13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv., að það væru bændur sem rækju Áburðarverksmiðjuna eða væru aðilar að henni. Það er ríkið sem er eigandi hennar og bændur taka engan þátt í rekstrinum. Bændur kaupa framleiðslu hennar og það er vitanlega þeirra hagsmunamál að það sé ódýr vara, en að öðru leyti eru þeir ekki aðilar að Áburðarverksmiðjunni. Það er Alþingi sem kýs stjórnina og ég taldi rétt að stjórn Áburðarverksmiðjunnar tæki afstöðu til þess að fenginni reynslu af því að vera bæði aðili að Vinnuveitendasambandinu og utan þess, hvað nú yrði gert.

En mér finnst dálítið furðulegt að heyra þann tón sem kom fram í máli hv. þm. um viðræður um kjaramál. Það var eins og þær væru af hinu illa. Í mínum huga eru viðræður um kjaramál til þess að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvaða leið beri að fara til þess að allir aðilar geti sem best við unað, bæði launþegar og vinnuveitendur. Það er satt að segja of mikið af því gert að stilla þessu þannig upp í þjóðfélaginu að þarna þurfi alltaf að vera um stríð að ræða í staðinn fyrir viðræður þar sem menn reyni að ná sem bestum árangri fyrir alla aðila.