14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það sem ég held að sé mikilvægast í sambandi við mál af þessum toga er einmitt að neyslukannanir fari fram og að þær fari fram eins oft og menn telja að hægt sé að koma því við og sömuleiðis að gerðar séu kannanir hjá ólíkum stéttum fólks. Neyslukannanirnar eru nefnilega grundvöllur að þeim stjórnunaraðgerðum sem hægt er að gera í framhaldi af slíku.

Á grundvelli slíkrar könnunar geta þeir aðilar sem málið snertir síðan sett fram hugmyndir að reiknireglum eða reiknigrundvelli sem þeir telja að henti þeim best hverju sinni. Þannig er t. d. spurningin hvort ekki sé alveg nóg að Hagstofan sjái um að forma þær reiknireglur við útreikning vísitölu sem koma ríkisstj. helst við. Það eru ýmsir vísitölubundnir hlutir sem ríkisstj. eru skyldir, t. d. bætur almannatryggingakerfisins. Það er spurning hvort Hagstofan geti ekki í samráði við Tryggingastofnun ríkisins komið sér niður á reiknireglur til að reikna út vísitölu til að nota við greiðslu bóta. Aðilar á frjálsum vinnumarkaði mundu hugsanlega vilja nota verðbætur í sínum samningum. Þá geta þeir komið sér saman um aðrar reiknireglur ef þeim svo býður við að horfa. Aðalatriðið er að grundvöllurinn, þ. e. neyslukönnunin; sé fyrir hendi. Samningsaðilar gætu síðan ákveðið í frjálsum samningum að taka upp þá reiknireglu við verðbótareikning sem þeim hentar. Við gætum tekið sem dæmi að þeir ákvæðu í samningum að hafa einhvern hluta samninganna vísitölubundinn. Þá notuðu þeir t. d. matvöruliðina úr neyslukönnuninni til að reikna út verðbætur — eða sólarferðir eða hvað sem þeim hentar.

Sé þessu svona fyrir komið er Kauplagsnefnd í sjálfu sér óþörf. Ef Hagstofan sér um að gerðar séu neyslukannanir og sér um útreikning þessara mála af ríkisins hálfu fyrir þá samninga og þær greiðslur sem ríkið þarf að standa við, þá geta aðilar vinnumarkaðarins komið sér upp þeim reiknireglum sem þeir vilja hafa á sínum vígstöðvum.

En aðalatriðið í þessu er að áreiðanlegar neyslukannanir fari fram með mjög reglulegum hætti, vegna þess að reikningarnir verða aldrei nákvæmari en grundvöllurinn og grundvöllurinn er könnunin sjálf.