14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það verður ekki sagt annað en að um nokkra framþróun sé að ræða í þessu efni, eins og efni standa til. — Hér stendur í grg. á 2. bls.:

„Þrjár fyrstu neyslukannanir áttu það sammerkt að vera bundnar við Reykjavík eina, en neyslukönnun 1978–1979 tók til launþega á öllu Höfuðborgarsvæðinu.“

Það var nú ekkert smáræði sem þeir höfðu fært út ríki sitt. Og þetta er skrifað með stórum staf eins og vera ber.

Ég verð að segja það eins og er að ég get ekki annað en byrjað á að óska þeim til hamingju með þetta framtak. Það vekur óljóst umhugsunina um stjórnarskrána og þær breytingar, sem þar er verið að tala um, að vægi þessa svæðis er náttúrulega það sem skiptir öllu máli og fráleitt að vera að tala um nokkur aukaatriði í þeim efnum.

En það er fleira sem er athyglisvert í þessu. Eitt er það, að neðst á bls. 4 hafa þeir vísu menn brotið heilann um hver væri húsnæðiskostnaður íbúanna og komist að þeirri niðurstöðu að þar sem stór fjöldi Íslendinga á eigið húsnæði á þessu svæði, þ. e. 85%, hafi húsnæðiskostnaðurinn lækkað. Þetta er alröng ályktun. Þetta fólk hefur aðeins arð af eigin fé en þeir sem aftur á móti eiga ekki sitt húsnæði hafa það að sjálfsögðu ekki. Það er fráleitt að grauta þessu saman. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar talað er um að í gamla grundvellinum hafi verið miðað við 15.6% vægi húsnæðisliðarins, þá er það miklu nær því að vera rétt mat á því hver húsnæðiskostnaðurinn sé. Trúlega er það samt of lágt.

Það er vikið að því á 5. bls. aftur á móti að þeir hafi rekist á frávik á kostnaði úti á landi hjá aðilum sem athugað var með. Þeir gera að vísu grein fyrir í upphafi að sú könnun sé ekki marktæk því að allt of fáir hafi verið þar inni og þess vegna fullnægi það ekki réttlátri rannsóknarmennsku að meta það sem einhvern heilagan sannleika, en hafa þó komist að þeirri niðurstöðu að um frávik er að ræða í kostnaði úti á landi varðandi útgjöld til húshitunar og rafmagns. Það verður einnig að segja að ekki er hægt að gera minna en óska mönnum til hamingju með svo frábæra niðurstöðu. Auðvitað hefur verið dýrt að komast að þessu og kostað mikla útreikninga og símtöl, eins og komið hefur fram í þessu plaggi, en þeir hafa engu að síður komist að því að þarna er um frávik að ræða.

Það undrar mig, þegar ég les þessa lagasmíð, að ekki skuli hafa hvarflað að flm. hversu skemmtilegur sá texti er sem hér lagður til grundvallar og hversu mikið af innbyggðum húmor er búið að koma fyrir í honum. En kannske er það orðið svo, að mönnum finnist eðlilegt að þegar verið er að leggja frv. fyrir Alþingi Íslendinga fjalli þau aðeins um vissan hluta af landinu, hitt gleymist gjörsamlega. Kannske er það orðið svo eðlilegt í vitund manna að þeir skynji ekki einu sinni gamansemina sem á bak við býr. Mig undrar það t. d. ef Alþýðusamband Íslands eða slíkir aðilar, sem eiga að vera heildarsamtök vinnandi fólks í þessu landi, leggja blessun sína yfir þau vinnubrögð að aðeins sé tekið út ákveðið svæði eins og í þessu tilfelli stór-Reykjavíkursvæðið, höfuðborgarsvæðið. Mig undrar það. Og þegar hv. 3. þm. Reykv. kvartar undan að bannað sé að reikna út ákveðna hluti, það sé algjörlega bannað að reikna þá út, mætti hann gjarnan minnast þess að í hans ráðherratíð lagðist hann eindregið gegn því að farið yrði í að reikna út ákveðna hluti vegna þess að það hentaði honum ekki sem ráðh. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort fordæmið er ekki fengið frá hv. 3. þm. Reykv. á þeim tíma þegar hann var félmrh. (KP: Þessu var hv. þm. með í.)

Ég undirstrika alveg sérstaklega að ég tel það mikla vanvirðu við íslensku þjóðina ef Alþingi telur ekki rétt að rýmka þessi lög það mikið að hægt sé að framkvæma eðlilega neyslukönnun yfir landið allt og taka tillit til þess þegar vísitölugrundvöllur er reiknaður út. Ég hefði gaman af því að fylgjast með því hér á eftir hvort það verða einhverjir úr röðum þm. utan af landi sem telja það skipta einhverju máli hvort slíkir útreikningar fara fram.