13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. 30. janúar s. l. urðu umr. hér á Alþingi um þá ákvörðun ríkisstj. að fyrirskipa nokkrum ríkisfyrirtækjum að ganga í Vinnuveitendasamband Íslands og taka þannig afstöðu með öðrum aðilanum í þeim kjaradeilum sem standa yfir. Þar með var ríkisstj. að afhjúpa stéttareðli sitt og viðhorf og að snúa við frá þeirri stefnu sem ákveðin hafði verið af vinstri stjórninni 1971, en í málefnasamningi hennar var það tekið fram að ríkisfyrirtæki ættu að fara út úr Vinnuveitendasambandi Ístands. Rökstuðningurinn sem þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, flutti fyrir því máli var sá, að þar með væri verið að ákveða að ríkisfyrirtækin ættu ekki að skipa sér í sveit með öðrum aðilanum í almennum kjaradeilum í landinu. Í þeirri ríkisstj. sem nú situr hefur sem sagt verið tekin ákvörðun um allt annað, að reka fyrirtækin inn í Vinnuveitendasambandið á ný, og hæstv. forsrh., núverandi formaður Framsfl., hefur þannig snúist gegn stefnu fyrirrennara síns í þessu máli eins og ýmsum öðrum.

Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh. á Alþingi 30. janúar s. l. var það hæstv. iðnrh. sem gerði till. um það 24. janúar í ríkisstj. að fyrirtækin færu inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Samþykkt ríkisstj. var á þessa leið skv. þingtíðindum í dálki 2442, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir sig samþykka ákvörðun iðnrh. um að fyrirtæki sem eru í umsjá iðnrn. sæki um aðild að samtökum vinnuveitenda“.

„Þetta mál var einnig ítarlega rætt“, segir forsrh., „og geymt á milli funda og sú ákvörðun tekin að iðnrh. væri frjálst að gera þetta eins og hann leggur til og ráðh. í ríkisstj. gerðu ekki aths. við það“. — Þannig var frásögn hæstv. forsrh. af þessu máli.

Ég vil spyrja í tengslum við þetta mál, þó að það komi ekki beint fram í þeirri fsp. sem ég hef hér borið upp í dag, hvort þingflokkar stjórnarliðsins samþykktu þessa ákvörðun ríkisstj. Ég vil spyrja að því hvort þingflokkur Framsfl. stóð að þeirri samþykkt að hrekja þessi ríkisfyrirtæki inn í Vinnuveitendasambandið á ný. Ég beini þeirri fsp. til hv. þm. páls péturssonar, 2. þm. Norðurl. v., formanns þingflokks Framsfl.

Í framhaldi af umr. sem urðu hér 30. janúar lagði ég fram fsp. sem er á þessa leið:

„1. Hvaða fyrirtæki, „sem eru í umsjá iðnrn.“, munu sækja um aðild eða hafa sótt um aðild að Vinnuveitendasambandi Íslands?

2. Er ætlunin að önnur fyrirtæki, t. d. Áburðarverksmiðjan, verði látin sækja um aðild að Vinnuveitendasambandinu?

3. Hve miklar upphæðir greiða fyrirtæki ríkisins til Vinnuveitendasambands Íslands á árinu 1984? Sundurliðun óskast eftir fyrirtækjum. Eftir hvaða reglum eru gjöldin til VSÍ ákveðin?“

Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara þessari fsp., sem er fyrir alllöngu hér fram komin þannig að honum og embættismönnum hans á að hafa gefist góður tími til þess að svara fsp. rækilega, en ég vil einnig áður en ég fer úr stólnum spyrja hæstv. forsrh. að því hvort þessi mál hafa verið borin undir stjórnir viðkomandi fyrirtækja. Hafa stjórnir viðkomandi ríkisfyrirtækja verið látnar taka afstöðu til þessara mála áður en fyrirtækin voru rekin inn í herbúðir Vinnuveitendasambands Íslands? Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh.: Hvað um vinnumálanefnd ríkisins? Þó að hún heyri formlega, trúi ég, undir hæstv. fjmrh. vil ég spyrja að því. Hvað um vinnumálanefnd ríkisins? Mun hún starfa áfram og hefur hún verið látin segja álit sitt á þessari ákvörðun ríkisstj.?

Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara þessum spurningum eins og þær eru fram bornar.