13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og virðulegum forseta er kunnugt fór ég fram á það síðdegis í gær að mega ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvari Gíslasyni, fyrrv. menntmrh., spyrja núv. menntmrh. nokkurra spurninga. Ég afhenti hæstv. menntmrh. spurningarnar sem ég hugðist leggja fyrir hann, um kaffileytið í gær, þótt ekki verði sagt að það sé venja þegar utandagskrárumræður eiga í hlut.

Ég get ekki rakið þessar fsp. efnislega að sinni, en þær varða skipun í æðstu stöður í menntmrn. í samræmi við auglýsingu í Lögbirtingablaði. Svo vill til að margir álíta að þarna sé um lögbrot að ræða og benda þar að auki á að ekki sé nein heimild í fjárlögum til að ráða megi í þessar stöður. Vitað er að ríkisstj. hefur ekki samþykkt málið. Einnig er vitað að fjmrn. hefur ekki samþykkt greiðslur í þessu skyni. Samt á að veita þessar stöður eftir fáa daga. Umsóknarfrestur er skammur og rennur út á morgun.

Ég leit svo á að nokkur hætta væri á því að þetta væri frágengið mál þegar Sþ. kæmi næst saman eftir þennan fund í dag og því væri óhjákvæmilegt að fá að ræða málið utan dagskrár á Alþingi áður en til þess kæmi að Alþingi stæði frammi fyrir gerðum hlut. Hæstv. forseti hefur nú tilkynnt mér að hæstv. menntmrh. sjái ekki ástæðu til að svara þessum spurningum í dag og þar með geti hann ekki leyft mér að bera upp spurningarnar. Ráðh. vilji ekki svara þessum spurningum í dag þótt hann hafi haft einn sólarhring til að athuga efni þeirra og þær séu tiltölulega einfaldar í eðli sínu.

Ég hygg að hér sé um nokkuð einstæðan atburð að ræða á Alþingi. Ég minnist þess satt að segja ekki að ráðh. hafi vikið sér með þessum hætti undan því að svara fsp. utan dagskrár á Alþingi, þegar slíkur frestur hefur verið gefinn, nema um hafi verið að ræða einhver sérstök forföll, en ég hef ekki fengið þá skýringu. Þar sem umsóknarfrestur rennur út á morgun og hér kann því að vera um frágengið mál að ræða á fimmtudag, þegar Sþ. er næst haldið, en mjög margir í Stjórnarráði Íslands álíta að hér sé um lögbrot að ræða og benda á að Alþingi hafi ekki veitt neinar heimildir í þessu skyni og ríkisstj. ekki einu sinni samþykkt að þessar stöður verði veittar, þá tel ég að ekki verði undan því komist að vekja a. m. k. athygli alþm. á málinu. Því hef ég beðið um orðið hér um fundarsköp, að ég vildi eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sæi til þess að unnt yrði að taka þetta mál hér til umr. utan dagskrár sem allra fyrst og ég geti borið mínar spurningar upp, því að ég tel að þótt þetta sé kannske ekki stærsta mál þjóðarinnar í dag, þá sé hér um stórmál að ræða, prinsippmál sem ekki þolir neina bið að ræða, því að hér er hæstv. ráðh. bersýnilega að taka sér vald sem hann hefur ekki.