31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

12. mál, tollskrá

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 5. landsk. þm. beindi til mín spurningu varðandi það frv. sem hann flytur hér á þskj. 12, 12. mál, um niðurfellingu fríðinda ráðherra í sambandi við bílakaup. Eins og þetta mál er til komið nú sé ég ekki ástæðu til að lýsa yfir samstöðu minni með því, vegna þess að fríðindi ráðh. eru nú ekki mörg, og alls ekki umfram það sem þm. hafa, og ráðherralaun eru lægri en þingfararkaup en vinna talsvert miklu meiri. Þessi fríðindi í þjóðfélaginu sem ég skoða eins og eins konar félagsmálapakka, er að sjálfsögðu til umræðu að fella niður, ef almennt er farið í það að skerða þau fríðindi sem menn hafa í hinum ýmsu atvinnugreinum, samkv. samkomulagi eða ákvörðunum sem hafa verið löglega teknar. Ég verð að lýsa furðu minni á öllum þeim óeðlilegu umr., sem hafa orðið um kaup ráðh., sérstaklega forsrh., á nýjum bíl undanfarið. Það er einhver sú lágkúrulegasta umr. sem verið hefur í gangi í stjórnmálum síðan ég fór að fylgjast með þeim og sýnir hvað stjórnarandstaðan er gjörsamlega málefnasnauð að þurfa að lúta svo lágt að fiska í svo gruggugu vatni.

Ég verð að segja alveg eins og er, að ef ríkissjóður hefði staðið undir kaupum á bíl forsrh. hefði ríkið orðið fyrir fjárútlátum. En forsrh. varð fyrir fjárútlátum vegna þess að hann keypti sinn eigin bíl og notaði sér þau sjálfsögðu hlunnindi sem hann hefur sem slíkur og allir ráðh. hafa haft svo lengi sem ég man til. Ég tek því ekkert undir þessar tillögur og er ekki á neinum flótta undan þeim þrýstihópum sem hafa ekki annað að gera en að finna svona mál til að gera forráðamenn þjóðarinnar, ráðherrana, tortryggilega. Ég tek ekkert undir þetta frv. að einu eða neinu leyti. Og ég vil benda á það, að með því að afnema þessi fríðindi er ekki verið að skapa ríkissjóði neinar aukatekjur eða viðbótartekjur, eins og hv. 5. landsk. þm. gat um. Þvert á móti, aðferðin sem forsrh. notaði sparaði ríkissjóði, því að ríkissjóður hefur engar tekjur af þeim bílum sem fluttir eru inn til ráðherrabrúks eins og er og eins og hefur verið. Ég sé þess vegna enga ástæðu til að lýsa yfir samstöðu með þessu frv. Það fer sína leið og Alþingi tekur sínar ákvarðanir. En ég tel eðlilegt og nauðsynlegt að fríðindi, alls konar fríðindi í þjóðfélaginu; sem komið hafa í gegnum kjarasamninga og fleira, verði tekin til endurskoðunar. Á þeim forsendum mundi ég gjarna vilja taka þátt í endurskoðun á þessum fríðindum ráðh.