13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér kom fram hjá hæstv. landbrh. sú athyglisverða kenning, sem ég vil vekja athygli þingheims á, að Áburðarverksmiðjan kæmi bændum ekki við. Það er mjög nýstárlegt að landbrh. á Íslandi gefi yfirlýsingar af þessum toga og sýnir kannske betur en margt annað skilning hans á stöðu landbúnaðarins og hagsmunum bænda í þeim mátum sem við erum hér að tala um.

Ég held að það sé alveg rétt og þarft að hæstv. iðnrh. rifji það upp að hann var um skeið formaður í stéttarsamtökum. Hann gerir það mjög gjarnan hér og gefur yfirlýsingar um að hann hafi verið það í 15 ár. Þá hefðu sumir betur reynt að læra af honum. Nú er það svo með þessi samtök, Landssamband ísl. verslunarmanna, sem hæstv. iðnrh. var einu sinni í forustu fyrir, að þau eru kannske um það bil að bera sitt barr núna eftir að hann veitti þeim forustu um nokkurra ára skeið. Ég held að kjör hins almenna verslunarmanns í landinu hafi ekki verið til að státa af fyrir hæstv. iðnrh. þegar hann yfirgaf stólinn sem formaður Landssambands ísl. verslunarmanna.

Það er einnig fróðlegt að heyra, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur vakið athygli á, hvernig hæstv. iðnrh. tekur nú að sér andlega leiðsögn fyrir Framsfl. Og Framsóknarforustan jarmar undir eins og henni einni er lagið og gerir í rauninni litla tilraun til að bera blak af sér, nema í góðlátlegum grínsetningum hv. þm. Páls Péturssonar, sem var að ganga hér úr stólnum áðan. Upplýsingar hæstv. iðnrh. voru þær, að það hefði verið Alþb. sem hefði svínbeygt Framsfl. á árinu 1971. Framsfl. lét sér þá segjast í samningum við Alþb. um ýmis mái. Mér var hins vegar ekki kunnugt um að Framsfl. hefði snúist við með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. upplýsti hér áðan. Var fróðlegt að heyra frá honum, og kom manni ekki á óvart, að Framsfl. hafi eina skoðun á þessum áratug, aðra á þeim síðasta og gjarnan þá þriðju á áratugnum þar á undan. Yfirleitt er hann eins og vindmylla og menn vita aldrei hvar hann kemur niður á lappirnar.

En meginniðurstaða umr. hér á hv. Alþingi í dag er sú, að ríkisstjórn þeirra Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, hefur tekið um það ákvörðun að greiða milljónir króna úr almannasjóðum í verkbannssjóði Vinnuveitendasambands Íslands.