13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég ekki á nokkurn hátt að ásaka hæstv. forseta fyrir það að hann treysti sér ekki til að leyfa mér að bera upp fsp. þegar svo stendur á að ráðh. er ekki reiðubúinn að svara. Ég bað hann hins vegar um að beita áhrifum sínum til þess að ráðh. svaraði þessum spurningum sem fyrst og það áður en ákvarðanir verða af hans hálfu teknar um þessar stöðuveitingar. Ég var að nota rétt minn sem alþm. til að vekja athygli Alþingis á máli sem kann að hafa fengið afgreiðslu þegar Sþ. kemur næst saman.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um athugasemd hv. þm. Péturs Sigurðssonar áðan. Hún kom svo eins og skrattinn úr sauðarleggnum að eiginlega er ekki eyðandi orðum að því. Það er eins og hann sé hér alger nýgræðingur og veit ég þó ekki betur en við höfum setið saman á þingi í býsna mörg ár, líklega ein 15–16 ár. Það er eins og honum komi á óvart að alþm. hafi rétt til að vekja athygli Alþingis á málum og láta það ganga fram fyrir skráða dagskrá hverju sinni eftir því sem þurfa þykir. Það er eins og hann komi af fjöllum þegar hér er óskað eftir svörum við fsp. jafnvel áður en einhverjum öðrum skrifuðum fsp. er svarað. Ég býst við að hv. þm. Pétur Sigurðsson hafi æðioft notað sér þennan rétt í gegnum árin og hann ætti því ekki að hrökkva svo í kútinn þó að núverandi stjórnarandstaða noti sér þann rétt. Að öðru leyti er ekki hægt að fjölyrða frekar um þetta mál, en þó verður að bæta því við að þögn hæstv. menntmrh. er mjög sérkennileg, að ekki sé meira sagt.