13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að ég styð þessa þáltill.umr. sem hér hefur átt sér stað er til margra hluta upplýsandi þó að hún sé kannske ekki ýkja upplýsandi um efnisatriði þess máls sem hér um ræðir, enda till. flutt í þeim tilgangi að fá upplýsinguna fram.

Ég held að ég verði að segja það að ég lít ekki svo á að þessi till. sé árás á bændastéttina í þessu þjóðfélagi og get ekki með nokkru móti fengið þá hluti til að ríma að hægt sé einu sinni að spyrja þeirrar fáránlegu spurningar. En þær athugasemdir sem hv. 2. þm. Suðurl. Þórarinn Sigurjónsson og Stefán Valgeirsson, 3. þm. Norðurl. e., hafa gert við málflutning hér vekja óneitanlega nokkrar grunsemdir um að verið sé að hreyfa máli sem mönnum er að einhverju leyti óþægilegt að hreyft sé. Ég viðurkenni það að ég geri mér ekki alveg grein fyrir af hverju, en vona að að þessari tillögu samþykktri og þeirri úrvinnslu fram kominni sem hún fer fram á þá hugsanlega átti menn sig eitthvað á því.

Eitt af því sem þessir hv. þm. báðir eru að gagnrýna í málflutningi framsögumanna er það að þeir tali af vanþekkingu. Þó hafa þeir það svart á hvítu fyrir augunum að till. er að biðja um upplýsingar, þannig að flm. viðurkenna það í raun með tillöguflutningnum að ákveðin vanþekking er á ferðinni. En málflutningur hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og Þórarins Sigurjónssonar gengur út á það í aðra röndina að það sé í raun og veru eins konar — ja siðleysi að tala um þessa hluti án þess að hafa til þess einhvers konar umboð, svona með sama hætti eins og að ég mætti ekki tala hér trúmál án þess að kunna Gamla testamentið utan að.

Annað er það sem þeir halda fram, að þetta sé ekki samkvæmt kröfum bændastéttarinnar og þar af leiðandi sé í raun og veru ekki grundvöllur fyrir tillöguflutningi sem þessum, þar sem bændur hafi ekki farið fram á það. Nú eru bændur, eins og báðir hv. þm. vita, mikill minni hluti þessarar þjóðar. Og verðlagningarmál landbúnaðarafurða hafa náttúrlega tvo enda. Annar þeirra, þ. e. sérstaklega sá útgjaldasami, hann lýtur eða snýr að neytendum. Og það er ekkert skrýtið þó að menn standi upp og biðji um skýringar á því að aðeins ein króna af þeim fjórum sem menn greiða í heildsöluverð landbúnaðarafurða fari til bænda, hvert hinar þrjár fari í raun og veru og með hvaða hætti.

Og þegar gerð er athugasemd við það að menn standi upp og telji sig vera að tala fyrir hagsmunum neytenda eða þjóðarinnar sjálfrar og tala um það í raun og veru hér úr þessum stól að þjóðin geti sjálfri sér um kennt, hún hafi ekki haft uppburði í sér til þess að gera athugasemdir við þetta, þá eru menn náttúrlega að horfa fram hjá staðreyndum máls sem voru reyndar hér til umr. í Nd. í gær og hv. þm. Stefán Valgeirsson lagði þar reyndar nokkur orð í belg sem sé kosningalagafrv. fræga. Þjóðin hefur misjafna aðstöðu til að segja álit á þessum mátum hér á hv. Alþingi. Það vita þessir menn mætavel. Og það er kannske engin furða að tillöguflutningur til úrbóta í þessu málefni eða einfaldlega til upplýsingar í því hafi ekki skilað árangri sem skyldi. En oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég vonast til þess að hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, standi við þær viljayfirlýsingar sem fólust í orðum þeirra, að í sjálfu sér hafi þeir ekkert á móti þessum tillöguflutningi, í sjálfu sér hafi þeir ekkert á móti þessari rannsókn, og veiti þá málinu það brautargengi sem það þarf með.