13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér var haldin áðan allsérkennileg ræða af hæstv. menntmrh., sem tók okkur þm. í kennslustund til að upplýsa okkur um hver væru hans viðhorf, ráðh., í sambandi við rétt stjórnarandstöðu og þm. almennt til að bera upp mál utan dagskrár hér á hv. Alþingi. Það mátti skilja af orðum hæstv. ráðh. að sem allra minnst skyldi gert að því að óska eftir slíku. Var greinilegt að ráðh. var að reyna að koma því til skila með máli sínu að efnið sem er tilefni þessarar umr. hér um þingsköp, sé þess eðlis að ekki sé ástæða til að óska eftir slíkri umr. Hv. þm. Pétur Sigurðsson kvaddi sér einnig hljóðs til að reyna að bera blak af ráðh. í þessu samhengi. Ég verð að segja það, að viðbrögð þessara hv. þm. Sjálfstfl. og hæstv. ráðh. eru furðuleg, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni.

Mér finnst það sem fram kom í máli hæstv. ráðh. bera vott um mikið dómgreindarleysi, að gera ráð fyrir því að ráðh. geti í raun skotið sér undan því að ræða hér við hv. Alþingi efni, sem fram eru borin með sólarhrings fyrirvara við hæstv. ráðh., spurningar sem fram eru bornar af tveimur fyrrv. menntmrh., sem gegnt hafa embætti á undan þessum hæstv. ráðh., sem lætur ekki svo lítið að opna fyrir efnislega umr. um þetta mál. Eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gat um í upphafi síns máls, þá er það auk hans hv. þm. Ingvar Gíslason, fyrrv. menntmrh., sem óskaði eftir umr. hér utan dagskrár og eftir svörum um tiltekið efni.

Það er ekki lítið sem hæstv. núv. menntmrh. ætlar sér í þessu efni, þegar fram hefur komið að ástæðan fyrir því að óskað er þessarar umr. utan dagskrár er embættisfærsla hans og fyrirætlanir í sambandi við embættisfærslu, sem hæstv. ráðh. reyndi hér í umr. að víkja að, þó undir rós væri, með því að stimpla þá sem óskuðu hér eftir svörum af hans hálfu sem kerfiskarla og andstæðinga hagræðingar í ríkiskerfinu. Það er orðið alveg sérstakt að hæstv. ráðh., sem telur sig standa traustum fótum í þessu máli, fari að senda glósur til þeirra aðila sem hafa óskað eftir svörum af hans hálfu og senda þeim skeyti til baka í umr. um þingsköp. Ég vek alveg sérstaka athygli á því, að það var ekki neitt í máli hæstv. ráðh. sem bar vott um það, að hann ætlaði sér að standa Alþingi reikningsskil gerða sinna áður en hann tæki sínar ákvarðanir um þau efni sem eru bakgrunnur þessarar umr. um þingsköp. Það hefur komið fram hér í umr. hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að fyrirætlanir ráðh. væru af ýmsum taldar varða við lög. Það hefur jafnframt komið fram að ekki muni liggja fyrir samþykkt ríkisstj. við fyrirhuguðum gerðum hæstv. ráðh. og efamál væri að hæstv. fjmrh., sem mun hafa þar nokkru hlutverki að gegna, muni vera samþykkur fyrirætlunum ráðh. í sambandi við embættisfærslu og stöðuveitingar.

Herra forseti. Ég skil vel óskir hæstv. forseta í sambandi við þessa umr. Ég þekki hæstv. forseta að því að hann vill greiða fyrir málum. Ég hef reynt það í þau skipti sem ég hef óskað eftir að taka upp mál hér utan dagskrár að þá hefur það verið auðsótt af hálfu hæstv. forseta að liðka til um slíka umr. Auðvitað leita menn eðlilegs samkomulags um þau efni, ef um fsp. er að ræða, og að allri venju er við því orðið af hæstv. ráðh. og við þm. reynum að sjálfsögðu einnig að taka tillit til þeirra aðstæðna. En hér er gengið fram með slíkum þvergirðingi af hæstv. menntmrh. að sögulegt verður að teljast. Og það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti hæstv. ráðh. ætlar að koma í veg fyrir umr. um þessi mál, sem varða hans embættisfærslu, og hvort hann reiknar með því að hann njóti þar óskoraðs bakstuðnings ríkisstj.