13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er ekki fallegt að vera að gera athugasemd við þessa skringilegu ræðu sem hér var flutt, en ég vil nú bera af mér sakir. Hv. þm. kveður mig bera ábyrgð á því hve menn séu hér langorðir. Ég vil biðjast undan allri ábyrgð á þeim langlokum sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flytur í þessu sambandi sem og öðru. Mér finnst afar einkennilegt í sambandi við hinn meinta aðstandanda fsp., sem nú er fjarstaddur, að ég hef ekki orð neins nema hv. þm. Ragnars Arnalds og Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir að hinn fjarstaddi standi líka að fsp. Í fyrsta lagi standa fjarstaddir þm. aldrei að fsp. utan dagskrár. Auk þess þykir mér það ákaflega ótrúlegt að hv. þm. Ingvar Gíslason, sem er fullfær um að tala fyrir sig sjálfur, sendi hv. þm. Ragnar Arnalds með skilaboð frá sér í þingsali. Þá þess heldur að hv. þm. Ingvar Gíslason er forseti Nd. og er í daglegu og mjög góðu sambandi við þingheim. Allt er þetta næsta sérkennilegt.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mælir hér einnig fyrir munn færustu lögfræðinga að hann segir. Það má þá líka vera sérkennilegt ef færustu lögfræðingar landsins hafa allt í einu fundið sér sem talsmann Ólaf Ragnar Grímsson hv. þm. Allt það sem hann sagði hér um þetta mál (ÓRG: Má ég spyrja hæstv. ráðh. um lagastoð?) Herra forseti. Þessar fáu mínútur ætla ég að fá að tala ótrufluð. (Gripið fram i.) Herra forseti. Það hefur verið úrskurðað að það liggi ekki fyrir fsp. til umr. hér. (Gripið fram í.) Hér eru þingsköp til umr. og við það höldum við okkur. Hv. þm. Alþb. þeim hættir til að láta hleypa sér upp. Þeim hættir til að láta hæstv. fjmrh., sem er húmoristi góður, stríða sér dálítið á þann veg að þeir hlaupa í ræðustól og tala af sér stundarfjórðungum saman og hafa í frammi alls kyns yfirlýsingar, sem ýmist eru rangar eða óviðeigandi; svo ekki sé meira sagt.

Herra forseti. Ég vildi aðeins bera blak af forvera mínum, hæstv. forseta Nd. því mér þykir það hljóti að vera óviðfelldið fyrir hann að hv. þm. Alþb. mæli hér fyrir munn hans á Alþingi. Ég veit að hann er einfær um það þegar hann kemur aftur á þingið eftir forföll sín.