13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3683 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. — nú er hann fjarstaddur því miður — talaði um að það væri röng stefna að ríkisfyrirtæki sameinuðust öðrum vinnuveitendum í landinu og nefndi nöfn Jóhanns Hafsteins og Bjarna Benediktssonar af því tilefni, þeir hefðu haft forgöngu um það að ÍSAL hefði á sínum tíma ekki fengið leyfi til að gerast félagi í samtökum vinnuveitenda íslenskum. Þetta er auðvitað rangt. Þeir höfðu það ekki. Það var krafa kratanna þá að svo yrði, — viðhorf þeirra sem eru löngu, löngu frosin föst að þessu leyti.

Það er hins vegar athyglisvert að í þessu máli tala yfirleitt ekki aðrir en þeir sem eru í engum tengslum við verkalýðshreyfinguna, þekkja hana helst af afspurn, eins og hv. 3. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Reykv. Að vísu vilja þeir vera hrossabrestir í þeim fylkingum, en stóðið er löngu hætt að fælast þá bresti. Og hann talar um það, hv. 3. þm. Reykn., að fyrirtæki komist út í ólgusjó við það að gerast félagar í vinnuveitendasamtökunum. Hvernig á að túlka þetta? Á sömu vísu auðvitað og hjá hv. 7. þm. Reykv., að þetta hljóti að vera stríðandi öfl, þetta hljóti að vera öfl sem berist á banaspjótum í þjóðfélaginu. Það er ekki af því að þau eigi að vera það, heldur af því að það eru þeirra ær og kýr, ef mætti gildra svo til að þau yrðu það. Þetta er hin alranga hugmynd, alranga afstaða. Auðvitað eiga þessi samtök að leysa málin og þeim er best treystandi til þess að leysa einhverja þýðingarmestu þættina í okkar þjóðarbúskap. Og hvernig gera þau það helst og best? Með því auðvitað að þau standi saman að verkum.

Þá lét þm. þess getið í framhjáhlaupi fram hjá stól mínum, þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að ræða um spilastokka Framsfl., að hann mundi vera kunnugur í þeim stokkum frá því sem hann var hjartakóngurinn í þeim spilum. Eða var hann kannske jókerinn? En að það hafi verið hefndarráðstöfun af minni hálfu að ÍSAL sótti um inngöngu í íslensk vinnuveitendasamtök, vegna baráttu verkalýðs suður í Straumsvík með þeim hætti sem hún var, það er auðvitað reginmisskilningur. Það sem ég gerði var að nema á brott hindranir við því að fyrirtækið gæti gengið inn í íslensk vinnuveitendasamtök, ef það óskaði eftir því, sem það svo gerði. Að nefna einhverjar hefndarráðstafanir í þessu skyni er auðvitað út í hött. En á sömu sveifinni er snúið, þessari stríðssveif þar sem menn skaka skellur sínar og vilja efna til sem mests ófriðar á vinnumarkaðinum. Þetta er nákvæmlega það sem út úr öllu þessu orðaflóði verður lesið.

Ég kem mér satt að segja ekki að því, vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. er búinn að tala sig dauðan, að fara orðum um hans ummæli, enda tími minn þrotinn.