13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3712 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þeirri umr. sem hefur orðið um þessa þáltill. Umr. skýrir það vel að full þörf var á að koma með þetta mál inn á Alþingi Íslendinga. Það er því miður þannig, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Þórarins Sigurjónssonar, að þetta kerfi, sem umr. snýst um, er mjög þungt í vöfum og voru það vissulega orð að sönnu. Það er hins vegar misskilningur hjá þessum hv. og mjög prúða þm. Þórarni Sigurjónssyni að halda því fram að sú umr. sem fór fram hér fyrr hafi eingöngu snúist um bændur og samvinnuhreyfinguna. Ef ég man rétt kom það fram í mínu máli og fleiri þm. að við töldum að þetta sneri ekki síður að neytendum og þjóðinni í heild.

Ég fagna sérstaklega ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hún skýrði mjög vel raunverulegan kjarna málsins sem er sá að afurðalánakerfi, hvort sem er í landbúnaði, sjávarútvegi eða iðnaði, á ekki að vera eitthvert sjálfvirkt kerfi sem endurnýjar sig ár eftir ár og áratug eftir áratug án þess að hv. Alþingi fái tækifæri til að skoða það og fylgjast með því. Því við skulum ekki gleyma því að öll þessi afurðalánakerfi byggjast á lögum frá Alþingi og reglugerðum sem hafa síðan verið ákveðnar í samræmi við þessi lög. Það er þess vegna mjög brýnt að hv. alþm. hafi það jafnan ríkt í huga að þessi miklu kerfi, peningakerfi, eru byggð upp á ábyrgð hv. alþm. og það er skylda þeirra að skoða þessi kerfi oftar en gert hefur verið. Að vísu gerist það einstaka sinnum þegar verið er að endurskoða lög eða ákveða ráðstafanir fyrir einstakar atvinnu reinar að því fer víðs fjarri að það sé gert nægilega vel. Ég er sannfærður um að mjög margir hv. þm. hafa ekki hugmynd um hvernig afurðalánakerfi atvinnuveganna eru byggð upp og enn síður hvernig þau eru í framkvæmd.

Hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson sagði að sú skýrsla, sem er fskj. með þessari þáltill. og tekin er saman af Þorvaldi Búasyni eðlisfræðingi, sé ekki öruggari en skýrslur bankanna. Ég vil leyfa mér að segja það, hafandi verið hér meira og minna viðloðandi við hv. Alþingi síðan 1974, að ég hef aldrei séð eina einustu skýrslu á hv. þingi um afurðalánakerfi atvinnuveganna. Ef einhver hv. alþm. sem hér er viðstaddur veit betur og getur vísað til slíkra skýrslna í fskj. Alþingis mundi hann þá góðfúslega gera það þannig að við gætum þá kynnt okkur það plagg. Það er auðvitað ekkert svar að segja að skýrsla eins ákveðins einstaklings sé ekki betri en skýrslur annarra sem menn hafa alls ekki fyrir framan sig, nema síður sé. Ég tel það mjög virðingarverða viðleitni af Þorvaldi Búasyni og þeim sem unnu með honum að þessari athugun að hafa útbúið þessa skýrslu, en í henni er komið mjög sterklega inn á afurðalánakerfi landbúnaðarins. Þar af leiðir, þar sem við höfum ekki önnur plögg í höndunum, að umr. hlýtur að snúast mjög mikið um afurðakerfi landbúnaðarins auk annarra ástæðna sem ég mun tilgreina hér á eftir.

Varðandi það hvort við, flm. þessarar þáltill., séum að vantreysta hæstv. viðskrh., sem hefur falið Seðlabanka Íslands að athuga ákveðna hlið þessara mála, er það auðvitað gersamlega út í hött að halda slíku fram af hálfu hv. þm. Þórarins Sigurjónssonar. Þetta er viðbótarathugun sem á að gera sérstaklega fyrir hv. alþm. og þjóðina. Mér er ekki kunnugt um að athuganir, sem Seðlabanki Íslands gerir í einstaka málum, séu opinber plögg sem almenningur eða hv. þm. hafi yfirleitt aðgang að nema skv. sérstakri ósk þm. Þannig að þetta er ekki alveg sama eðlis og vildi ég þess vegna undirstrika það.

En síðan segir hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson, 2. þm. Suðurl.: Hvernig stendur á því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson — og þá auðvitað meðflm. mínir, hlýtur að vera — skuli hafa svona mikinn áhuga fyrir bændum? - Hvers vegna skyldi það nú vera að ég skyldi hafa áhuga fyrir bændum? Ég segi það ekki endilega sem þm. á þessu augnabliki heldur sem Íslendingur að ég hef mikinn áhuga fyrir bændum, bæði fyrir þeirra velferð og einnig hef ég áhuga fyrir því hver þeirra staða er í íslensku þjóðfélagi. Mér er svo sannarlega umhugað um að kjör og aðstaða þessara fáu þúsunda, sem enn þá eru í íslenskri bændastétt, séu sem best.

Ísland er sem betur fer það lítið samfélag að við stéttgreinumst ekki þannig að þar sem ég er ekki bóndi, heldur malarbarn, ef ég mætti orða það þannig (JBH: Grimsby-lýður hét það.) Já, það er kannske við hæfi að fisksalar séu tengdir við Grimsby. En sem betur fer eru tengslin það náin á milli okkar allra hér á Íslandi að við vitum svona nokkuð um hagi hvers annars. Því miður er það skoðun okkar allmargra hér í þéttbýlinu að staða bænda sem einstaklinga og sem rekstraraðila býla á Ístandi sé ekki sem skyldi. Við eigum bæði vini og kunningja í bændastétt. Þar af leiðir að við heimsækjum þessa vini okkar og ræðum við þá eins og þeir við okkur um þeirra vandamál og áhugamál. Því miður verð ég að segja að það er hörmulegt að upplifa það á því herrans ári 1984 að ýmsir bændur á Íslandi líta þannig á að þeir séu í hálfgerðum eða algerum átthagafjötrum, ekki átthagafjötrum endilega vegna þess að þeir séu tengdir þeirri jörð sem þeir yrkja, heldur í átthagafjötrum vegna þess kerfis sem hefur verið byggt upp í kringum íslenska bændastétt. Það er vissulega hörmulegt.

Þeir „fjötrar“ eru að sjálfsögðu í gæsalöppum því við Íslendingar lítum þannig á enn þá að við séum allir frjálsir, en samt misjafnlega frjálsir, það er misjafnlega mikið frelsi sem við höfum. En staða bænda er því miður orðin með þeim hætti, eins og fram kemur í skýrslu þeirri sem fylgir umræddri þáltill., að þegar þeir skila sínum afurðum til sláturhúsa, sem er í þessu tilfelli sauðfé, eru þær lagðar inn á reikning bænda í flestum tilvikum. Það tíðkast enn þá, sem við þekktum hér fyrir hálfri öld á mölinni, að stundum er látið nægja að bændurnir taki síðan bara út úr sínum reikningi en taki ekki við fjármunum um leið og afurðin er afhent sláturaðila.

Ég verð að segja frá mínum sjónarhóli séð að þetta er furðuleg framkvæmd og ég er sammála þeim sjónarmiðum, sem hafa komið fram frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að auðvitað ber að breyta þessu kerfi. Við krefjumst þess að fá okkar vinnu greidda í launum mánaðarlega. Ég tel að það sé ekkert það kerfi sem réttlæti þetta fyrirkomulag sem er hjá bændum, að til greina komi að afhenda þeim einhverja seðla eða úttektarnótu á mögulega úttekt í einhverju ákveðnu verslunarfélagi. Þetta eru úreltir viðskiptahættir sem ættu ekki að þekkjast á því herrans ári 1984 á Íslandi. Þetta kalla ég ákveðna tegund átthagafjötra.

En að hér sé um enn eina árásina á bændur að ræða er fráleitt. Ég vil endurtaka að fáa menn á hv. Alþingi Íslendinga þekki ég jafnprúða og ágæta og hv. 2. þm. Suðurl., Þórarin Sigurjónsson. Að heyra þetta af hans vörum kom mér sannarlega á óvart. Ég held að ekki sé hægt að leggja mál þannig upp að þó að þm. ræði mál eins og þetta og það snerti óhjákvæmilega þá aðila, sem fjalla um þessi mál, eins og fram kom í ræðum okkar sumra þm. hér í fyrri umr., þ. e. íslensku samvinnuhreyfinguna þá sé um árásir að ræða. Sá aðili, sem hefur tekið sér það vald eða réttara sagt þróað upp það kerfi með ákveðnum hætti í ákveðnu félagsformi og er orðinn þeirrar stærðar sem samvinnuhreyfingin er á Íslandi, verður að þola það að við hin, sem ekki erum aðilar að kerfinu en erum þó þegnar í þessu landi, fáum að ræða þessi mál án þess að sagt sé að við séum að ráðast á einn eða neinn.

Ég nefndi aldrei Sambandið á nafn nema í lok minnar ræðu þegar ég bað einn hv. þm. annan um að við skyldum ekki fá Sambandið eða Framsókn á heilann. Það held ég að hafi verið eina skiptið sem ég nefndi Sambandið í minni ræðu. Ég held að þeir menn sem hafa treyst svo alfarið — (GS: Það er bannað.) Er það bannað? Ég læt ekki banna mér eitt eða neitt, hv. þm. Garðar Sigurðsson. Það þekkir hv. þm. vel. Við látum ekki banna okkur neitt hér eða annars staðar. En þegar menn hafa tekið þátt í að byggja upp voldugt, öflugt fyrirtæki — við skulum gefa okkur það — með frjálsum, ákveðnum formlegum hætti, sögulegum hætti — þetta hefst í upphafi þessarar aldar með hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar sem ég út af fyrir sig set ekki út á — þegar þetta er orðið þeirrar stærðar að hvar sem við hinir þegnar þjóðfélagsins komum að málum, sérstaklega í sambandi við landbúnaðinn, er þessi samsteypa til staðar, þá verða þeir að þola það, sem ráða yfir þessu kerfi eða þessu fyrirtæki eða hreyfingum, að við séum gagnrýnir á ýmislegt sem við höfum okkar efasemdir um. Þannig að það er út í hött og ég frábið mér því að ég og við, sem vorum að ræða þessi mál hér fyrr, höfum verið að gera einhverjar sérstakar árásir á bændur þótt minnst hafi verið á SÍS. Það er alrangt að við höfum verið að ráðast á bændur og kemur hvergi fram í okkar ræðum nema síður sé. Það var margtekið fram í ræðum okkar að við værum m. a. að gera þetta vegna þess að við vildum fá það sannanlega staðfest hver væri staða bóndans í þessu kerfi núna árið 1984.

En þetta er kerfi, sem byrjað er að byggja upp um og eftir 1920, ef ég man rétt, er orðið meira en hálfrar aldar gamalt og hefur ekkert breyst og því miður þróast með neikvæðum hætti að okkar mati — þá er eins gott að það sannist í þessari úttekt að það sé rangt mat - en okkar mat er að það hafi þróast til hins verra fyrir alla aðila nema hugsanlega milliliðina. Og ég segi meira en hugsanlega fyrir milliliðina. Það er hægt að benda á ýmis dæmi um það hvernig milliliðirnir hafa þanist út.

Staða þeirra ku vera mjög góð eins og kom fram í ræðu hv. 8. landsk. þm., Kolbrúnar Jónsdóttur, sem mun sjálf hafa reynt það hvernig þessi kerfi eru. Þannig að hér er ekki um árásir að ræða. Hér koma jafnvel aðilar, sem hafa verið þolendur í þessu kerfi, fyrir utan okkur neytendur sem viljum gjarnan fá skýringar á því hvernig það er og hvernig það er framkvæmt, þannig að ég mótmæli því að hér sé um árás á bændur að ræða nema síður sé.

Ég ætla ekki að ræða um Samband ísl. samvinnufélaga af þessu tilefni. Það er einmitt gott að það skuli koma fram hér á hv. Alþingi, það sem kom fram hjá hv. þm. Þórarni Sigurjónssyni, að verið er að blanda saman Sambandinu annars vegar og bændum hins vegar og reyna að halda því fram að ef menn eru gagnrýnir á samvinnuhreyfinguna, sem er einn aðalaðili þessa máls, séu þeir að ráðast á bændur. Það er athyglisvert að það skuli koma fyrst upp í huga þeirra sem vilja verja þetta kerfi. Það ber vott um að jafnvel þeir sjálfir hafi sínar efasemdir um það hver eigi að vera staða Sambandsins í þessu máli eða þeirra félaga eða fyrirtækja sem samvinnuhreyfingin tengist mjög sterklega í sambandi við þessi mál.

Það er svo aftur annað mál, sem ég held að hv. þm. ættu að huga að og ég mun kannske gera sjálfur, hvort ekki væri rétt að leggja fram till. um, að endurskoða lög og reglur varðandi íslensku samvinnuhreyfinguna, þ. e. hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða stöðu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. Ég er ekki þar með að segja að það þurfi að vera af hinu neikvæða sem slíkt er gert heldur mundi ég frekar álykta að það gæti verið af hinu góða, einnig fyrir þá stofna sem mynda samvinnuhreyfinguna á Íslandi.

Það er engum hollt, hvorki fyrirtæki, flokkum, félögum né einstaklingum að vera þeirrar stærðar í litlu þjóðfélagi að aðrir geti ekki unað því. Því miður hefur samvinnuhreyfingin þróast með þeim hætti að umsvif og möguleikar einstaklinga á ákveðnum sviðum hafa þrengst með óeðlilegum hætti og ekki hefur verið hægt að breyta þeirri staðreynd. Ég er sannfærður um að ýmsir hv. þm. eru mér ekki sammála í þessum efnum. En því miður er hægt að segja mjög tragískar sögur um þróun þessara mála í einstökum byggðarlögum — (StG: Um Sölusambandið?) — bæði fyrir einstaklinga, byggðarlögin og jafnvel fyrirtækin í byggðarlögunum. — Sölusamtök? Betur væri að samvinnuhreyfingin eða SÍS væri aðeins sölusamtök. Sambandið er nefnilega komið langt út fyrir sinn ramma fyrst hv. þm. kom með þetta inngrip, hv. 5. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson.

Það er e. t. v. kominn tími til þess einnig — það er annað atriði sem Alþingi ætti að athuga — að skoða hvernig félagsform eru í íslenskum atvinnurekstri. Samvinnuhreyfingin (Gripið fram í.) Það mun nú ekki vera venjan að menn ræði saman, en ég vildi gjarnan heyra athugasemd hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Var hann með athugasemd? (Gripið fram í.) Já, ég hef mikinn áhuga fyrir því, það var einmitt það sem ég ætlaði að koma að. Ég held að það væri afskaplega fróðlegt og merkilegt fyrir hv. þm. að Alþingi léti gera úttekt á því hvað eru sölusamtök og hvað er hringur. Á því er grundvallarmunur. Ég mundi fagna því ef hv. Alþingi léti gera úttekt á því og skilgreina nánar og skoða eigna- og hagsmunatengsl annars vegar í skjóli hrings eða hringa og hins vegar svonefndra sölusamtaka. Hringar fyrirfinnast yfirleitt ekki í skjóli sölusamtaka eða sölufélaga sem sérhæfa sig á því sviði sem þau eru stofnuð til. Á þessu er grundvallarmunur og um það get ég flutt langt mái. Ég fagna því að hv. þm. Stefán Guðmundsson skuli hafa minnt mig á þetta atriði.

Ég skal nú stytta mál mitt. Ég vil í fyrsta lagi mótmæla því eindregið að þessi þáltill. sé árás á bændur. Ég mótmæli því einnig að hér sé um að ræða að við séum að ráðast á félagasamtök fólksins. Annars vildi ég gjarnan fá skilgreiningu á því hvað hér er átt við með félagasamtökum fólksins. Ég held að þar sem hinn einstaki félagi getur eiginlega ekki haft nein áhrif eða a. m. k. mjög lítil sé ekki lengur hægt að tala um félagasamtök fólksins. Það getur verið að forminu til og skv. bókstafnum, en þegar það reynist ekki vera þannig í reynd ár eftir ár og áratug eftir áratug hættir það að vera félagasamtök fólksins. Það breytir eðli sínu án þess að fólkið geti ráðið því eða ráðið við það. Það þarf einnig að skoða.

Þá er það annað atriði sem ætti að skoða í sambandi við lög um íslensku samvinnuhreyfinguna núna á því herrans ári 1984. Það er að samtökin sjálf hafa breytt um eðli. Vegna þess að þau hafa breytt um eðli eru skyldur breyttar, ábyrgð önnur og það ber að taka á slíkum fyrirtækjum með þeim hætti sem þau hafa þróað sig upp í. Þess vegna er ekki hægt að segja að hér sé verið að ráðast á félagasamtök fólksins. Ég vil þá fá að vita nánar um hvaða félagasamtök hér er verið að ræða og þá í samræmi við þá skilgreiningu sem ég hafði hér um hvað ég teldi að væru félagasamtök fólksins.

En hvers vegna er landbúnaður tekinn sérstaklega? Það er m. a. vegna þess að það er skoðun okkar flm. að þetta kerfi, afurðalánakerfið sem landbúnaðurinn býr við, sé orðið fjarlægt, óþekkt stærð, sem við viljum vita nánar um. Einnig hvernig þessi kerfi eru framkvæmd. Við viljum vita betur um milliliði þessa kerfis. Við viljum vita betur hvernig tengslin eru á milli fyrirtækja í þessu kerfi. Við viljum vita nákvæmlega hvernig ferill fjármagnsins er í gegnum þetta kerfi frá því að peningarnir eru lánaðir í bönkum þar til lánið er endurgreitt. Þetta liggur alls ekki ljóst fyrir. Þetta er tiltölulega augljóst í sjávarútvegi. Ég hugsa að þetta sé aftur á móti flóknara í sambandi við iðnaðinn. Og þó er þess að gæta, ef við lítum á iðnaðinn, að þar er um tiltölulega nýtt kerfi að ræða og það væri mjög fróðlegt að vita hvernig það kerfi hefur reynst. Það liggur heldur ekki fyrir.

Nei, ástæðan fyrir því að við ræðum hér sérstaklega um landbúnaðinn er einmitt sú að það kerfi er mun flóknara, fjarlægara. Það er eldra og örugglega orðið miklu úreltara en þau afurðalánakerfi sem tíðkast í sjávarútvegi og iðnaði. Svo er einnig þess að gæta að í sambandi við sjávarútveginn á sér stað miklu nákvæmari athugun á öllu sem þar gerist. Það mun líklegast engin atvinnugrein á Íslandi vera undir jafnmiklu eftirliti og sjávarútvegur og fiskiðnaður á Ístandi. Sú athugun og úttekt gerist bæði í ríkisbönkunum og svo einnig í sambandi við fiskverðsákvörðun þrisvar á ári. Það gerist ekki í sambandi við landbúnaðinn. En segja má að afurðalánakerfi sjávarútvegsins sé í stöðugri endurskoðun. En það breytir ekki því að það er æskilegt og nauðsynlegt að hv. Alþingi viti nákvæmlega hvernig það kerfi er uppbyggt og framkvæmt og hvaða breytingum það hefur tekið á síðustu árum. Það getur verið að það þurfi einnig að breyta einhverju frá því sem nú er.

Herra forseti. Þessi þáltill. var borin fram með það í huga að styrkja stöðu bænda, styrkja stöðu neytenda og við viljum einnig vita hver er núverandi hlutdeild milliliða í afurðalánakerfi landbúnaðarins, sjávarútvegsins og iðnaðarins. Við viljum vita nánar hvernig þetta er í framkvæmd. Við viljum að við breyttar aðstæður séu þessi afurðalánakerfi tekin til endurskoðunar og teljum þörf á því nú. Síðast en ekki síst hlýtur það að vera keppikefli allra hv. alþm. að eyða þeirri miklu tortryggni sem er í kringum þessi afurðalánakerfi hjá því fólki sem þekkir ekki til þeirra.

Ég geri mér ljóst og er stuðningsmaður þess að afurðalánakerfið sé til vegna umræddra atvinnugreina, hvort sem það er landbúnaður, sjávarútvegur eða fiskiðnaður. Okkar peningakerfi er þannig uppbyggt ennþá að án afurðalánakerfa getum við ekki verið. En ég er sannfærður um að það má breyta miklu í sambandi við framkvæmd afurðalánakerfanna, alveg sérstaklega í sambandi við landbúnaðinn. Ég er sannfærður um það einnig og við hv. flm. að með ákveðnum breytingum í framkvæmd þessara mála mundi staða bóndans styrkjast mjög og umdeild staða milliliðanna taka nauðsynlegum breytingum þannig að þeirri kröfu sé fullnægt að milliliðakostnaði sé haldið niðri, ekki hvað síst í sambandi við afurðalánakerfi landbúnaðarins.