri stöðu. Hvað gerir ríkisstj.? Ja, hún gerir raunar ekki neitt. Kannske sendir hún knöttinn aftur til hæstv. fjmrh. Hvað gerir hann þá? Hann sendir knöttinn til Alþingis. Ég held raunar að þá séu menn farnir að spila einhvers staðar langt fyrir utan völl og leikurinn þar með orðinn marklaus.

En hvað er það sem er að gerast í rauninni þegar fjmrh. leikur þennan leik? Jú, hann er að firra sig ábyrgð. Og hvað er það sem er að gerast þegar hæstv. fjmrh. kemur hingað og gefur þinginu skýrslu um stöðu ríkisfjármála? Hann segir: Ég hef engar tillögur á þessari stundu. Þetta er merkilegt líka.

Nú hefur það komið fram í þessum umr. hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur ræðumönnum að það sem hér er verið að greina frá ætti ekki að koma neinum á óvart. Hinir mætustu embættismenn hafa frá því greint að raunar hafi þetta verið ljóst þegar í haust, raunar hafi verið ljóst þegar í haust að þessi vandi væri fyrir hendi. Að hluta til er hann auðvitað þessarar ríkisstj., sem gerði margvíslegar ráðstafanir, felldi niður tekjustofna og dró þannig úr tekjum og gerði sitthvað fleira, lækkaði skatta á fyrirtækjum og eitt og annað, en að hluta til, og það ber að viðurkenna, er þetta líka eldra mál.

En af hverju, fyrst þetta var ljóst í haust, sögðu þá hæstv. fjmrh. og hæstv. formaður fjvn. að hér væri nú verið að afgreiða raunhæfustu fjárlög sem um gæti? Hvers vegna, fyrst þetta var ljóst í haust, hefur hæstv. fjmrh. ekkert sagt fyrr? Hvers vegna hefur þá hæstv. ríkisstj. ekkert sagt fyrr?

Það eina sem ég hjó eftir í ræðu hæstv. fjmrh. áðan sérstaklega var að hann talaði svo og tók þannig til orða að það kynni að vera nauðsyn tímabundinna aðgerða. Á þessu voru engar frekari skýringar. Það fylgdu engar frekari útlistanir á því hvað hæstv. fjmrh. á við. Nú hefur hann margoft sagt að hann muni fremur segja af sér en að leggja nýjar álögur á þjóðina. En hvað er átt við með þessum tímabundnu aðgerðum? Það skyldu þó aldrei vera tímabundnar álögur í einhverju formi? Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. skýri þessi orð sín nánar hér á eftir. En aðrar tillögur hafði hann ekki fram að færa, hæstv. ráðh., né heldur heyrðist nokkuð annað slíkt frá þeim hæstv. ráðh. öðrum sem hér tók til máls, og var þó þeirra á meðal hæstv. forsrh.

Hér hafa menn gert ríkissjóðsdæmið að umtalsefni og vildi formaður fjvn., hv. þm. Lárus Jónsson, ekki gera mikið úr því að hér væri um svo mikinn vanda að tefla sem hæstv. fjmrh. lét í skína. Það var á honum að heyra að þetta væri ekki eins alvarlegt mál og ýmsir hefðu gert skóna. En það er ekki bara að vandi sé á höndum að því er varðar fjárhag ríkissjóðs. Það er víðar vandi. — Nú hefði ég, herra forseti, viljað beina nokkrum spurningum til hæstv. félmrh., en ég sé ekki að hann sé í salnum.

Ég vildi mælast til þess að hann yrði kvaddur til fundar ef hann skyldi vera einhvers staðar á næstu grösum. (Forseti: Hann er á næstu grösum og mun hlýða á mál ræðumannsins.) Já.

Ég hefði viljað víkja að því sem hefur borið á góma í blöðum og öðrum fjölmiðlum undanfarna daga. Í Þjóðviljanum í gær segir, með leyfi forseta:

„Komið hefur í ljós að 900 millj. kr. vantar í húsnæðislánakerfi ríkisins. Þetta er um helmingur þess fjár sem áætlað var að lána til húsnæðismála í ár. Blasir nú við að engum húsnæðislánum verður úthlutað á síðari helmingi ársins ef þetta nýja stórgat í fjármálakerfi ríkisins verður áfram óbreytt. Þetta 900 millj. stórgat í húsnæðiskerfinu kemur til viðbótar stóra gatinu í fjárlögum ríkisins sem fjmrh. kunngerði á mánudag. Samtals nema þessi tvö stórgöt rúmlega þremur milljörðum króna.“

Og fer nú að vandast málið og þó, gæti nú einhver sagt. Ég kannast ekki við að hafa séð þessari frétt mótmælt af hálfu ríkisstj. Þó má vera að raunhæft metið séu þessar tölur nokkuð í hærri kantinum.

Í því sem sumir eru nú farnir að kalla ráðherrafréttatíma Ríkisútvarpsins, þ. e. kvöldfréttunum, í gærkvöld kl. 19, þá var fjallað um þessi mál. Ég ætla, með leyfi forseta, að greina nokkuð frá því hvernig um þau mál var þar fjallað. Það var nefnilega næsta óvenjuleg framsetning frétta sem þar átti sér stað og kann ég ekki að skýra hvers vegna svo var. Vera má að aðrir geti leitað einhvers konar skýringar á því í innviðum útvarps og á fréttastofunni. — Í yfirliti fréttanna segir, með leyfi forseta:

„Að sögn félmrh. stendur ríkisstj. við loforð sín um 50% hækkun á lánum til þeirra sem byggja eða kaupa húsnæði. Greiðsla lána hefur dregist vegna þess að lánsfjárlög hafa ekki verið afgreidd.“ — Þetta var númer eitt.

Í aðalyfirliti fréttatímans, þ. e. sem þulur les, sagði á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir erfiðleika ríkissjóðs verður að sögn Alexanders Stefánssonar félmrh. staðið við loforð ríkisstj. um að hækka um 50% lán til þeirra sem byggja eða kaupa húsnæði í fyrsta sinn. Hækkun lánanna hefur verið undirbúin.“

Svo kemur, með leyfi forseta, þriðja vers í þessum eina kvöldfréttatíma:

„Alexander Stefánsson félmrh. segir að staðið verði við loforðin um að hækka öll lán húsnæðismála um 50%. Lánsfjáráætlun hefur enn ekki verið afgreidd á Alþingi, en þaðan á bróðurpartur þess fjár sem til þarf að koma, og komið hefur á daginn að stórfé vantar til að endar nái saman í fjárlögum sem búið er að samþykkja. Félmrh. er spurður hvort til væru peningar til að efna loforðin um hækkun lánanna.“

Þá var flutt viðtal við hæstv. félmrh., það er fjórða vers, og ég vitna til þess, með leyfi forseta:

„Fréttamaður: Húseigendur geta þá treyst því og húsbyggjendur að þeir fái sín lán?

Félmrh.: Alveg örugglega.“ — Þetta var fjórða vers.

Svo kemur fimmta vers. Það var kl. 22.15:

„Að sögn Alexanders Stefánssonar félmrh. verður staðið við loforð ríkisstj. um að hækka um 50% öll lán húsnæðisstjórnar.“

Í síðasta fréttatíma Ríkisútvarpsins, líklega rétt fyrir miðnætti, var þessi frétt endurtekin, með leyfi forseta, og það var þá líklega sjötta vers:

„Að sögn Alexanders Stefánssonar félmrh. verður staðið við loforð ríkisstj. um að hækka um 50% öll lán húsnæðisstjórnar.“

Það má vel vera að þetta hafi enn verið ítrekað í morgunfréttum útvarpsins í dag, ég hlustaði ekki svo grannt þar.

Sem sagt: sex sinnum lofaði hæstv. félmrh. því í Ríkisútvarpinu í gær að öll lán húsbyggjenda yrðu hækkuð um 50%. Gott og vel. Vonandi verður unnt að standa við þetta. En ég geri ráð fyrir að efasemdir flökti um hug einhverra í þessu sambandi. En vonandi verður hægt að standa við þetta. — Og nú er ég kominn að því sem mig langaði til að beina til hæstv. félmrh.: Hvaðan á að taka fjármagn til að hækka öll húsnæðislán um 50%? Hvernig ætlar hæstv. félmrh. að standa við hið sexfalda loforð úr Ríkisútvarpinu frá í gær? Og ég spyr: Er Atvinnuleysistryggingasjóður aflögufær? Og ef svo er, hvað heldur hæstv. félmrh. að Atvinnuleysistryggingasjóður, eins og nú horfir í hans málum og eins og nú horfir í atvinnumálum, geti lagt mikið af mörkum til húsnæðislánakerfisins? Hvað heldur hæstv. félmrh. að lífeyrissjóðirnir muni leggja mikið af mörkum til húsnæðislánakerfisins á árinu 1984? Í þriðja lagi: Hvað heldur hæstv. félmrh. að unnt verði að afla mikils fjár með sölu spariskírteina eða skuldabréfa á hinum almenna lánamarkaði hér í þjóðfélaginu eins og nú kreppir að hjá mörgum? Í fjórða lagi spyr ég: Á bara að nota gömlu aðferðina, aðferðina sem notuð var núna um áramótin, að prenta nýja peninga? Hvar á að taka það fjármagn, hvort sem það eru 7, 8 eða 900 millj. kr., sem vantar til húsnæðislánakerfisins? Það er gott og vel að hæstv. félmrh. komi í útvarpið og lofi og lofi, en hann verður líka að segja hvar hann ætlar að taka peningana. Þær þúsundir húsbyggjenda sem bíða eftir lánum eiga ekki bara rétt á því, þær eiga kröfu til þess að hæstv. félmrh. greini nú frá því hvernig hann ætlar að standa við sitt sexfalda loforð frá í gærkvöld. Við bíðum og ég á ekki von á að það standi á svari.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri að sinni. Það mætti vissulega margt um þetta segja fleira í heild. Það hefur verið haft á orði hér að hæstv. ríkisstj. hafi gefist upp, hún sé komin á flótta, það sé komið hrun í efnahagsstefnu hennar. Og er það ekki dæmigert þegar hæstv. fjmrh. kemur upp og gerir grein fyrir öllum þessum vandamálum, en hefur ekki eina einustu tillögu fram að færa á þessu stigi máls um hvernig ráða skuli bót á þessum vanda? Formaður Alþfl., hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hefur gert grein fyrir í stórum dráttum hvernig við við fyrstu yfirsýn hugsum okkur að mætti ráðast til atlögu við þennan vanda. Það er meira en heyrst hefur frá hæstv. ríkisstj. í þessum umr., og gildir það bæði um hæstv. fjmrh. og forsrh.