31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja við hv. síðasta ræðumann, að hann neytti færisins og gaf út brbl. fyrir síðustu kosningar, ef ég man rétt, eftir að þing hafði verið sent heim. Ég sé því ekki með hvaða siðferðilega rétti hann talar um það hér, að rétt hafi verið að kalla þing saman eftir kosningar. Þeir Alþb.menn töfðu fyrir því að till. þess efnis næði fram að ganga s.l. vor og meðferð þessa hv. þm. á meðan hann var ráðh. á brbl.- valdinu var með þeim hætti að ég held að hann ætti sem minnst að tala um þau mál, satt að segja.

Ég vil einnig taka það fram og spyrja um það, fyrst þeim tveimur hv. þm. sem síðast töluðu er svo heitt í hamsi út af því hverjir skuli vera handhafar forsetavalds, hvers vegna þeir tóku þennan þráð ekki upp á s.l. vori, þegar stjórnarskráin var hér til umr. og lagðar voru fram breytingar á stjórnarskránni. Eðlilegt hefði verið að taka málið upp þá (Gripið fram í: Það var gert.) og láta Alþingi fjalla um það sérstaklega. — Ekki minnist ég þess varðandi handhöfn þingforseta á forsetavaldinu. (Gripið fram í.) Ég var að tala um handhafa forsetavalds. Ég minnist þess ekki, en ég get flett því upp. Ef mig misminnir get ég flett því upp og athugað hvort hv. þm. segir rétt og satt frá.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, út af því fjaðrafoki sem hv. 5. þm. Reykv. hefur hér blásið upp varðandi auglýsingu frá Búnaðarbanka, að Alþfl. beitti sér fyrir því á sínum tíma með Alþb. og Framsfl. að í lög var sett ákvæði þessa efnis — svo nákvæmlega rétt sé haft eftir, með leyfi hæstv. forseta: Þegar frv. er lagt fram skal liggja fyrir kostnaðarmat á till. frv. sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma.

Hér er að vísu verið að tala um að breyta lausaskuldum í lengri lán, en andinn á bak við þessa lagasetningu er sá, að þingnefndir fái sem fyllstar upplýsingar um hvaðeina sem snertir frv. sem fyrir liggja. Ég hygg að viðleitni Búnaðarbankans og hæstv. landbrh. með auglýsingunni um lausaskuldir bænda sé af þeim toga spunnin að það sé verið að reyna að hraða málinu og auðvelda Alþingi störf.

Hins vegar kemur það ekki á óvart þó að Alþfl. leggist með ofurþunga gegn öllu því sem verða má til þess að gera rekstur búa hér á landi ódýrari og auðveldari, leggst með ofurþunga gegn hagsmunum bændastéttarinnar hvenær sem tækifæri gefst til.