31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

12. mál, tollskrá

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að tala í þessu máli, því mér er ljóst að þetta mál er flutt vegna þeirrar ádeilu sem að mér hefur verið beint vegna bifreiðarkaupa. En ég stend upp þar sem beint er til mín ákveðinni spurningu.

Mér sýnist þó að ástæða væri til að rekja aðeins betur hvernig þessi réttindi eru ákveðin og hvenær. Magnús Jónsson fjmrh. mun hafa skipað bílanefnd til að skoða hvernig best yrði staðið að bifreiðarekstri ráðh. og þá alveg sérstaklega hvernig draga mætti úr kostnaði ríkissjóðs við rekstur slíkra bifreiða. Bílanefnd, sem svo var kölluð, lagði þá til að þessi regla yrði upp tekin, að ráðh. yrði gefinn kostur á að kaupa eigin bifreið en felld yrðu niður aðflutningsgjöld, og hefðu þeir rétt til að gera það á þriggja ára fresti. Á Alþingi 1969 flutti fjh.og viðskn. Nd. þessa till. Stóðu allir nefndarmenn að því og var Matthías Á. Mathiesen, núv. hæstv. viðskrh., talsmaður fyrir hönd n. Till. var samþykkt í Nd. með 31 shlj. atkv. Þá virðist a.m.k. ekki hafa verið um það deilt að þetta væri skynsamleg leið. Og ég fyrir mitt leyti efast ekki um að Magnús Jónsson fjmrh. hefur haft það í huga, eins og sagt var.

Síðan hygg ég að þessi leið hafi verið farin a.m.k. 40 sinnum, og reyndar líklega 5–6 sinnum oftar að meðtöldum ráðherrum síðustu ríkisstj., sem hafa að vísu notað sér þann rétt sem er eldri, að ráðh. gætu eignast slíka bifreið án aðflutningsgjalda eftir að þeir láta af störfum. En einnig hefur það tíðkast í ýmsum tilfellum að ríkið hefur keypt bifreið og rekið fyrir ráðh., og gerði það m.a. í síðustu ríkisstj. og ríkisstj. þar áður. Og ég verð að segja það, eftir að ég hef nú kynnt mér rekstur þessara bifreiða — og n. mun fá ítarlega skýrslu um það, að ég efast mjög um að rétt sé að hverfa frá þeirri reglu sem hér er lagt til að verði lögð niður.

Ríkið á dálítið af bifreiðum sem keyptar voru fyrir ráðh. fyrir 3–4 árum. Og hv. þm. geta fengið einhverjar af þeim keyptar fyrir lítið ef þeir óska. Það gengur ekkert vel að selja þær. Ég held satt að segja að reynslan sé sú að betur sé farið með svona bifreið heldur en hinar, þó að ég sé ekki að segja að það sé farið sérstaklega illa með þær, en ríkið heimtar a.m.k. ekki aftur það fé sem það lagði í bifreiðina tveimur, þremur, fjórum árum áður. Og það er náttúrlega ljóst, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., að með þessu móti sparast ríkinu að þurfa að leggja út nokkur hundruð þúsund krónur, mismunandi mikið að sjálfsögðu, svo að greiðslulega kemur ríkið þannig betur út.

Hins vegar er furðulegt allt það moldryk sem upp hefur verið þyrlað, skal ég ekkert tala um tilganginn, það vita allir. En jafnvel eru hlutirnir túlkaðir þannig að með þessu móti sé verið að afhenda ráðh. aðflutningsgjöldin og honum greidd þau. M.a.s. sá ég í einu blaði nýlega reiknuð inn í útgjöld ríkissjóðs aðflutningsgjöld sem gefið er í skyn að ráðh. séu greidd. Ég veit að hv. þm., sem flytur till., hefur aldrei sagt slíkt. En að sjálfsögðu heldur ráðh. ekki slíkum aðflutningsgjöldum ef hann selur bifreiðina innan tilskilins tíma. Ég vil nota tækifærið til að benda á hvernig málflutningurinn hefur verið í þessu sambandi, og er mjög ámælisvert.

En þrátt fyrir það að ég hef mínar efasemdir um afnám þessarar reglu nú, sem ég studdi fyrir nokkrum árum, er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. En við nánari skoðun hef ég mínar efasemdir, ég fel að öll bifreiðamál hins opinbera þurfi að endurskoða. Þess vegna flutti ég í ríkisstj. fyrir einum þremur vikum till. um að það yrði gert. Hún var samþykkt og ákveðið að skipa nefnd þriggja manna til þess að skoða bifreiðarekstur ríkisins, þar með bifreiðar ráðh., en einnig annan rekstur. Þessi nefnd er að vísu ekki skipuð en verður skipuð allra næstu daga. Ég vona að út úr því komi endurskoðun á ýmsum þáttum í bifreiðarekstri hins opinbera og vera kann að tillögur komi fram um breytingu á bifreiðarekstri ráðherra þó ég vilji ekki neitt segja um það nú. Svar mitt við spurningu hv. þm. verður því það að ég mun bíða með niðurstöðu mína þar til ég sé þessa úttekt á bæði kostum og göllum þessa kerfis sem og annars bifreiðareksturs hins opinbera.