13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Um leið og ég vil við þetta tækifæri votta aðstandendum þessara sjómanna í Vestmannaeyjum innilega samúð vegna fráfalls þeirra í þessu hörmulega slysi, þá þykir mér ástæða til að kveða fastar að orði í þeim umr. sem hér hafa farið fram í sambandi við öryggismál sjómanna.

Ég hef kynnst því á undanförnum árum hér á hv. Alþingi að þegar komið hefur að því að veita fjármagn til öryggismála hafa dyrnar lokast, því miður. Ég held að við hv. alþm. gerum okkur ekki almennilega grein fyrir því hversu hér er um þýðingarmikil mál að ræða, öryggismál sjómannastéttarinnar. Við erum öll sammála um í orði að það starf sem þessir menn leggja af mörkum sé þýðingarmest fyrir framtíð þessarar þjóðar, fyrir tilveru þessarar þjóðar, en þegar kemur að því að veita fjármagn til þess að hægt sé að gera nauðsynlegar og sjálfsagðar aðgerðir á sviði öryggismála lokum við því miður eyrunum og augunum á því augnabliki þegar við þurfum að taka slíkar ákvarðanir. Ég er ekki að ásaka neina sérstaka, við erum öll jafnsek í þessu máli. Ég held að umr. eins og hér hefur verið vakin upp í dag eigi þá að verða til þess að við sameinumst um að gera það sem í okkar valdi stendur til að hreyfa við þessum málum á réttan hátt, þ. e. að gera ráðstafanir sem að gagni koma.

Ég vil enda orð mín á því að ég mun beita mér fyrir því með hæstv. samgrh.ríkisstj. geri það sem í hennar valdi stendur á þessu augnabliki til að reyna að þoka þessum málum í rétta átt og að við hljótum að sameinast um stefnu að því markmiði. Það má ekki lengur dragast að framkvæmdir komi í stað orða.

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson): Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs. — Í þessum umr. hefur komið við sögu slysið sem varð við Vestmannaeyjar í fyrrinótt. Fyrir hönd Alþingis vil ég votta öllum sem um sárt eiga að binda vegna þessara slysfara dýpstu samúð alþm. allra.