14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er vitaskuld Alþingi til minnkunar að ætla að afgreiða lánsfjárlög sem flm. frv. hefur sjálfur lýst yfir að ekki standi steinn yfir steini í, þar sem hann hefur látið frá sér fara bréflega yfirlit sem gefur til kynna skýrt og skilmerkilega að það lánsfé, sem eigi hér að úthluta, sé ekki til. Flm. frv. hefur með bréfi, dags. 3. mars s. l., gert heyrum kunnugt og svo við umr. hér á Alþingi að hinn innlendi lánsfjármarkaður muni ekki skila þeim 800 millj. kr. sem ætlunin sé að úthluta til ýmissa verkefna á vegum ríkis og ríkisstofnana, heldur einungis 400–500 millj. kr. Engu að síður er hér lagt til af stuðningsmönnum ríkisstj. að þessi lánsfjárlög verði afgreidd eins og ekkert hafi í skorist. Þetta er niðurlægjandi fyrir ráðh., sýnist mér. Það er aumkunarvert hlutskipti, sem ágætur þm. eins og hv. þm. Friðrik Sophusson fær að mæla fyrir því að fé sé úthlutað sem gæslumaður ríkissjóðs segir að sé ekki til. Þetta er vanvirða við þingið.

Í yfirliti fjmrh. frá 3. mars s. l. er það staðfest, sem margir hafa talið að allt benti til, að forsendurnar undir lánsfjárlögunum og fylgjandi lánsfjáráætlun séu ekki fyrir hendi. Ég tel að það hljóti að vera einstakt í þingsögunni að flm. frv. lýsti því yfir áður en frv. kemur til afgreiðslu að fyrir því sé ekki fótur, undir því sé ekki grundvöllur og frv. sjálft sé þess vegna ómark og að menn setji sig í þær stellingar af hálfu tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna í landinu að loka augunum og láta eins og ekkert sé og ætli sér að afgreiða frv. eins og gæslumaður ríkissjóðs og flm. frv. hefði aldrei sagt orð.

Sannleikurinn í þessu máli er vitaskuld sá, að úr því að ríkisstj. hefur sjálf lýst því yfir að forsendurnar séu undan frv. er ekki aðeins nauðsynlegt heldur líka rétt að frv. sé endurskoðað og það sem meira er: það er háskalegt að afgreiða frv. í óbreyttri mynd. Það er háskalegt vegna þess að verið er að vekja vonir og úthluta peningum sem eru ekki fyrir hendi og með því að standa þannig að verki eru menn jafnframt að missa endanlega tökin á efnahagsmálunum.

Sé farið fram eins og hér er lagt til af hálfu ríkisstjórnarflokkanna getur þrennt gerst:

Í fyrsta lagi getur það gerst að tekin verði erlend lán til að mæta þeirri fjárvöntun sem hér er talin vera á innlendum lánsfjármarkaði. Er það meining ríkisstj.? Ríkisstj. hefur marglýst því yfir að ekki eigi að ganga lengra í erlendum lánum en þegar hefur verið gert. Ég tel háskasamlegt að menn gangi til þess verks blindandi og að nauðsynlegt sé að ef einhver slík áform séu uppi séu þau rædd af hreinskilni. Ég held að það hafi verið samdóma álit flestra þm. að menn væru komnir nógu langt á þeirri braut að taka lán, hvað þá að menn ætli sér að taka erlend lán fyrir aftan bak.

Menn gætu í annan stað látið það gerast að peningar yrðu prentaðir eiginlega í óleyfi til að mæta þessari fjárvöntun, úr því að peningunum hefur verið úthlutað. Það mundi hafa nákvæmlega sömu afleiðingar í viðskiptahalla og erlendri lántöku til þess að mæta hallanum. Þess skulu menn ekkert ganga duldir.

Það þriðja sem gæfi gerst væri að eitthvað stæði aftur af, eitthvað yrði út undan af því sem hefði verið lofað í þessari lánsfjáráætlun og gengið frá. Ef ætti að geta í það út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir, hvað mundi þá helst standa aftur af? Augljóst virðist af lánsfjárlögunum, lánsfjáráætlun og grg. fjmrh. að það yrði fyrst og fremst húsnæðislánakerfið. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þm., hvar í flokki sem þeir standa, telji að einmitt húsnæðislánin eigi að sitja á hakanum og þá ekki síst miðað við þann feikilega niðurskurð sem þegar hefur átt sér stað af hálfu ríkisstjórnarinnar á húsnæðislánakerfinu, miðað við lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunina sjálfa eins og það liggur fyrir.

Sannleikurinn er sá, að ef sá fjárskortur sem lýst hefur verið bitnar að mestu leyti á húsnæðislánakerfinu verður næstum því ekkert eftir af því. Svo einfatt er það. Uppbygging lánsfjárlagafrv. og lánsfjáráætlunarinnar bendir til þess að það sem fyrst mundi standa út af, ef út af yrði látið standa, eins og frv. og áætlunin liggja fyrir, yrði einmitt húsnæðislánakerfið.

Við þessar aðstæður er auðvitað bæði rétt og nauðsynlegt af sjónarhóli þjóðarinnar allrar og með tilliti til hagstjórnar í landinu að lánsfjárlögin verði tekin til endurskoðunar miðað við forsendurnar eins og þær eru best þekktar núna, ýmsir þm. stjórnarandstöðunnar höfðu haft orð á því fyrr að hér væri um hæpnar forsendur að ræða. Ýmsir embættismenn höfðu líka látið það koma fram. Nú er það staðfest.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunin voru lögð fram hefur í rauninni verið staðfest, ekki bara af embættismönnum heldur líka af ráðh., að allt sé komið úr böndunum. Hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess að gera það að umtalsefni í fyrri viku að peningamagn í umferð, að útlán bankakerfisins til almennra útlána væru langtum meiri en gert væri ráð fyrir í efnahagsáætlunum ríkisstj., þ. e. í lánsfjáráætluninni. Fjmrh. hefur fyrir hönd ríkisstj. staðfest að ríkisskuldabréfin seljist ekki í þeim mæli sem áætlað hafði verið. — Herra forseti. Það er mikil umr. í gangi í hliðarherbergi milli ágætra manna. Þeir gætu kannske fundið sér annan stað.

Þetta eru ekki einu yfirlýsingarnar sem borist hafa, heldur hefur hæstv. fjmrh. líka gert það sérstaklega að umtalsefni að fjárlagaramminn sé sprunginn. Við þessar aðstæður og þegar þessar yfirlýsingar þeirra sem fara með stjórn landsins liggja fyrir verður ekki séð að það séu nokkrar forsendur undir því að afgreiða lánsfjárlögin í núverandi mynd — og það sem meira er: það er háskalegt að dómi minni hl. fjh.- og viðskn.

Í samræmi við þessi sjónarmið hefur minni hl. n. skilað nái. á þskj. 442. Þar er í upphafi bent á að skv. upplýsingum frá ríkisstj. í yfirliti frá fjmrn. frá 3. þ. m. sé einungis gert ráð fyrir nú að 400–500 millj. kr. fáist á innlendum lánsfjármarkaði í stað þeirra tæplega 800 millj. kr. sem lánsfjáráætlun og lánsfjárlög þessi byggjast á. Út frá þessu segir:

„Þau lánsfjárlög, sem hér eru til afgreiðslu, eru því gersamlega óraunhæf skv. mati ríkisstj. sjálfrar og allar forsendur lánsfjárlaganna í þessari mynd eru þannig brostnar. Það er því bæði rangt og háskalegt að afgreiða lagafrv. óbreytt og eins og ekkert hafi í skorist. Það vekur falskar vonir, allar áætlanir einstakra stofnana og fyrirtækja verða á röngum forsendum og allur eftirleikur verður þeim mun erfiðari.“

Í þriðja lagi er bent á eftirfarandi:

„Þá hefur komið fram í n.ríkisstj. áformar nú þegar stórfelldar erlendar lántökur umfram lánsfjárlög. Hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim lántökum í tengslum við afgreiðslu þessa þingmáls. Hér má nefna lántöku vegna atvinnuveganna, lausaskulda landbúnaðarins og lánsfjár handa sjávarútveginum.“

Í fjórða lagi er bent á að eins og frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun liggja nú fyrir verði sú ályktun m. a. dregin að ætlunin sé að stórskerða öll húsnæðislán á þessu ári og við það verði alls ekki unað. Af þessu tilefni birtir minni hl. sérstaka grg. um húsnæðismál, sem eru reyndar einn meginþáttur lánsfjáráætlunarinnar. Þessi grg. er birt sem fskj. II, 1 með nál.

Í framhaldi af þessu er sú skoðun minni hl. sett fram að nú þurfti að endurskoða áætlunina frá grunni á raunhæfum forsendum og endurmeta alla þætti. Með tilliti til þessa og þó einkanlega þess, að þau áform, sem birtast í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1984, eru gersamlega óraunhæf að mati ríkisstj. sjálfrar, þá er lagt til, eins og einsýnt verði að telja, að frv. verði vísað aftur til ríkisstj. til endurvinnslu.

Við umfjöllun um þetta mál í nefndinni komu að sjálfsögðu fram ýmsar merkilegar upplýsingar. Ég mun ekki rekja þær allar hér í þessari ræðu, en mig langar, virðulegi forseti, til að minnast á fáein atriði.

Hv. þdm. taka kannske eftir því að meiri hl. n. flytur brtt. við 3. gr., þar sem upp eru taldir fjórir liðir í stað níu að því er varðar úthlutun á lánsfé til Landsvirkjunar, þ. e. til hvaða þátta á vegum Landsvirkjunar lánsféð skuli renna. Það hefur aldrei gerst áður að lánsfé til Landsvirkjunar væri sundurgreint á einstaka liði eins og gert hefur verið í Ed. Alþingis með því að greina það niður á níu mismunandi þætti. Af þessu tilefni mætti hæstv. iðnrh. hjá n. og baðst undan því að svona sundurliðun væri gerð. Hann benti á að það gæti verið að ekki væri skynsamlegt að verja öllu því fé til framkvæmda í rekstri sem upp væri talið í 7. lið, eins og Ed. hefði gengið frá frv. Hann benti á að það gæti verið skynsamlegt að verja því fé með öðrum hætti í ljósi nýrra staðreynda en gert væri ráð fyrir í yfirlitinu eins og það birtist í Nd. Hann bað um að það yrði með þetta farið eins og venja hefði verið og ekki væri verið að tína þetta niður í níu poka.

Meiri hl. n. hefur komist hálfa leið með að verða við tilmælum hæstv. iðnrh. Hún hefur skipt þessu niður í fjóra liði í stað níu. Það standa eftir þrír sérgreindir liðir með tilteknum fjárhæðum, þ. e. Blönduvirkjun í fyrsta lagi, Kvíslaveitur og Þórisvatn í öðru lagi og Suðurlína í þriðja lagi. Í þessar þrjár framkvæmdir skal varið ákveðnum fjárhæðum hvað sem tautar og raular.

Í þessari málsmeðferð, bæði í Ed. og því hvernig meiri hl. kemur fram í málinu í Nd., felst auðvitað mikil tortryggni — tortryggni um að einhverjar ákveðnar framkvæmdir, sem menn hafa sérstakan áhuga á, fái ekki allar krónurnar sem um er beðið. Þetta er til marks um hvernig ástandið er í ríkisstj. og hver tortryggni ríkir innan stjórnarflokkanna. En hæstv. iðnrh. verður að láta sér það lynda að hendur hans eru bundnar í þessu efni.

Það gerðist í annan stað að hæstv. fjmrh. kom til n. brtt. sem hann vildi gjarnan að yrði flutt við afgreiðslu lánsfjárlaganna — brtt. sem varðaði ákveðinn þátt sem oft hefur verið til umfjöllunar hér á þinginu. Það var brtt. varðandi jarðræktarlög og er hún birt í fskj. III með nái. minni hl. Hún var á þá lund að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 43/1979, um breytingu á jarðræktarlögum nr. 79/1972, skal með jarðræktarframkvæmdum á árinu 1984 eigi unnt að efna til sjálfkrafa greiðsluskyldu ríkissjóðs á hluta framkvæmdakostnaðar. Hér var um að ræða ósk af hálfu hæstv. fjmrh. um að höggva á ákveðna sjálfvirkni sem hefur staðið í vegi fyrir umbótum á þessu sviði nokkuð lengi. Þessu var nokkuð vel tekið í n. til að byrja með, en á endanum komst meiri hl. n. á allt aðra skoðun en hæstv. fjmrh. og hætti við að flytja till. sem hæstv. fjmrh. hafði beðið um að yrði flutt. Ég tek þetta líka til marks um hvert ástand ríkir í stjórnarherbúðunum.

Hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir því að hæstv. félmrh. hefur að undanförnu gefið mjög afdráttarlausar yfirlýsingar á opinberum vettvangi um að menn skyldu ekkert óttast um að ekki yrði nóg af húsnæðislánum á þessu ári í þessu landi. Þar yrði staðið við allt sem um hefði verið talað. Í umfjöllun n. um það mál komu ýmsar athyglisverðar upplýsingar í ljós, sem gefa tilefni til að ætla að yfirlýsingar hæstv. félmrh. séu byggðar á heldur veikum forsendum. Það kom í ljós að skv. frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun eins og hún liggur nú fyrir er ekki hugmyndin að veita lán til neinna nýrra framkvæmda í verkamannabústöðum á yfirstandandi ári, engra, ekki eins einasta. Það kom í ljós að til þess að lifa við þessi áform ríkisstj., eins og það er kallað, verður að fresta um 25% framkvæmda við þá verkamannabústaði sem nú eru í gangi. Þetta þýðir að ýmsir þeir sem höfðu fengið loforð um bústað á árinu 1984 og höfðu kannske sagt upp því húsnæði sem þeir voru í verða nú að bíða fram á árið 1985. Það er ekki gott að túlka hvað þessi fjórðungsfrestun þýðir, hvort hún þýðir að allar þær 374 íbúðir sem hér virðist vera um að ræða frestist fram á árið 1985 eða hvort það sé helmingur þeirra eða þriðjungur eða einhver önnur tala. Svo mikið er víst að heil byggðarlög, og ég get nefnt Kópavog í því sambandi, hafa fengið um það ábendingu að þau yrðu að svíkja umbjóðendur sína einu sinni enn og segja þeim að íbúðirnar sem þeir áttu að fá að flytja inn í á þessu ári yrðu ekki tilbúnar fyrr en einhvern tíma á árinu 1985.

Það kom líka fram í umfjöllun n. og má lesa í fylgiritum í bréfum frá húsnæðismálastjórn, að að því er Byggingarsjóð ríkisins varðar yrði að fresta afgreiðslu á fjórðungi þeirra lánsumsókna, sem inn kæmu, til ársins 1985, það yrði að fresta fjórðungi umfram það sem frestað hefði verið áður, en menn hafa venjulega þurft að bíða á undanförnum árum svo og svo lengi eftir því að fá umsóknir sínar afgreiddar. Nú verður sem sé að lengja biðtímann um þrjá mánuði a. m. k. til þess að lifa við þessar áætlanir. Þetta er býsna alvarlegt mál vegna þess að sú frestun kemur ofan á 17% samdrátt sem gert er ráð fyrir í áætlunum að því er varðar úthlutun á lánum til nýrra íbúða. Mönnum finnst þetta kannske ekki mjög alvarlegt, en ef menn líta á hvað það eru margir sem verða fyrir barðinu á frestun á lánsúthlutun eða á afhendingu íbúða held ég að menn ættu að hugsa sig um tvisvar.

Það er augljóst að miðað við það sem hefur tíðkast að undanförnu eru það um 160 íbúðir sem ekki verða hafnar framkvæmdir við í fyrsta lagi í verkamannabústöðum, miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum og gert hafði verið ráð fyrir. Það má búast við að dregið verði úr afgreiðslu á lánum vegna endursölu á verkamannabústöðum líka. Kannske verða ekki margir fyrir barðinu á því, kannske ekki nema eins og 50 manns. Að því er varðar frestun á afhendingu verkamannabústaða sem eru í gangi getur sú tala, eftir þeim upplýsingum að dæma sem gefnar hafa verið, verið einhvers staðar á bilinu 100–300 íbúðir. Þetta þýðir að í verkamannabústaðakerfinu verða það einhvers staðar á bilinu 300–500 manns sem verða fyrir töfum á afgreiðslu íbúða vegna þess hvernig mál eru í pottinn búin. Ef við tökum þá fjórðungsfrestun á afgreiðslu á lánaumsóknum sem gert er ráð fyrir að því er varðar lán til nýbygginga og afgreiðslu á lánum til kaupa á eldra húsnæði eru það eitthvað um 700 manns sem verða fyrir þeirri frestun eða 700 umsækjendur. Það er þannig augljóst að miðað við lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunina eins og hún liggur fyrir eru það um þúsund manns a. m. k. sem verða fyrir einhverri frestun á afgreiðslu á lánum eða afgreiðslu á íbúðum.

En þar með er ekki öll sagan sögð því að í þessum tölum er gert ráð fyrir að 115 millj. fáist úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sem þykir nú heldur vafasamt, og það er gert ráð fyrir að 200 millj. fáist með sérstakri fjáröflun á innlendum lánsfjármarkaði sem hæstv. fjmrh. hefur þegar lýst yfir að hann sjái ekki að sé möguleiki á. Ef það bætist ofan á þetta dæmi hryllir mig við hvernig húsnæðislánakerfið verður á eftir.

Það væri ástæða til að fjalla eilítið um ýmsar greinar í frv. til lánsfjárlaga eins og það liggur fyrir. Ég skal stilla þeim aths. í hóf. (Forseti: Vegna þingflokksfunda, hv. frsm., er þörf á að fresta þessum fundi.) Já, en má ég ekki fá eins og 5 mínútur í viðbót og ljúka ræðunni? (Forseti: Jú, ef hægt er að ljúka ræðunni á svo stuttum tíma er það í lagi.)

Ég vek athygli á 28. gr., þar sem fjmrh. fær opnar heimildir til að taka ný lán erlendis til að endurfjármagna afborganir af lánum sem koma á árinu. Sama gildir um Landsvirkjun skv. sömu grein.

Ég vek athygli á 29. gr., þar sem fjmrh. fær heimild til að taka lán vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar 1983, vegna þess sem stendur aftur af þar upp á 400 millj. kr.

Ég vek athygli á því að skv. 30. gr. er fjmrh. heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um fjármögnun á greiðsluhalla fyrir ríkissjóð á árinu 1983. Sá yfirdráttur var um 1200 millj. kr., eftir því sem okkur var tjáð í n.

Ég vek líka athygli á mjög merkilegri grein, sem er 32. gr., en hún fjallar um eitt skip sem smíða eigi í einni vélsmiðju á einum stað úti á landi og verður tilefni til heillar lagagr. Hvernig sú grein hefur orðið til væri fróðlegt að fá upplýsingar um frá hæstv. fjmrh.

Ég hefði líka áhuga á að minnast eilítið á eitt atriði í sambandi við erlendar lántökur, sem ég man ekki eftir að hafi verið gert að umtalsefni hér áður. Það er tilhneigingin til þess að taka mjög stóran hluta af þeim lánum, sem þjóðin tekur, í dollurum. Það er fært sem rök að útflutningur okkar sé að svo stórum hluta í dollurum að menn eigi að halda erlendum skuldum nokkurn veginn í hlutfalli í dollurum, sá prósentuhluti skuldanna í dollurum megi gjarnan vera svipaður og prósentuhluti útflutnings í dollurum er af heildarútflutningi. Í þessu sambandi trúi ég að menn hafi gert eina reginskyssu, nefnilega þá að telja þann útflutning í hreinum dollurum sem á sér stað til ýmissa Evrópuríkja, eins og Suður-Evrópu, saltfiskinn, svo að dæmi sé tekið, og skreiðina, af þeirri einföldu ástæðu að þegar dollarinn styrkist á alþjóðamörkuðum lækkar verð í dollurum á þessum mörkuðum í Evrópu. Ég held að það sé fyllsta ástæða til þess fyrir hæstv. fjmrh. að taka upp viðræður við seðlabankann um að haga ekki stefnunni í erlendum lántökum með þeim hætti sem gert hefur verið og þá ekki síst með tilliti til þeirrar reynslu sem við höfum í þessum efnum.

Herra forseti. Þessi lánsfjárlög eru forsendulaus eins og þau liggja hér fyrir út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá ríkisstj. sjálfri. Þess vegna er rangt að afgreiða lögin núna með þessum hætti. Það sem nú þarf að gera er að forgangsraða að nýju, miðað við aðstæðurnar eins og þær eru í þjóðfélaginu, og fara ofan í saumana á þessu frv. til lánsfjárlaga að nýju. Að öðrum kosti munu menn lenda í miklum erfiðleikum með útfærslu á efnahagsstefnunni, stefna grundvelli efnahagslífsins í voða, vekja falskar vonir og lifa umfram efni á ýmsum öðrum sviðum. Með tilliti til þessa leggur minni hl. n. til að frv. verði vísað til ríkisstj., eins og kemur fram í nái. frá minni hl. n. — [Fundarhlé.]