14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umr. hefur þróast inn á mun skynsamlegra svið en ég átti von á í upphafi. Það er rétt að fagna því að 7. þm. Reykv. fór inn á heimavöll, því að það eru félagsfræðivísindi sem þarna er verið að ræða um, og við skulum ekkert vanmeta að hann er vel að sér á því sviði. Ég vænti þess að sú nefnd sem fær frv. til umfjöllunar geri sér grein fyrir að fyrirkomulagið, sem er búið að renna sitt skeið, hefur verið steinrunnið eins og það hefur verið framkvæmt, og meðaltalsútreikningar, eins og þar hafa verið settir upp, svara ekki þeim spurningum sem menn hafa verið að leita svara við. Það er hárrétt að miða verður þetta við tekjuhópana sjálfa í þjóðfélaginu til að fá grundvöll. Það er allt önnur neysla hjá fjölskyldu sem hefur 20 þúsund á mánuði en fjölskyldu með 12 þúsund, 40 eða 80. Það hlýtur að skýra sig sjálft.