13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3684 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er skemmtilegt hlutverk, sem hæstv. iðnrh. hefur valið sér síðan hann settist í ráðherrastólinn, að vera sérstakur friðarins engill. Nú er af sem áður var þegar hann var áður hér í þingsölum. Þessi mikli friður setur greinilega líka svip sinn á viðræður ráðh. við Alusuisse. Þar hefur ríkt svo mikill friður núna í bráðum heilt ár að nákvæmlega ekkert hefur gerst síðan ráðh. fékk þessar viðræður í hendur.

En hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafa reynt að verja sig í þessu máli með því að nauðsynlegt sé að þessir samningar séu allir á inni hendi, ekki megi dreifa kröftunum. Ef þetta er stefnumótun ríkisstj. vil ég gjarnan fá svör við nokkrum spurningum. Hvers vegna eru þá ekki ríkisspítalarnir líka látnir ganga í Vinnuveitendasambandið? Og hvað um ríkisbankana? Af hverju eiga þeir að vera fyrir utan Vinnuveitendasambandið? Hæstv. landbrh. sagði að stjórn Áburðarverksmiðjunnar væri kosin á Alþingi. Það er alveg rétt. Það eru líka kosin bankaráð hér. Það er líka kosin sérstök stjórn í ríkisspítölunum og kosin er sérstök stjórn á Ríkisútvarpið. Af hverju er ekki Ríkisútvarpið sett inn í Vinnuveitendasambandið, hæstv. menntmrh.? Hefur þessi mikla nauðsyn á því að samhæfa kjarabaráttuna og styrkja Vinnuveitendasambandið kannske farið fram hjá ráðh.?

Það er fjöldinn allur af ríkisfyrirtækjum enn sem hægt er að setja inn í Vinnuveitendasambandið. Af hverju eru bara valdar þessar verksmiðjur? Er ekki rétt fyrst hæstv. iðnrh. er nú landsþekktur dugnaðarforkur eins og allir vita og lætur sig ekkert muna um að lappa upp á Framsfl. í hjáverkum, að hann beiti sér nú fyrir því að allt heilla gúmmulaðið verði sett inn í Vinnuveitendasambandið? (Iðnrh.: Þú spyrð af vanþekkingu.) Ég spyr ekki af neinni vanþekkingu. Ef einhver heil brú er í þeim rökum sem hér hafa verið flutt hljóta þau að fela það í sér að önnur ríkisfyrirtæki, bankar, fjölmiðlafyrirtæki, ríkisspítalar og fjölmargt annað, séu sett í Vinnuveitendasambandið. Fyrst ríkisstj. treystir Vinnuveitendasambandinu best til að semja um kjör þeirra starfsmanna ríkisins, sem vinna í þeim tilteknu fyrirtækjum sem hér hafa verið til umr., hlýtur ríkisstj. líka að treysta Vinnuveitendasambandinu best til að semja um kjör annarra starfsmanna sem vinna á hinum og þessum sviðum innan ríkisins. Nei, það, að ríkisstj. skuli ekki hafa hreyft neitt við þessum stóra þætti og ætlar að halda áfram að semja sjálft við starfsfólkið á ríkisspítölunum og við starfsfólk Ríkisútvarpsins og við fjölmarga aðra starfsmenn hjá ríkinu og ætlar ekki að gera þar neinar breytingar, sannar að þessi sérstaka gerð var bara útfærsla á skapbrestum hæstv. iðnrh. þegar hann var í hefndarstríði við launafólk. Það sýnir best hvernig hæstv. ráðherrar fá tækifæri til að skeyta skapi sínu í krafti valdsins.