13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun og Alþb. að hverri stund er vel varið hér á hv. Alþingi til að ræða um öryggismál sjómanna. Þau tíðindi, sem eru tilefni þessarar umr. hér í dag, eiga fyrst og fremst að vekja okkur til umhugsunar um málin og ákvörðunar um að standa saman um úrbætur. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að upphefja deilur á þessari stundu, en mér þykir augljóst mál að frammi fyrir slíkum tíðindum getur enginn maður barið sér á brjóst. Hitt má vera okkur öllum umhugsunarefni hvort að af þessu tilefni getur ekki verið rétt og skynsamlegt — og ég vil beina því til hæstv. ríkisstj. — að það verði til nefnd alþm. sem fjalli sérstaklega um öryggismál sjómanna, fari vandlega yfir ábendingar liðinna ára, t. d. frá sjómannasambandsþingum, Farmanna- og fiskimannasambandsþingum, og menn reyni að glöggva sig á því hvernig unnt er með skipulegum hætti að hrinda þeim tillögum til úrbóta í framkvæmd sem þar eru gerðar. Ég tel að ef þannig væri á málum tekið væri vel af stað farið af hálfu Alþingis og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég þekki hv. alþm. flesta það vel að ég er sannfærður um að allir vilja leggja nokkuð af mörkum í þessu efni.