13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

199. mál, lífríki Breiðafjarðar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil segja í sambandi við síðustu orð hv. fyrirspyrjanda, hv. 1. þm. Vesturl., að víst er það rétt að liðin eru fimm ár frá samþykkt þessarar þál. og fjögur ár af þessum fimm var hv. fyrirspyrjandi sjálfur í ríkisstj. Ég stóðst ekki mátið að minna á þetta. En þetta eru náttúrlega ekki efnislegar upplýsingar. Vil ég svo snúa mér að því að svara þessari fsp. sem er í hæsta máta eðlileg.

Ég sneri mér fyrst til þeirrar nefndar sem á sínum tíma var skipuð til að vinna að þessu máli. Í henni sátu þeir Andrés Valdimarsson sýslumaður, sem var formaður, Sólmundur Einarsson og Ævar Petersen. Í svari þeirra segir svo í bréfi sem dags. er 17. febr.:

„Vegna fsp. á Alþingi um störf nefndar, sem skipuð var til þess að gera tillögur um könnun á verndun lífríkis Breiðafjarðar, skal tekið fram eftirfarandi:

Nefndin hefur viðað að sér miklum gögnum er tengjast málefni Breiðafjarðar og leitað álits margra aðila sem gætu hugsanlega átt hlut að máli. Söfnun upplýsinga hefur staðið yfir fram á þennan dag. M. a. var leitað eftir upplýsingum um þá þætti sem gætu haft áhrif á lífríki fjarðarins. Nokkuð hefur þó vafist fyrir nefndarmönnum hvar ætti að setja mörkin. Ljóst var að nákvæmar upplýsingar um lífríki Breiðafjarðar væru af skornum skammti. Því var talið æskilegt að fá frekari reynslu af því lífríki sem þarna væri að finna og hafa þar farið fram kannanir undanfarin sumur. Þetta var nauðsynlegt til þess að unnt væri að bera fram raunhæfar tillögur þótt vissulega sé enn margt ólært. Af ofangreindum sökum hafa störfin dregist á langinn. Nefndarmenn hafa stefnt að því að fullvinna skýrslu fyrir næsta Náttúruverndarþing sem verður um miðjan apríl n. k. og mun það geta staðist.

Virðingarfyllst,

Sólmundur Einarsson.

Ævar Petersen.“

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef og eru svar við þeirri spurningu sem fram var borin.