31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

12. mál, tollskrá

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 6. landsk. þm. að flytja á þskj. 12 frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o.fl. Þetta frv. er stutt og það er tiltölulega einfalt að gera grein fyrir því.

Það er alveg ljóst að þær reglur sem nú eru í gildi um hlunnindi ráðh. í sambandi við bifreiðakaup stangast í verulegum greinum á við réttarvitund almennings. Þess vegna teljum við flm. þessa frv. að brýna nauðsyn beri til að breyta þessum reglum.

Á 100. löggjafarþingi var flutt stjórnarfrv. til laga um breytingu á tollskrá sem miðaði að því að fella þessi fríðindi ráðh. niður, þ.e. að þeir gætu keypt bifreiðar án þess að greiða af þeim aðflutningsgjöld. Þá var þetta frv. samþykkt í Nd. og nái. fjh.- og viðskn. þeirrar hv. deildar er prentað hér með sem fskj. Undir það skrifa virðulegir þm. ýmsir, þeirra á meðal Lúðvík Jósepsson, Halldór E. Sigurðsson, Matthías Á. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson og Kjartan Ólafsson, og Vilmundur Gylfason og Finnur Torfi Stefánsson með fyrirvara.

Hins vegar fór það svo, þó að þetta væri ríkisstjórnarfrv., að það dagaði uppi hjá hv. fjh.- og viðskn. Ed. og hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Það gerðist á vordögum 1979. Ég hygg að ég fari ekki rangt með er ég segi að formaður þeirrar n. muni þá hafa verið þáv. formaður þingflokks Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Mér er hins vegar allsendis ókunnugt um hverjar orsakir lágu til þess að þetta frv. dagaði uppi í hans ágætu n.

Þegar þetta frv. var flutt hér á 100. löggjafarþinginu fylgdu því aths. sem ég vil leyfa mér að lesa hér, “með leyfi virðulegs forseta. Þar segir:

„Í allmörg ár hafa verið í gildi sérstakar reglur um tollmeðferð bifreiða er ráðherrar hafa til afnota. Með lögum nr. 1/1970, um tollskrá o.fl., var veitt heimild til þess að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda á bifreiðum ráðherra í samræmi við reglur um bifreiðamál ríkisins.

Reglur þær, sem nú gilda um bifreiðamál ríkisins, er að finna í reglugerð nr. 6/1970. Í 10. gr. reglugerðar þessarar eru svofelld ákvæði:

„Hver ráðherra getur fengið til umráða ríkisbifreið, sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Bifreiðar þessar skulu sérstaklega auðkenndar, og er óheimil notkun þeirra nema í embættisþágu.

Ráðherra, sem ekki óskar að fá til umráða ríkisbifreið, á þess kost að fá keypta bifreið, er hann tekur við embætti, með sömu kjörum og gilt hafa um bifreiðakaup ráðherra, er lætur af embætti. Heimilt er að veita ráðherra í eitt skipti lán til slíkra kaupa með sömu kjörum og gilda um ríkisforstjóra, sem haft hafa ríkisbifreið til afnota.“

Ríkisstjórnin telur óeðlilegt að ráðherrar fái bifreiðar, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu. Er því með frv. þessu lagt til að lagaheimild til veitingar slíkra fríðinda verði felld úr gildi.“

Ég vil bæta því við að sá rökstuðningur, sem fylgdi þessu frv. á sínum tíma, á auðvitað ekki síður við nú en þegar frv. var upphaflega flutt. Við flm. teljum eðlilegt að þessar reglur um ráðherrafríðindi verði felldar úr gildi og því er þetta frv. flutt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að bílakaup ráðh. hafa verið mjög í fréttum í fjölmiðlum. Síðast í dag er í Dagblaðinu og Vísi frá því greint að hæstv. fjmrh. sé að leita sér að notuðum bíl til sinna afnota, og þykja nú sjálfsagt nokkur tíðindi, ef miðað er við hin fyrri bifreiðakaup ráðh., þar sem engu líkara er en efnt hafi verið til einhvers konar kapphlaups um það hver gæti keypt dýrasta bílinn. Sýnist mér þar hafa verið ansi langt gengið nú hina síðustu dagana og munu þó ekki öll kurl þar komin til grafar, ef þannig má til orða taka, því einhver bílakaup munu enn vera á döfinni. Það virðist t.d. vandséð hvers vegna ráðh. þarf að láta ríkið kaupa handa sér — þá er ráðh. að ég hygg ekki að kaupa sér bifreið sjálfur heldur láta ríkið kaupa handa sér — bifreið sem kostar 1 200–1 300 þús. kr. Á sama tíma er almenningi sagt að nú séu ekki til peningar til eins eða neins, allir verði að herða sultarólina margfrægu. Þá skyldi maður halda að hæstv. ráðherrar ættu að gefa þjóðinni fordæmi, ganga á undan með góðu eftirdæmi og sýna nokkurn sparnað, hvort sem þar er um að ræða bifreiðakaup á þeirra eigin vegum og endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða bifreiðakaup sem ríkið ber allan kostnað af.

Nú skal ég taka það skýrt fram að mér finnst alveg sjálfsagt og eðlilegt að ráðherrar hafi ágæta bíla til sinna nota og sömuleiðis að þeir hafi bílstjóra. Þetta finnst mér ekki þurfi að ræða, það sé sjálfsagt. Hins vegar verður líka að ætlast til þess að þarna sé ekki gengið of langt, að þarna sé farið fram með hófsemi og skynsemi, sérstaklega á tímum þegar gerðar eru mjög strangar kröfur til almennings um aðhald og sparsemi. Eins og fram kom hér í umr. um daginn, er við ræddumst hér nokkuð við, hæstv. fjmrh., þá er ekki hægt að sjá eða skilja hvernig fólk getur lifað af þeim lágmarkslaunum sem nú eru skömmtuð. Hæstv. ráðh. var alveg sammála því, hann gat ekki skýrt það hvernig fólk ætti að fara að því að lifa af 12–13 þús. kr. mánaðarlaunum. Það er því engin furða þótt fólki ofbjóði þegar fram er gengið eins og nú hefur verið gert.

Ég tek það auðvitað skýrt fram að hér hafa engar reglur verið brotnar, alls ekki. Hæstv. forsrh. sagði, þegar hann var inntur frétta sem oftar um sín bílakaup í sjónvarpinu, að hann hefði farið eftir ýtrustu reglum. Allt er það rétt. Enginn ber brigður á það að hann hafi haft lagalegan rétt til að gera það sem hann gerði og frægt varð. Um það eru engar deilur. Hins vegar er önnur hlið á þessu máli sem skiptir ekki minna máli þegar svo háttar til í þjóðfélaginu sem nú.

Það mætti sjálfsagt hafa um þetta ýmis fleiri orð. Ég ætla ekki að gera það að svo stöddu. Hér er um að ræða endurflutning á stjfrv. sem flutt var af hálfu ríkisstj. sem hæstv. forsrh. átti á sínum tíma aðild að. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að nú sé eðlilegt að samþykkja frv. af þessu tagi. Sömuleiðis vildi ég spyrja hæstv. fjmrh, hvort hann geti ekki fallist á að eðlilegt sé að samþykkja frv. af þessu tagi. Það er ekki til þess fallið að auka útgjöld ríkissjóðs heldur jafnvel tryggja honum nokkrar viðbótartekjur. Meginmarkmið frv. er að fella niður þessi fríðindi, sem verið hafa í gildi um langt árabil og margir ráðherrar úr öllum flokkum hafa notfært sér, en stangast nú alveg tvímælalaust á við réttarvitund almennings. Þess vegna ber að fella þau niður. Ég held að allir séu sammála um það að ef ráðh. vill kaupa sér bíl til sinna einkanota eigi hann að gera það með sömu kjörum og allt annað fólk í landinu. Ýmsir fleiri embættismenn munu hafa notið svipaðra fríðinda. Því höfum við lagt fram í Sþ. till. til þál. um að sams konar fríðindi, sem aðrir kunni að hafa notið, verði einnig afnumin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.