13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

199. mál, lífríki Breiðafjarðar

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Í tilefni af því að hæstv. ráðh. var svo elskulegur að minna mig á minn ráðherradóm sem nú er liðinn vil ég sérstaklega taka fram að hvorki mér né öðrum hefur nokkru sinni dottið í hug að könnun af þessu tagi verði hrist fram úr erminni á skammri stundu. Miklu fremur má segja að hér sé um ævarandi viðfangsefni að ræða, svo fjölþætt er lífríki Breiðafjarðar. En þeim mun ríkari ástæða er til þess að vinna að slíku verki öllum stundum af fremsta megni. Við eigum marga dugmikla vísindamenn sem líklegir eru til vaxandi afreka. Það er að sjálfsögðu ómetanlegt. En þeir sem hafa þekkinguna og lærdóminn verða að hafa góða samvinnu við heimamenn og náttúruverndarsamtök, eins og segir í ályktuninni. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að vitna í viðtal við dr. Magna Guðmundsson frá Narfeyri á Skógarströnd, sem Morgunblaðið hafði við hann í nóv. 1977, en þá var dr. Magni nýkominn frá Kanada að loknu doktorsprófi á fullorðinsárum. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Ungu námsfólki nýútskrifuðu er gjarnt að ofmeta fræðikenningar og beita þeim af léttúð. Þessi hætta minnkar með aldri og reynslu. Æðra nám kennir mönnum þegar best lætur að hugsa rétt. Að sjálfsögðu er hægt að menntast með öðrum hætti. Lárus bróðir minn hafði minna skipstjórapróf, en eftir 40 ára siglingu vissi hann meira um Breiðafjörð en unnt er að læra í nokkrum háskóla.“

Að svo mæltu vona ég að því starfi sem hér hefur verið gert að umtalsefni verði haldið áfram svo sem efni standa til og sæmir þeim markmiðum sem að er stefnt.