13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

424. mál, notkun sjónvarpsefnis í skólum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég geri mér nokkra grein fyrir því hvernig höfundarréttarlög eru. Hins vegar þykja mér þau frámunalega vitlaus og ég vil undirstrika það t. d. að í Danmörku gerðist það að auðvitað ljósrituðu allir kennarar við alla skóla upp úr öllum þeim bókum sem þeir náðu í. Auðvitað var þetta lögbrot, klárt lögbrot. Það endaði náttúrlega með því að þeir sömdu um vissar þóknanir fyrir þetta. En ég vil gera þetta mál svolítið einfaldara. Er það skynsamlegt t. d. að greiða eigi ákveðna greiðslu fyrir stillimyndina í hvert skipti sem hún birtist í sjónvarpinu? Tæknimenn eigi að fá sérstakt fyrir það í hvert skipti og þar fram eftir götunum? Er þetta skynsamlegt kerfi? Það er kannske fróðlegt að fá það upp hvort greitt er sérstaklega fyrir stillimyndina, höfundarrétt í hvert skipti sem hún birtist. Ég verð að segja eins og er að það hvarflar þá að mér varðandi listaverkin, sem eru til að skreyta hús að utan, hvort ekki sé þá sanngjarnt að setja sérstaka gjaldheimtumenn á næstu götuhorn til að fylgjast með því hversu margir horfa á viðkomandi listaverk. Það væri hliðstætt. Það getur ekki gengið upp að mínu viti að setja upp svona greiðslukerfi jafnvel þó að listamenn eigi í hlut. Og ég efa að hægt sé að flokka það allt undir listaverk sem skapað er og gert í sjónvarpinu.