31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get strax svarað þeirri spurningu sem hv. 4. landsk. þm. beindi til mín um það, hvort ég teldi þetta þingræðislega auglýsingu. Ég sé ekkert athugavert við þessa auglýsingu með þeim fyrirvara sem í henni kemur fram um að Alþingi samþykki frv.

Ég vil benda á að hv. Alþingi var tilkynnt um að lagabreyting mundi fara fram á lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, og kemur það fram í þeirri málaskrá sem fylgdi með í stefnuræðu forsrh. Hv. alþm. hafði því verið tilkynnt um þetta þegar í upphafi þings og nokkru áður en þessi auglýsing var birt. En til skýringar vil ég í örfáum orðum rekja aðdraganda hennar að öðru leyti.

Það var á s.l. vetri sem fyrrv. ríkisstj. skipaði nefnd til að athuga fjárhagsstöðu bænda og þörf á skuldbreytingu vegna lausaskulda. Þessi nefnd lauk ekki störfum fyrr en í sept., eða í síðasta mánuði, en við stjórnarmyndun í vor var þetta tekið til umræðu milti flokkanna sem mynduðu ríkisstj. og samkomulag varð hjá þeim um að það skyldi vera eitt þeirra mála sem unnið skyldi áfram að eins og fyrrv. ríkisstj. hafði mótað stefnuna um. Þegar niðurstöður nefndarinnar komu samþykkti ríkisstj. að skipa hóp fulltrúa frá nokkrum rn. til að vinna áfram að undirbúningi þess að hrinda því í framkvæmd. Hún hefur svo setið að störfum síðan. Hún telur að það þurfi betri upplýsingar, sem ekki muni fást nema á þann hátt sem kom fram í þessari auglýsingu, þannig að hægt sé að gera sér fyllilega grein fyrir umfangi þess. Þess vegna samþykkti ríkisstj. fyrir sitt leyti í síðustu viku að þessi auglýsing yrði birt. Ég tel því að þarna hafi á allan hátt verið eðlilega að málum staðið.