13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3683 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held nú að þau orð sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að mínum hér í ræðustól sýni málefnafátækt hans. Ég undirstrikaði það í þeim fáu orðum sem ég sagði að bændur keyptu áburð af Áburðarverksmiðju ríkisins og það skipti vitanlega miklu máli að hann væri á hagkvæmu verði og bestu kjörum. Hins vegar ætti hv. þm. að vita að það er Alþingi sem kýs stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins sem er algerlega í eigu ríkisins. Reksturinn hlýtur því að vera á ábyrgð þessarar stjórnar. Ég teldi eðlilegt að þessi stjórn tæki afstöðu til þess hvernig hún vildi þarna haga málum, í samræmi við þá reynslu sem hún hefur fengið af því að vera bæði utan og innan Vinnuveitendasambandsins.