13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Sveinn Jónsson:

Herra forseti. ég tel fulla ástæðu til að koma inn í þessa umr. þar sem þetta tiltekna mál hefur borið á góma í þeirri stjórn ríkisfyrirtækis þar sem ég á sæti, en það er hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Við höfðum til umfjöllunar í febr. s. l. bréf frá iðnrh. dags. 7. febr. þar sem tilmælum var beint til Rafmagnsveitnanna þess efnis að fyrirtækið gengi í samtök vinnuveitenda. Stjórnin óskaði þess að fá svigrúm til að kanna hvaða afleiðingar það hefði, hvað það kostaði og hver væri í rauninni tilgangur þess að stíga þetta skref og óskaði eftir því að þeim spurningum væri svarað af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins, framkvæmdastjóranna, á næsta fundi sem nú hefur verið boðað til n. k. föstudag. En í millitíðinni verður skyndileg vending af hálfu iðnrh. og Rafmagnsveitum ríkisins berst bréf á ný þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta: „Ráðuneytið leggur hér með fyrir yður að Rafmagnsveitur ríkisins gangi nú þegar frá fullri aðild að Vinnuveitendasambandi Íslands.“

Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. iðnrh. hvort leitað hafi verið álits stjórnar þessa fyrirtækis eða annarra fyrirtækja sem undir hann heyra og hvers vegna yfirleitt hafi verið gripið til þessarar skyndilegu vendingar og þessarar gerræðislegu yfirtroðslu, að því er mér finnst, sem ber vott um miðstýringu sem ég þykist vita að sjálfstæðismenn hafi sem minnst viljað láta við sig bendla.