31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Umboð forseta þings til að gegna því virðulega embætti var nákvæmlega jafnlengi skenkt af kjósendum til hans og umboð annarra þm. Hann var forseti sameinaðs þings svo lengi sem það þing er hafði kjörið hann hafði umboð, en ekki lengur samkvæmt öllum ákvæðum stjórnarskrár. Fordæmi um að þessi ákvæði hafi verið brotin í reynd og jafnvel dæmalaus fordæmi, eins og þau að maður sem gegnt hafði þessu embætti og því næst fallið í kosningum hafi gegnt því áfram, samkvæmt upplýsingum forseta, eru víti til að varast en ekki dæmi til eftirbreytni.