12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

63. mál, sjóntækjafræðingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er samið af stjórnskipaðri nefnd, sem fékk það hlutverk, að gera tillögur um starfsemi tengda sjónvernd. Nefndin skilaði svo sínum tillögum til ráðuneytisins.

Einn af þeim þáttum sem nefndinni var falið að gera tillögur um er skipan optikverslunar á landinu og úthlutun gleraugna. Það er einróma álit nefndarinnar, sem samdi þetta, að setja þurfi sem fyrst lög um starfsemi gleraugnafræðinga, eins og það var kallað. Hins vegar breytti Ed. heiti frv. á þann veg að í staðinn fyrir gleraugnafræðingar komi sjóntækjafræðingar, sem er nú heiti frv.

Ed. gerði auk þess þá breytingu á 4. gr. að á eftir orðunum „ótakmarkað starfsleyfi“ komi: „að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.“ og enn fremur að 6. gr. orðist svo: „óheimilt er að ráða til hvers konar sjóntækjafræðistarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.“

Í fjórða lagi gerði Ed. fyrrgreinda nafnbreytingu á frv.

Tvisvar áður hefur heilbr.- og trmrn. lagt fram frv. um svipað efni, en þau hafa ekki náð fram að ganga. Ágreiningurinn hefur fyrst og fremst staðið um það hvort setja beri ákvæði inn í slík lög er taki á sjónfræðistörfum. Læknar hafa lagst gegn slíku, enda telja þeir sjónfræðina eina af greinum læknisfræðinnar. Taka frumvarpshöfundar undir það sjónarmið.

Hins vegar er ótækt að láta löggildingu á störfum sjóntækjafræðinga stranda á þessu og því var þetta frv. flutt. Um það var ekki efnislegur ágreiningur í fyrri deild, en þær breytingar gerðar sem ég gerði hér grein fyrir.

Ég fyrir mitt leyti tel þörf á að afgreiða þetta frv. svo að þessu máli sé komið í betra horf. Það er samhljóða álit allra þeirra sem að þessum málum standa. Með því að þetta frv. nái fram að ganga er fyrri ágreiningur úr sögunni þar sem orðið hefur verið við óskum augnlækna í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. heilbr.- og trn.